Nikon Imaging | Ísland | Europe

12-12-2018

Kirill Umrikhin, sendiherra Nikon, sviptir hulunni af horfnum heimi Komandorski-eyja

Stórbrotið ljósmyndunarævintýri sviptir hulunni af sjaldséðu landslagi og dýralífi og brýtur um leið blað í sögu svifbrettaíþróttarinnar

Amsterdam, Hollandi, 12. desember 2018 – Nýjar ljósmyndir teknar af sendiherra Nikon í Rússlandi, Kirill Umrikhin, leiða okkur um strjálbýlan og að mestu ókannaðan heimshluta: Komandorski-eyjar. Kirill ferðaðist til Aljútahéraðsins í Rússlandi og verkefni hans dregur upp mynd af „horfnum heimi“ eldfjallalandslags, fágæts dýralífs og víðfeðmis Beringshafsins.

Leiðangursskipið „Liberty“, Lisinskaya-flóa, Beringseyju
Nikon Z 7 | 1/640 sek. | f/4 29 mm | ISO 250 | NIKKOR Z 24-70mm f/4 S

Gorelyi-eldfjallið, Kamsjatka
Nikon Z 7 | 1/640 sek. | f/4 24 mm | ISO 250 | NIKKOR Z 24-70mm f/4 S

Kirill hafði óhefðbundið markmið með leiðangri sínum; hann var með Nikon D850, Nikon D5 og nýju Nikon Z 7-myndavélina meðferðis og vildi kanna stað sem fáir ferða-, íþrótta- eða dýralífsljósmyndarar höfðu hætt sér á. Hópur hans ferðaðist á skútu um 6000 metra breiðan undirdjúpsálinn sem liggur á milli Aljútaeyja og Kamsjatka og komst nokkrum sinnum klakklaust í gegnum óveður á leiðinni. Hópurinn varð síðan sá fyrsti í sögunni til að svífa um á svifbrettum á þessum hluta Beringshafsins. 

Nýir möguleikar eru í sjónmáli 
Kirill er víðfrægur fyrir íþrótta- og ferðaljósmyndir sínar og draumsýn hans var að uppgötva náttúru eyjanna með því að fara um þær á svifbretti og báti. Fágætt dýralíf og einstakir eyjaskeggjar veittu honum þó nýja sýn á hlutina og mikið reyndi á hæfileika hans sem dýralífs- og heimildaljósmyndara.

Kirill Umrikhin segir: „Vegna þess hve litlar upplýsingar lágu fyrir um eyjarnar varð ég að fá starfsfólk Komandorski-þjóðgarðsins til að aðstoða mig við að skipuleggja leiðangurinn. En það sem beið okkar var miklu meira en ég hefði nokkurn tíma búist við eða getað séð fyrir. Einkennandi fyrir staðinn er hið ótrúlega dýralíf, en þar má telja svínhvali, háhyrninga, sjaldgæfa sjófugla og yfir 250.000 seli – eða einn fimmta af öllum selastofninum í heiminum.“

Nyrðra sellátrið, Beringseyju
Nikon D850 | 1/2000 sek. | f/4 400 mm | ISO 500 | AF-S NIKKOR 400mm f/2.8E FL ED VR

Nyrðra sellátrið, Beringseyju
Nikon D850 | 1/1600 sek. | f/9 15 mm | ISO 1600 | AF-S FISHEYE NIKKOR 8-15mm f/3.5-4.5E ED

Leiðangur Kirills beinir líka kastljósinu að samfélagi eyjaskeggja. Nikolskoye er eina þorpið í Aljútahéraðinu í Rússlandi en þar búa um 700 manns. Þar er að finna skóla, sjúkrahús og einnig er þar svið til að halda viðburði á tyllidögum.

Brunað á svifbretti í náttúrunni
Baráttan við óblíð náttúrufyrirbrigði Komandorski-eyja á báti var í ekki eina skiptið sem Kirill komst í nána snertingu við dýralífið og sjávarbrimið á þessum einstaka stað. Hann og föruneyti hans voru fyrst allra til að svífa á brettum yfir brimsalt Beringshafið. 

