Nikon Imaging | Ísland | Europe

30-04-2018

David Yarrow, hinn rómaði listræni ljósmyndari frá Bretlandi, kynntur sem nýr Evrópusendiherra Nikon

Amsterdam, Hollandi, 30. apríl 2018 – Nikon Europe B.V. tilkynnir með stolti að hinn virti og rómaði ljósmyndari David Yarrow mun ganga til liðs við glæstan hóp Nikon-ljósmyndara sem Evrópusendiherra Nikon.

Hrífandi og listfengar ljósmyndir Yarrow af lífinu á jörðinni hafa áunnið honum stóran hóp aðdáenda meðal ljósmyndara, listaverkasafnara og almennra neytenda, og sá hópur stækkar dag frá degi. Yarrow er þekktur fyrir stórar, einlitar myndir og verk hans má sjá í fjölmörgum virtum listasöfnum og sýningarsölum um heim allan. Stíll hans er einstakur og hann hefur undanfarin ár öðlast verðskuldaðan sess meðal bestu og virtustu náttúrulífsljósmyndara í heimi.

Yarrow hefur notað Nikon-vörur í 33 ár – eða allt frá því að hann steig fyrstu sporin á ferlinum, en á þeim árum tók hann meðal annars heimsfræga ljósmynd af Diego Maradona í örlagaþrungnum úrslitaleik á HM árið 1986. Hin síðari ár hefur hann skapað sér sess sem einn af söluhæstu listrænu ljósmyndurum heimsins. Alla tíð hefur hann haldið tryggð við Nikon. Nýlega gegndi David lykilhlutverki við kynningu á D850-myndavélinni.

Það sem meira er um vert er að verk Yarrow endurspegla ástríðu hans fyrir mannúðarstarfi og náttúruvernd. Sem stendur er hann við tökur í Amboseli í Kenía þar sem hann vinnur að sérverkefni sínu sem Evrópusendiherra Nikon, og það verkefni hyggst hann nýta til að koma báðum þessum hugðarefnum sínum á framfæri.

David Yarrow segir: „Ferill minn sem ljósmyndari hefur hreint ekki verið hefðbundinn og það er óhætt að segja að ég hafi harðneitað að láta staðsetja mig í einhverju „þema“ eða „sérsviði“. Þrátt fyrir það hefur ljósmyndun ævinlega verið mér leið til endurlausnar og um leið flóttaleið frá veruleikanum: tækifæri til að kanna fjarlæg heimshorn og fanga spennandi og krefjandi umhverfi og það fáséða dýra- og náttúrulíf sem á heimkynni sín á þessum afskekktu stöðum.

Myndavélar frá Nikon og NIKKOR-linsur hafa fylgt mér hvert fótmál, sama hvert leið mín hefur legið. Listrænir eiginleikar þessa búnaðar og þægindin við notkun hans hafa tekið framförum ár frá ári og ég veit ekki um neinn annan ljósmyndunarbúnað sem uppfyllir þarfir jafnt fagljósmyndara sem áhugaljósmyndara eins vel. Ljósmyndun er listform minnar kynslóðar og ég vona að starf mitt sem Evrópusendiherra Nikon verði öðrum innblástur og hvatning til að nota snjallsímana sína aðeins minna og augun aðeins meira. Um það snýst þetta jú allt.“

Evrópusendiherrar Nikon

Evrópusendiherrar Nikon eru hæfileika- og áhrifaríkir listamenn í myndgerð sem nota nýjustu tækni greinarinnar og skilning á félagslegum stefnum til að sýna núverandi tímaskeið. Nikon skoraði á David að gera draumaljósmyndaverkefnið sitt að veruleika og byggja á þeirri alþjóðlegu viðurkenningu sem hann hefur hlotið sem ljósmyndari.

Frekari upplýsingar um David og fyrri verk hans er að finna á vefsvæði Nikon.  

Um David

David Yarrow fæddist í Glasgow í Skotlandi árið 1966. Hann byrjaði snemma að taka myndir og um tvítugt leiddi röð atvika hann á vettvang úrslitaleiks heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Mexíkóborg, þar sem hann myndaði fyrir breska dagblaðið The Times. Þann dag tók David hina heimsfrægu ljósmynd af Diego Maradona að hefja bikarinn á loft og í kjölfarið var hann beðinn að mynda næstu Ólympíuleika, sem og fjölmarga aðra íþróttaviðburði. Það liðu þó mörg ár þar til hann fann viðfangsefnið sem hreif hann mest allra, en hrífandi og listfengar ljósmyndir Yarrow af lífinu á jörðinni hafa áunnið honum stóran hóp aðdáenda meðal listaverkasafnara, og sá hópur stækkar dag frá degi. Nú, árið 2018, hefur David skapað sér sess sem einn af söluhæstu ljósmyndurum heims á sviði ljósmyndalistar.

Allar myndir eru í eigu © David Yarrow