Nikon Imaging | Ísland | Europe

19-10-2016

Taktu enn betri myndir en áður með nýju AF-S NIKKOR 70–200mm f/2.8E FL ED VR linsunni

Amsterdam, Hollandi, 19. október, 2016: Nikon gerir aðdráttarlinsuna með FX-sniði, sem atvinnuljósmyndararnir kjósa, sneggri, léttari og öflugri en nokkru sinni fyrr. Nýja AF-S NIKKOR 70–200mm f/2.8E FL ED VR linsan er hönnuð til að skara fram úr og veita ljósmyndurum sem nota hraðvirkar Nikon D-SLR-myndavélar aukið forskot.

Hvort sem myndir eru teknar af íþróttaviðburðum, fréttaefni, hreyfingu eða mannlífinu hefur nýjasta útgáfan af þessari margrómuðu linsu að geyma fjölda endurbóta sem skipta sköpum á vettvangi. Bættur AF-eltifókus og lýsingarstýring, ásamt VR SPORT-stillingu, skila í sameiningu framúrskarandi raðmyndatöku. Í samanburði við forverann hafa afköst á öllum rammanum aukist og birturýrnun minnkað. Næsta fókusfjarlægð er nú 1,1 m og hámarksendurmyndunarhlutfall hefur hækkað úr 0,11x upp í 0,21x. Stillanlegir hnappar á linsuhylkinu gera notkun þægilegri og búið er að snúa við staðsetningu aðdráttar- og fókushringjanna til að bæta jafnvægið. Linsan er með nýju linsuhylki úr magnesíumblöndu, ásamt HRI- og flúoríteiningum, sem gerir hana léttari en nokkru sinni fyrr, en samt jafnendingargóða og áður.

Dirk Jasper, markaðsstjóri hjá Nikon Europe, segir: „Nýja NIKKOR 70–200mm f/2.8E linsan býður upp á ótrúlegar umbætur í myndgæðum og sneggri, betri alhliða myndatöku. SPORT VR-stillingin og handhæg hönnun sem fengin er í arf frá nýjustu 400 mm, 500 mm og 600 mm aðdráttarlinsum Nikon skiptir sköpum fyrir ljósmyndara sem taka myndir af hröðum, ófyrirsjáanlegum atburðum með D-SLR-myndavélum fyrir fagmenn eins og D5.“

Helstu eiginleikar

Bætt titringsjöfnun (VR) og nákvæmni milli linsu og myndavélar
Með nýjustu kynslóð titringsjöfnunar frá Nikon er hægt að taka myndir með allt að fjórum stoppum hægari lokarahraða en án VR¹ og verður hún virk um leið og lokaranum er ýtt niður til hálfs. SPORT VR-stilling skilar stöðugri mynd í leitaranum þegar teknar eru myndir af leifturhraðri atburðarás. Bættur AF-eltifókus gerir ljósmyndurum kleift að bregðast fljótt og nákvæmlega við breytingum á sjálfvirkum fókus. Rafsegulstýrð ljósopsvirkni býður upp á einstaklega stöðuga AE-stýringu, jafnvel í háhraðamyndatöku.

Framúrskarandi gæði: optísk nákvæmni alla leið að brún rammans
Glæný optísk bygging tryggir frábær afköst á öllum rammanum. Nýja optíska hönnunin felur í sér sex ED-glereiningar, flúorítlinsueiningu og HRI-einingu (hár ljósbrotsstuðull). Nanókristalhúðun dregur verulega úr draugum og ljósdraugum og eykur skýrleika mynda, en samhliða því er litskekkju, litadreifingu og bjögun stjórnað yfir allt aðdráttarsviðið.

¹ Í venjulegri stillingu, byggt á CIPA-staðli.