Nikon Imaging | Ísland | Europe

29-09-2015

Nikon kynnir opnun kvikmyndahátíðarinnar Nikon European Film Festival 2015

Tekið verður við innsendum verkum á netinu í stuttmyndakeppni sem haldin verður annað árið í röð með stuðningi óháðu kvikmyndahátíðarinnar Raindance og Asif Kapadia

Amsterdam, Hollandi, 29. september 2015 – Nikon kynnir í dag aðra opnun kvikmyndahátíðarinnar Nikon European Film Festival, í samstarfi við Raindance og í ár er leikstjórinn Asif Kapadia formaður dómnefndar. Hátíðin er keppni þar sem jafnt áhugamenn sem fagmenn í kvikmyndagerð eru hvattir til að gera örstutta kvikmynd, allt að 140 sekúndur að lengd, um þemað „Hversdagsleg augnablik“. Hægt er að senda inn verk frá 13. október 2015 til 15. janúar 2016.

Kvikmyndahátíðin Nikon European Film Festival er nú haldin í annað sinn og í þetta skipti er byggt á þema síðasta árs, „Frá öðru sjónarhorni“. Nú eru kvikmyndagerðarmenn beðnir um að senda inn kvikmyndir þar sem hversdagslegum augnablikum er umbreytt í frumlega og áhrifaríka frásögn. Áskorunin felst í því að sjá hversdagsleikann í nýju ljósi og endurspegla það á frumlegan og ferskan hátt. Í vel heppnuðum verkum er daglega lífið, hvort sem það eru töfrar þess eða hversdagsleiki, fangað og gert eftirminnilegt á skjánum.

Verðlaunaflokkar fyrra árs eru enn sem fyrr í keppninni, þ. á m. „Best Narrative“, fyrir bestu frásögnina frá óvenjulegu sjónarhorni, og „Technical Excellence“, fyrir mest skapandi notkun myndavélabúnaðarins. Aðalverðlaunin, sem féllu í fyrra í skaut leikstjórans Jagjeet Singh fyrir „Voiceless – Stop the Bullies“,, verða veitt því verki sem skarar fram úr á báðum sviðum. Einnig verða veitt verðlaun í flokkunum „Best Student Entry“ og „People’s Choice“, en hin síðarnefndu byggjast á því hversu mörgum líkar við verk og deila því á svæði Nikon Film Festival.

Verðlaunamyndirnar verða valdar af dómnefnd sérfræðinga undir formennsku Asif Kapadia – verðlaunaleikstjóra sem nýlega sendi frá sér rómuðu heimildarmyndina „Amy“ (2015) og á einnig heiðurinn af BAFTA-verðlaunamyndinni „Senna“ (2010). Kapadia hefur einnig skrifað handrit að og leikstýrt fjölda stuttmynda, þ. á m. „The Sheep Thief“ (1997), sem hlaut önnur verðlaun í Cinéfondation-keppninni sem er hluti af kvikmyndahátíðinni í Cannes. Auk þess tekur ljósmyndarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Pieter ten Hoopen, sem hlotið hefur alþjóðlega viðurkenningu, sæti ásamt Asif í dómnefndinni í ár.  

Dirk Jasper, yfirmaður vörudeildar fyrir fagfólk hjá Nikon Europe, sagði: „Okkur er sönn ánægja að halda kvikmyndahátíðina Nikon European Film Festival í annað sinn og gefa upprennandi kvikmyndagerðarmönnum um alla Evrópu tækifæri á að sýna skapandi hugmyndir sínar. Í fyrra voru send inn hundruð frábærra verka og við vorum agndofa yfir gæðum kvikmyndanna sem við fengum sendar. Við hlökkum til að sjá hvernig þátttakendur bregðast við nýja þemanu, „Hversdagsleg augnablik“. Við erum sannfærð um að þetta þema býður upp á fjöldann allan af skapandi möguleikum og gerir kröfur til þátttakenda um að skapa einstaka sögu úr daglegum atvikum sem er svo auðvelt að láta fara fram hjá sér.“

Asif Kapadia, formaður dómnefndar Nikon European Film Festival, sagði: „Með tækni samtímans hefur sífellt fleira fólk tækifæri til að uppfylla drauma sína á sviði kvikmyndagerðar og það er spennandi að taka þátt í þessu framtaki. Svona keppnir eru líka mikilvægar til þess að finna efnilega kvikmyndagerðarmenn og hjálpa þeim að koma sér á framfæri. Ég byrjaði í stuttmyndagerð og sinni henni ennþá á milli lengri kvikmynda. Stuttmyndir bjóða upp á frábæra leið til að prófa hugmyndir, tækni og nýtt samstarf. Sem formaður dómnefndar langar mig gjarnan að sjá hvernig þátttakendur aðgreina sig hver frá öðrum og sýna til fullnustu metnað sinn og tæknilega getu innan 140 sekúndna tímaramma.“

