Nikon Imaging | Ísland | Europe

21-03-2018

Ljósmyndarinn Ray Demski, sendiherra Nikon, tekur myndir af harðneskjulegri rómantíkinni í kringum boxarana í Bukom

Amsterdam, Hollandi, 21. mars 2018 – Í nýjasta ljósmyndaverkefni sínu kafar Ray Demski, Evrópusendiherra Nikon, niður í dulúðina sem umvefur Bukom, lítið úthverfi í Gana, en þaðan hafa sumir af bestu hnefaleikaköppum heimsins komið. Ray hélt inn í þennan heim, vopnaður D850-myndavélinni og NIKKOR-linsum, með það í huga að kynnast menningu hverfisins og mynda hnefaleikamennina við þjálfun – þar sem þeir þroskast úr krökkum úr hverfinu í goðsagnir á alþjóðasviði íþróttanna.

Hnefaleikakappinn Issah Inusa hvílir sig milli þjálfunarbardaga í hnefaleikasalnum „Attoh Quarshie Boxing Gym“ í Accra í Gana, 2. október 2017.

Nikon D5 + AF-S NIKKOR 24-70mm f/2.8G ED | 1/800 sek. | f/2,8 | 70 mm | ISO 6400 | © Ray Demski

Frá vinstri – hnefaleikamennirnir Isaac Ekpo (frá Nígeríu) og Issah Inusa í æfingabardaga í hnefaleikasalnum „Attoh Quarshie Boxing Gym“ í Accra í Gana, 2. október 2017.

Nikon D5 + AF-S NIKKOR 24-70mm f/2.8G ED | 1/800 sek. | f/2,8 | 40 mm | ISO 6400 | © Ray Demski

Bukom er lítið hverfi í Accra, höfuðborg Gana. Hverfið er lítið og þar er mikil fátækt en þrátt fyrir það hafa óvenjulega margir afburðahnefaleikamenn komið þaðan. Íþróttin er aðaláhugamálið í hverfinu, sem á sér langa bardagasögu – fæstir hafa efni á skólagöngu og það þýðir að störfin sem er helst hægt að fá eru við verkamannavinnu, við fiskveiðar eða sem hnefaleikamaður. Í þessu litla samfélagi eru yfir 30 hnefaleikasalir og íþróttin hefur yfir sér mikinn „frægðarljóma“ – hver sá sem kemst á verðlaunapall í hnefaleikum verður frægur og dáður í Bukom.

Ray er ljósmyndari með sérstakan áhuga á að mynda íþróttir og hraða atburðarás og hann ólst upp við hnefaleika. Hann hefur lengi haft mikinn áhuga á Bukom: „Ég frétti af þessu hverfi fyrir löngu og mér fannst það sem ég heyrði svo dulúðugt og spennandi. Hvernig vildi til að staður sem er svona lítill og svona langt frá alþjóðasviði hnefaleikanna hefur alið af sér svona marga frábæra hnefaleikamenn? Mig langaði að segja þessa sögu á minn hátt, vildi hefja þessa menn upp og sýna þá sem hetjur, í sama ljósi og samfélag þeirra sér þá, og gera þá sýnilega og fræga eins og þeir verðskulda.“

Frá vinstri – hnefaleikaþjálfarinn Osumanu Nii Amarh Brew frá hnefaleikasalnum „Attoh Quarshie Boxing Gym” og Barnor Wisdom, ungur hnefaleikamaður, stilla sér upp fyrir mynd á ströndinni þar sem hnefaleikamennirnir hlaupa og þjálfa árla morguns í Accra í Gana, 7. október 2017.

Nikon D850 + AF-S NIKKOR 24-70mm f/2.8G ED | 1/1600 sek. | f/9 | 40 mm | ISO 64 | | © Ray Demski

Frá hægri – hnefaleikamaðurinn Braimah Kamoko, einnig þekktur sem „Bukom Banku“, í æfingabardaga við George Ashie, einnig þekktur sem „Rauði tígurinn“, í hnefaleikasalnum „Wadada Boxing Gym“. Þeir eru að búa sig undir bardaga Kamoko við Bastie Samir í Accra í Gana, 4. október 2017.

Nikon D5 + AF-S NIKKOR 24mm f/1.4G ED | 1/320 sek. | f/1,8 | 24 mm | ISO 5000 | © Ray Demski

Ray eyddi mörgum mánuðum við rannsóknarvinnu og hafði samband við aðila sem fylgjast náið með þróun hnefaleika í hverfinu, svo sem Bukom Boxing News og íþróttafréttamanninn Sammy Heywood Okine, sem gerði honum kleift að gera verkefnið í Bukom að veruleika. Þetta byrjaði sem venjulegt íþróttamyndaverkefni en breyttist fljótlega í annað og meira – verkefni sem náði út í samfélagið og hafði í för með sér að Ray hitti yfir 40 íbúa í hverfinu á degi hverjum. Áður en yfir lauk var Ray búinn að mynda í sjö mismunandi æfingasölum og fylgjast með þeim sem þar voru við þjálfun.

