Nikon Imaging | Ísland | Europe

10-07-2018

VIÐ KYNNUM MYNDAVÉLINA SEM HELDUR AÐ HÚN SÉ SJÓNAUKI. COOLPIX P1000 MEÐ MIKLUM AÐDRÆTTI

Amsterdam, Hollandi, 10. júlí 2018: Nikon kynnir glænýja COOLPIX P1000, einu handhægu myndavél heims með 125x optískum aðdrætti.¹ Nú geta ljósmyndarar náð myndum af ýmsu sem hingað til var enginn hægðarleikur að fanga – til dæmis tunglinu, dýralífi og flugvélum háloftanna.

Með þessari einstöku 16 MP myndavél er leikur einn að ná mögnuðum myndum og kvikmyndum. Með 125x optískum aðdrætti næst heimsins mesta aðdráttarsvið upp á 24–3000 mm.¹ ² Með 250x Dynamic Fine Zoom eru efri mörk í stafrænum aðdrætti allt að 6000 mm.² ³ Slíkur aðdráttur nægir til að ná myndum af tunglgígum.

Björt f/2,8 NIKKOR-linsa skilar framúrskarandi niðurstöðum þegar birtan er takmörkuð. Háþróuð linsutækni Nikon lágmarkar bjögun og skilar ótrúlega skörpum myndum, jafnvel þegar notaður er mjög mikill aðdráttur og mikil brennivídd. Með RAW-stuðningi geta ljósmyndarar vistað óþjappaðar myndaskrár og flutt þær út í myndvinnsluforrit að eigin vali. Þeir sem gera kvikmyndir geta tekið upp 4K/UHD-myndskeið með mjög miklum aðdrætti, sem hentar sérlega vel þegar mynda þarf villt dýralíf úr mikilli fjarlægð.

Ines Bernardes, framleiðslustjóri hjá Nikon Europe, hefur þetta að segja: „Ef þú vilt ná nærmyndum af tunglinu eða fuglsungum þegar þeir yfirgefa hreiðrið er COOLPIX P1000 rétta myndavélin fyrir þig. Aðdráttarsvið þessarar vélar er ótrúlegt, allt frá gleiðhorni í mikinn aðdrátt, sem gerir þér bæði kleift að fanga heildarmyndina og minnstu smáatriði. Auk þess er þyngd þessarar nettu myndavélar með miklum aðdrætti aðeins fjórðungur af þyngd D-SLR-myndavélar með öflugri aðdráttarlinsu – hún er því fullkominn ferðafélagi í fjallgöngum og ferðalögum.“

Helstu eiginleikar

- Mjög öflugur aðdráttur. Aðdráttur í hæstu hæðum. Taktu myndir með 125x optískum aðdrætti (24–3000 mm) og 250x Dynamic Fine Zoom (6000 mm).² ³
- Magnaðar myndir. Björt f/2,8 NIKKOR-linsa, 16 MP myndflaga, EXPEED-myndvinnslubúnaður og RAW-stuðningur skila sérlega skörpum myndum.
- 4K-kvikmyndir með mjög miklum aðdrætti. Það er leikur einn að taka upp kvikmyndir í 4K/UHD 30p eða fullri háskerpu (1080p) í rammatíðni sem er allt að 60p. Taktu upp í víðómshljómi með tæru HDMI-úttaki.
- Óhreyfðar myndir. Dual Detect Optical VR (titringsjöfnun) dregur úr áhrifum af hristingi myndavélar og skilar skarpari myndum og kvikmyndum. Stillingin „Active“ fyrir titringsjöfnun skilar stöðugri leitara og skjámynd.
- Frá öllum sjónarhornum. Björtum 3,2 tommu og 921.000 punkta LCD-háskerpuskjánum er hægt að halla og snúa í nánast hvaða átt sem er.
- Þýður og þægilegur aðdráttarrofi. Auðveldari notkun með stóru gripi og aðdráttarrofa á hlið vélarinnar. Bakfærsluhnappur aðdráttar færir linsuna umsvifalaust úr miklum aðdrætti í gleiðhorn, sem auðveldar þér að finna aftur myndefni sem hefur hreyfst út úr rammanum.
- Fullkomin útkoma. Með RAW-stuðningi geta notendur vistað óþjappaðar myndaskrár og flutt þær út í myndvinnsluforrit.
- Deildu snilldinni. SnapBridge-tengingin gerir notendum kleift að samstilla myndir við snjalltæki um leið og þær eru teknar. Með SnapBridge er einnig hægt að nota snjalltækið fyrir fjarstýrða myndatöku.

¹ 10. júlí 2018
² Jafngildir 35 mm
³ Stækkun á Dynamic Fine Zoom er reiknuð út frá minnsta aðdrætti optíska aðdráttarins.

Samhæft við SnapBridge
Áður en hægt er að nota SnapBridge með þessari myndavél þarf að setja SnapBridge-forritið frá Nikon upp í samhæfu snjalltæki.