Nikon Imaging | Ísland | Europe

23-08-2018

Nikon setur á markaðinn AF-S NIKKOR 500mm f/5.6E PF ED VR, öfluga aðdráttarlinsu sem er samhæf við FX-snið Nikon

Linsan býður upp á einstakan sveigjanleika sem gerir fríhendis ljósmyndun með miklum aðdrætti ánægjulega auk þess sem hún stuðlar að framúrskarandi optískri frammistöðu og virkni

Amsterdam, Hollandi, 23. ágúst 2018: Það er Nikon sönn ánægja að tilkynna komu AF-S NIKKOR 500mm f/5.6E PF ED VR, öflugrar aðdráttarlinsu sem er samhæf við stafrænar SLR-myndavélar á FX-sniði frá Nikon.

AF-S NIKKOR 500mm f/5.6E PF ED VR er afkastamikil og öflug aðdráttarlinsa á FX-sniði sem styður 500 mm brennivídd. Tilkoma hlutaskiptrar Fresnel-linsueiningar (PF) dregur verulega úr stærð og þyngd linsunnar, sem gerir fríhendisljósmyndun með miklum aðdrætti sérlega auðvelda og ánægjulega.

Verulega hefur verið dregið úr stærð linsunnar, en hámarksþvermál hennar er 106 mm og lengdin 237 mm. Þyngdin er um það bil 1.460 g (um það bil sama þyngd og AF-S NIKKOR 70-200mm f/2.8E FL ED VR), en aðrar 500 mm linsur vega venjulega meira en 3.000 g. AF-S NIKKOR 500mm f/5.6E PF ED VR er hönnuð til að veita mikið þol gegn ryki og vatnsdropum sem ásamt flúorhúðinni á framhlið linsunnar veitir einstakan sveigjanleika við myndatökur.

Ein PF-linsueining ásamt þremur ED-glereiningum veitir sérstaklega skarpa og nákvæma litvinnslu sem er samhæf við stafrænar myndavélar með mikinn pixlafjölda. Þar að auki lágmarka efnin í nýju PF-linsueiningunni sem Nikon hefur þróað að miklu leyti PF-ljósdrauga (ljósdreifingu). Sérlega skýrar myndir nást með samverkandi áhrifum húðunartækni Nikon, en þar ber fyrst að nefna nanókristalhúð sem er mjög gagnleg til að stjórna endurkasti og ljósdraugum.

Hraði á sjálfvirkum fókus (AF) hefur verið aukinn með því að gera linsueiningar í fókushópnum léttari. AF-S NIKKOR 500mm f/5.6E PF ED VR er einnig útbúin titringsjöfnunartækni sem leiðréttir hristing myndavélar á samsvarandi hátt og 4,0 stoppa* aukning í lokarahraða. Að auki hefur SPORT VR-stillingu verið bætt við. Vegna stöðugleika myndarinnar sem birtist í leitaranum er SPORT-stilling sérstaklega áhrifarík þegar verið er að mynda myndefni sem hreyfist á miklum hraða eða á ófyrirsjáanlegan hátt, eins og fugla, eða við tækifæri eins og íþróttaviðburði, sem og þegar verið er að taka upp kvikmyndir.

Notkun FTZ-millistykkis fyrir festingu gerir það kleift að nota linsuna með spegillausum myndavélum með Z-festingu sem einnig eru kynntar í dag. Notendur munu geta tekið myndir með miklum aðdrætti og 500 mm brennivídd í kerfi sem er fyrirferðaminna en nokkru sinni fyrr.

Nikon mun einnig setja á markað DF-M1-punktasjónauka (seldur sérstaklega), aukabúnað sem virkar mjög vel í ljósmyndun með miklum aðdrætti. Þar sem leitarinn veitir mjög þröngt sjónsvið fyrir ljósmyndun með miklum aðdrætti getur verið auðvelt að missa sjónar á myndefninu. Þessi aukabúnaður hjálpar við að fylgjast með væntanlegu myndefni, jafnvel þótt það hreyfist skyndilega.

Tilkoma PF-linsueiningar hefur gert okkur kleift að búa til minni og léttari linsu sem hægt er að taka með á staði þar sem erfitt væri að fara með eldri gerðir af öflugum aðdráttarlinsum. Vegna minni stærðar og þyngdar er ekki lengur þörf á að taka með þrífót, sem auðveldar fríhendis ljósmyndun með öflugum aðdrætti. AF-S NIKKOR 500mm f/5.6E PF ED VR eykur enn við möguleikana á ljósmyndun með miklum aðdrætti með því að sameina framúrskarandi afköst, handhæga stærð og litla þyngd.

Helstu eiginleikar

- Töluvert minni og léttari vegna hlutaskiptrar Fresnel-linsueiningar (PF)
- Ryk- og dropaþolin smíð með Nikon-flúorhúð sem virkar vel til að hrinda frá sér ryki, vatnsdropum, fitu og óhreinindum
- Fyrsta flokks ljóstækni liggur að baki hönnun á einni PF-linsueiningu ásamt þremur ED-glereiningum sem veita sérstaklega skarpa og nákvæma myndþýðingu sem er samhæf við stafrænar myndavélar með miklum pixlafjölda
- Optísk frammistaða heldur velli jafnvel þegar TC-14E III AF-S-margfaldari er notaður
- Efnin í nýju PF-linsueiningunni stýra PF-ljósdraugum (ljósdreifingu) vel
- Nanókristalhúð minnkar endurkast og ljósdrauga verulega sem stuðlar að skýrum myndum
- Hraði á sjálfvirkum fókus (AF) aukinn með því að gera linsueiningar í fókushópnum léttari
- Útbúin VR-búnaði sem leiðréttir hristing myndavélar á samsvarandi hátt og 4,0 stoppa* aukning í lokarahraða
- Tvær stillingar á titringsjöfnun: NORMAL og SPORT
- Rafsegulstýrð ljósopsþynna veitir sérstaklega nákvæma stýringu á ljósopi

* Mælt í samræmi við CIPA-staðla í NORMAL-stillingu með stafrænni „full-frame“ SLR-myndavél með myndflögu sem jafngildir 35 mm.