Nikon Imaging | Ísland | Europe

16-05-2019

Nikon kynnir fastbúnaðarútgáfu 2.0 fyrir Nikon Z 7 og Nikon Z 6

Með nýja fastbúnaðinum fylgir AF-augnskynjun, aukið AF-skynjunarsvið í lítilli birtu og viðbætt AE-eltilýsing í stillingu fyrir hraða raðmyndatöku (í lengri tíma).

Amsterdam, Hollandi, 16. maí 2019: Nikon hefur í dag sent frá sér fastbúnaðarútgáfu 2.0 sem mun auka enn frekar afköst spegillausra „full-frame“ myndavéla fyrirtækisins, Nikon Z 7 og Nikon Z 6.

Eftirfarandi meginaðgerðir, sem innifaldar eru í uppfærslunni, munu auka enn frekar möguleikana á myndrænni tjáningu:

1. Sjálfvirkur fókus með augnskynjun (AF-augnskynjun) í ljósmyndastillingu 
2. Aukið AF-skynjunarsvið í lítilli birtu 
3. Rakningu með sjálfvirkri lýsingarstýringu (AE-eltilýsingu) hefur verið bætt við stillingu fyrir hraða raðmyndatöku (í lengri tíma)

Helstu eiginleikar fastbúnaðarútgáfu 2.0

1. Sjálfvirkur fókus með augnskynjun (AF-augnskynjun) í ljósmyndastillingu
Nýi AF-augnskynjunareiginleikinn greinir sjálfkrafa og stillir fókus á augu fólks í sjálfvirkri AF-svæðisstillingu (AF-S, AF-C). Þegar augu margra greinast er hægt að nota fjölvirka valtakkann eða undirvaltakkann til að velja hvaða augu myndavélin á að stilla fókus á, jafnvel á meðan horft er í gegnum rafræna leitarann. Þegar búið er að taka myndina getur notandinn auðveldlega staðfest hvort myndin er í fókus með því að ýta á OK-hnappinn til að auka aðdrátt á augað sem átti að stilla fókusinn á.

2. Aukið AF-skynjunarsvið í lítilli birtu
Með nýja fastbúnaðinum er hægt að stilla sjálfvirkan fókus enn hraðar við töku í dimmu eða lítið upplýstu umhverfi, bæði við töku ljósmynda og upptöku kvikmynda. Hann nær yfir AF-skynjunarsviðið* frá -1 EV til -2 EV í Z 7 og frá -2 EV til -3,5 EV í Z 6. Þegar kveikt er á AF-stillingunni fyrir litla birtu í Z 6-vélinni er tiltækt AF-skynjunarsvið í lítilli birtu* aukið** úr -4 EV í -6 EV, þannig að hægt verður að stilla sjálfvirkan fókus við enn dimmari aðstæður.

3. Rakning með sjálfvirkri lýsingarstýringu (AE-eltilýsing) í stillingu fyrir hraða raðmyndatöku (í lengri tíma)
Áður var lýsingu læst á fyrstu myndinni sem tekin var í hraðri raðmyndatöku. Með fastbúnaðarútgáfu 2.0 bætist hins vegar við stuðningur við AE-eltilýsingu í stillingu fyrir hraða raðmyndatöku (í lengri tíma), sem gerir myndavélinni kleift að elta lýsinguna á sama hátt og með fókusinn (AF-eltifókus). Með þessu er tryggt að allar myndir sem teknar eru í hraðri raðmyndatöku eru ekki bara í fókus, heldur einnig með bestu lýsingu sem völ er á, jafnvel þótt birtan í umhverfinu breytist á meðan myndaröðin er tekin.

Hægt er að sækja nýja fastbúnaðinn (ókeypis) í niðurhalsmiðstöð Nikon: https://downloadcenter.nikonimglib.com/

ATHUGASEMDIR TIL RITSTJÓRA
* Við töku ljósmynda í AF-S stillingu, ISO 100, f/2,0 linsa, við 20 °C/68 °F
**AF-skynjunarsviðið fer ekki lengra en -4 EV í Z 7