Nikon Imaging | Ísland | Europe

27-08-2019

NIKON SETUR Á MARKAÐ SÉRHÆFÐA ÞRÍVÍÐA LUT-UPPFLETTITÖFLU FYRIR N-LOG OG KYNNIR STUÐNING VIÐ FLUTNING MYNDEFNIS Á RAW-SNIÐI FYRIR NIKON Z 7 OG Z 6

Amsterdam, Hollandi, 27. ágúst 2019: Nikon kynnir í dag sérhæfða LUT (uppflettitöflu) fyrir N-Log-kvikmyndatöku, sem er eiginleiki í Nikon Z 7 og Z 6 myndavélunum. Síðar á þessu ári verður ný fastbúnaðaruppfærsla gefin út fyrir Z 7 og Z 6 myndavélar sem mun styðja við flutning myndefnis á RAW-sniði, beint úr myndavélinni. Með þessum fastbúnaði verður hægt að taka upp á ProRes RAW-myndbandssniði á Ninja V 4K HDR-skjá/-upptökutæki frá ATOMOS, sem er samstarfsaðili Nikon við þróun tækni fyrir flutning myndefnis á RAW-sniði.

Útgáfa fastbúnaðarins gerir Nikon Z 7 og Z 6 að fyrstu myndavélunum fyrir almenning sem styðja við flutning RAW-myndefnis, en slíkur stuðningur er sem stendur aðeins í boði í kvikmyndatökuvélum fyrir fagfólk. RAW-myndefnisskrár veita mestu upplýsingar sem völ er á, rétt eins og ljósmyndir á RAW-sniði. Stuðningur við flutning RAW-myndefnis setur svo spegillausu myndavélarnar frá Nikon á sama stall og kvikmyndatökuvélar fagmanna, þar sem möguleiki er á enn meiri sveigjanleika við val á litatónum við eftirvinnslu, og gerir þær þar með að hagkvæmum kosti fyrir kvikmyndaframleiðslu. Eiginleikinn fyrir flutning myndefnis á RAW-sniði gerir kröfu um innri viðbótaruppfærslu sem framkvæma þarf hjá þjónustumiðstöð Nikon á hverjum stað. Greiða þarf þjónustugjald fyrir slíka uppfærslu.

Sérhæfða LUT-uppflettitaflan fyrir N-Log frá Nikon er samhæf við Rec. 709 litrýmið. LUT-taflan er ennfremur þrívíð og veitir möguleika á að stilla birtustig, litamettun og litblæ til viðbótar við RGB-litina. LUT-tafla er forstillt með gögnum um RGB-litagildi og notuð til að breyta útliti myndbandsupptöku við litaval í eftirvinnslu. Upptökur með N-Log HDMI-úttaki sem Z 7 og Z 6 bjóða upp á henta sérlega vel fyrir 10-bita upptökur og draga fram allt birtusvið myndflögunnar. Upptökurnar innihalda upplýsingar um rík blæbrigðaskipti með yfirlýstum svæðum og skuggum sem auka sveigjanleika við val á litatónum.

Hægt verður að hlaða LUT frítt niður á vefsíðunum fyrir Nikon Z 6 og Z 7 í niðurhalsmiðstöð Nikon: https://downloadcenter.nikonimglib.com/.

- Athugið að nauðsynlegt er að láta yfirfara innri stillingar myndavélarinnar hjá viðurkenndri þjónustumiðstöð Nikon til að hægt sé að virkja flutning RAW-myndefnis. Gjöld verða innheimt fyrir þessa þjónustu á hverjum stað.