Raindance, einn helsti vettvangur óháðra kvikmyndagerðarmanna og samstarfsaðili Nikon European Film Festival annað árið í röð, leyfir keppninni enn á ný að njóta góðs af víðtækri reynslu og sérþekkingu aðstandenda Raindance. Elliot Grove, kvikmyndagerðarmaður og stofnandi kvikmyndahátíðarinnar Raindance Film Festival, segir: „Þemað í ár, „Hversdagsleg augnablik“, krefst eftirtektarsemi sem er góðum sögumönnum og kvikmyndagerðarmönnum eðlislæg. Ef þú skoðar „hversdagsleikann“ gaumgæfilega sérðu að þar má finna töfra. Þemað er haft einfalt, hreint og beint af ásettu ráði, í því skyni að hvetja þátttakendur til að skapa eigin sögur með eigin stíl. Ég er mjög spenntur að sjá það sem verður sent inn og að fá að vinna aftur með Nikon, fyrirtæki sem hvetur kvikmyndagerðarmenn sérstaklega til að skapa frábærar kvikmyndir og á sér ríka arfleifð í sögu myndatökutækni.“

Flokkar og verðlaun

Sá sem dómnefndin velur sem aðalsigurvegara hlýtur að launum Nikon D810-myndavél og að auki einnar viku tengslamyndunarferð með fullu uppihaldi á kvikmyndahátíðina í Cannes í maí 2016, sem sérstakur gestur aðstandenda Raindance. Enn fremur verða veitt tvenn verðlaun í undirflokkunum „Best Narrative“ og „Technical Excellence“, en sigurvegararnir hljóta að launum Nikon D750-kvikmyndatökubúnað og 3.000 evrur, auk þess sem sigurvegarinn í flokknum „Best Student Entry“ hlýtur Nikon D750-kvikmyndatökubúnað og 2.000 evrur. Sá keppandi sem hlýtur verðlaunin „People's Choice“ fær Nikon D750-kvikmyndatökubúnað til að geta haldið áfram að ná ógleymanlegum skotum.

Reglur keppninnar

Allir keppendur þurfa að skrá sig til að geta hlaðið upp myndunum sínum
Myndirnar verða að vera á ensku eða með enskum skjátexta
Þær mega ekki vera lengri en 140 sekúndur og ekki styttri en 30 sekúndur
Allar myndirnar verða að vera teknar á HD-sniði
Hver keppandi má aðeins senda inn eina mynd
Innsendar myndir mega hafa tekið þátt í öðrum keppnum en mega ekki hafa unnið til verðlauna
Ekkert aldurstakmark er í keppninni, en þátttakendur yngri en 16 ára þurfa að sýna skriflegt leyfi ef um það er beðið
Innsendar myndir má taka upp á hvaða tæki sem er
Allir sigurvegarar þurfa að undirrita samning um notkunarrétt
Allir þátttakendur þurfa að samþykkja ákvæði og skilmála varðandi efnistakmarkanir (t.d. kynlífsatriði, ofbeldi, notkun vörumerkja, efni sem sýnir glæpi o.s.frv.)
Þátttakendur verða að vera búsettir innan Evrópusambandsins, Evrópska efnahagssvæðisins, Albaníu, Andorra, Armeníu, Bosníu og Hersegóvínu, Hvíta-Rússlands, Ísraels, Kasakstans, Kirgistans, Makedóníu, Moldóvu, Mónakó, Rússlands, San Marínó, Serbíu, Svartfjallalands, Sviss, Túrkmenistans, Tyrklands, Úkraínu, Úsbekistans eða Vatíkansins til að vera gjaldgengir í keppnina

Athugasemdir til ritstjóra

Frekari upplýsingar eru á: www.nikonfilmfestival.com

Sigurvegarar Nikon European Film Festival 2014

Aðalverðlaun - „Voiceless – Stop the Bullies“ eftir Jagjeet Singh, Bretlandi
Best Narrative - „Frame of Reference“ eftir Joel Jonsson & og Christian Gardo, Svíþjóð
Technical Excellence - „Powerless“ eftir Martin Taube, Svíþjóð
Best Student Entry - „L’amour“ eftir Camille Van Wessem, Tékklandi
People’s Choice - „Greenwoodo“ eftir Marko Kovac, Serbíu