„Þessi ferð einkenndist af hinu einstaka sambandi sem er á milli mannsins og náttúrunnar – einfaldleika þess að lifa af landinu og náttúrunni. Það rann upp fyrir mér þegar ég þeyttist hér um á svifbretti fyrstur manna að þrátt fyrir að heimurinn sé að minnka eru enn til leyndardómsfullir og ævintýralegir staðir til að kanna, dást að og mynda.“

Peter Tyushkevich, Khalaktyrskiy-ströndinni, Kamsjatka
Nikon D5 | 1/3200 sek. | f/4 550 mm | ISO 200 | AF-S NIKKOR 400mm f/2.8E FL ED VR (með margfaldara)

Nikolay Rakhmatov og Peter Tyushkevich við nyrðra sellátrið, Beringseyju
Nikon D850 | 1/4000 sek. | f/8 400 mm | ISO 400 | AF-S NIKKOR 400mm f/2.8E FL ED VR

Ávallt reiðubúinn
Hvað búnað varðar ákvað Kirill að taka með sér hina óbrjótanlegu Nikon D5-myndavél með 153 fókuspunktum og 99 krossnemum í því skyni að fanga jaðaríþróttir á mikilli ferð. Óviðjafnanleg 45,4 MP myndgæði Nikon D850-myndavélarinnar ásamt AF-S NIKKOR 400mm f/2.8E FL ED VR-linsunni sem er í uppáhaldi hjá honum gerðu honum kleift að taka nærmyndir af fágætum dýrum staðarins, bæði ofan og neðan við yfirborð sjávar.

Kirill fékk einnig tækifæri til að prófa nýju spegillausu Nikon Z 7-myndavélina, en hún ásamt NIKKOR Z 24-70mm f/4 S-aðdráttarlinsunni gerði útslagið til að hann næði fjölda mynda af sláandi landslaginu auk innilegra nærmynda. 

Fuglabjarg, Beringseyju
Nikon D850 | 1/400 sek. | f/2,8 400 mm | ISO 640 | AF-S NIKKOR 400mm f/2.8E FL ED VR

Fuglar á Beringseyju
Nikon D5 | 1/2500 sek. | f/2,8 200 mm | ISO 200 | AF-S NIKKOR 70-200mm f/2.8E FL ED VR

„Það skipti engu hvort barist var við úfinn sjó á bátnum, hvort gengið var marga kílómetra á toppi Steller eða hvort brunað var á svifbretti í félagsskap hvala og sela, hver einasta myndataka var gerleg, þökk sé þessum þremur myndavélum og linsum í sameiningu.“

Kirill segir síðan að lokum: „Þetta var draumaleiðangur fyrir mig, ekki bara sem ljósmyndara heldur líka sem ferðalang, verkefnastjóra og jafnvel sem íþróttamann, til að leiða fólk í gegnum horfinn heim sem það hefði annars ekki fengið að upplifa.“

Hægt er að sjá allar myndirnar hér: Sérverkefni

Áætlun Nikon Europe um sérverkefni

Áætlun Nikon Europe um sérverkefni veitir sendiherrum Nikon tækifæri til að láta draumaverkefni sín verða að veruleika. Allir sendiherrarnir eru hæfileikaríkir áhrifavaldar í ljósmyndun hvaðanæva úr Evrópu. Áætlunin er hluti af því áframhaldandi markmiði Nikon að styðja við bakið á efnilegum ljósmyndurum, veita þeim vettvang til að takast á hendur verkefni sem eru þeirra hjartans mál og um leið skapa samfélag ljósmyndara sem vilja gera hlutina öðruvísi.

Frekari upplýsingar um verkefni Kirills fást á sérverkefnissíðunni hans.

Búnaðurinn

Kirill notaði eftirfarandi búnað í leiðangri sínum:

● Myndavélar:
   ⚬ Nikon Z 7 
   ⚬ Nikon D850 
   ⚬ Nikon D5

● Linsur:
   ⚬ NIKKOR Z 24-70mm f/4 S 
   ⚬ AF FISHEYE NIKKOR 16mm f/2.8D 
   ⚬ AF-S FISHEYE NIKKOR 8-15mm f/3.5-4.5E ED 
   ⚬ AF-S NIKKOR 24-70mm f/2.8G ED 
   ⚬ AF-S DX NIKKOR 35mm f/1.8G 
   ⚬ PC-E Micro NIKKOR 45mm f/2.8D ED 
   ⚬ AF-S NIKKOR 70-200mm f/2.8E FL ED VR 
   ⚬ AF-S NIKKOR 400mm f/2.8E FL ED VR 
   ⚬ AF-S margfaldari TC-14E IIIUm Kirill

Kirill Umrikhin er sendiherra Nikon í Rússlandi og einn virtasti ferða- og íþróttaljósmyndari landsins. Á undanförnum árum hefur Kirill haldið margar einkasýningar og stýrt ljósmyndanámskeiðum. Hann vann einnig til verðlauna í ljósmyndakeppninni „Best of Russia“ árin 2013 og 2014 og snjóflóðamyndin hans var valin ein af tíu bestu ljósmyndum síðasta áratugar í Rússlandi.

Allar myndir eru í eigu © Kirill Umrikhin