Við myndatökurnar notaði hann D850-myndavélina og D5-myndavélina með eftirfarandi linsum: AF-S NIKKOR 24mm f/1.4G ED, AF-S NIKKOR 105mm f/1.4E ED, AF-S NIKKOR 24-70mm f/2.8G EDAF-S NIKKOR 35mm f/1.4G og AF-S NIKKOR 85mm f/1.4G.

Yfirþjálfarinn, Charles Quartey, stjórnar æfingu í hnefaleikaklúbbnum „Charles Quartey Boxing Foundation“ í Accra í Gana, 9. október 2017.
Nikon D850 + AF-S NIKKOR  24-70mm f/2.8G ED | 1/125 sek. | f/2,8 | 24 mm | ISO 1600 | © Ray Demski

„Ég fór til Gana og ætlaði að taka myndir í myndaröð um íþróttir, en það sem ég uppskar var eitthvað annað og mun dýpra – saga um lítið borgarsamfélag sem hefur alið af sér, og er enn að ala af sér, suma af bestu íþróttamönnum heimsins. Sjálfsmynd þessa samfélags býr í hnefaleikaástríðu þeirra sem það byggja.“

Myndir Rays hverfast um nokkra einstaklinga, þeirra á meðal Charles Quartey – yfirþjálfara í æfingasal með engu þaki sem er ekki bara æfingasvæði heldur einnig heimili margra barnanna sem æfa þar. Quartey borgar einnig fyrir mat og skólagöngu þessara barna. Meðal annarra sem hann myndaði má nefna Bastie Samir, en þegar hann þjálfar vill hann láta fjóra aðra gaura reyna að kýla sig, alla samtímis, Emmanuel Tagoe, heimsmeistarann í fjaðurvigt, og Bukom Banku – sem er vinsæll hnefaleikakappi og elskaður af aðdáendum sínum, sem elta hann á röndum og flykkjast í salinn til að horfa á hann við æfingar.

Demski hefur þetta að segja að lokum: „Varðandi græjurnar þá var þetta fyrsta verkefnið af þessu tagi þar sem ég notaði D850-myndavélina, sem skilaði mér upplausninni og virka sviðinu sem ég þurfti, í mjög nettu og hraðvirku húsi. AF-S NIKKOR 24 mm f/1.4G ED-linsan var frábær til að komast mjög nálægt atburðarásinni en AF-S NIKKOR 105 mm f/1.4E ED-linsan uppfyllti allar mínar þarfir hvað varðaði andlitsmyndatökur. AF-S NIKKOR 24-70mm f/2.8G ED er svo fjölhæf – frábært verkfæri fyrir hasarljósmyndara.“

Ungi hnefaleikamaðurinn Hakeem Nii Nortey Lokko, í hléi frá þjálfun í hnefaleikasalnum „Bronx Boxing Gym“ í Accra í Gana, 4. október 2017.
Nikon D850 + AF-S NIKKOR 24-70mm f/2.8G ED | 1/200 sek. | f/4 | 50 mm | ISO 800 | © Ray Demski

„Allt þetta varð til þess að ég gat fangað bardagaandann í Bukom nákvæmlega eins og ég sá fyrir mér. Mörg tilfinningaþrungin augnablik komu upp á tökutímanum og ég verð ævinlega þakklátur samfélaginu í Bukom fyrir að bjóða mig velkominn, og Nikon fyrir að styðja þetta hugðarefni mitt.“

Hægt er að sjá allar myndirnar hér.

Evrópusendiherrar Nikon

Evrópusendiherrar Nikon eru hæfileika- og áhrifaríkir listamenn í myndgerð sem nota nýjustu tækni greinarinnar og skilning á félagslegum stefnum til að sýna núverandi tímaskeið. Nikon skoraði á Ray að gera draumaljósmyndaverkefnið sitt að veruleika og byggja á þeirri alþjóðlegu viðurkenningu sem hann hefur hlotið sem hasar- og ævintýraljósmyndari.

Frekari upplýsingar um verkefni Rays fást á sérverkefnissíðunni hans.

Um Ray

Ray Demski er einn af mest spennandi hasar- og ævintýraljósmyndurum sem starfa í dag. Hann er búsettur í München og Upfront sér um umboðsmál hans. Ray ólst upp við Klettafjöllin í Kanada og hafði alltaf áhuga á útivist. Þessi áhugi varð enn meiri þegar hann var fjórtán ára og sigldi á 45 feta seglskútu um heiminn í sjö ár. Á þessum tíma eignaðist Ray sína fyrstu myndavél. Þar með kviknaði ástríða hans fyrir því að festa á mynd allt það fjölbreytta fólk og landslag sem á vegi hans varð, ásamt því að þróa áfram færni sína sem íþróttamaður. Árið 2007 (40 löndum og næstum sjö árum síðar) varð ástríða hans að fullu starfi. Ray sérhæfir sig í hasar- og ævintýraljósmyndun og nýtir sér íþróttamannslegt atgervi sitt til að finna ný sjónarhorn.

Allar myndir eru í eigu © Ray Demski.