Nikon Imaging | Ísland | Europe

23-08-2016

I AM photokina 2016: Hvað er í vændum hjá Nikon?

Á photokina í ár mun Nikon leggja sérstaka áherslu á vörur sem styðja og auðga sköpunargleðina

Amsterdam, 23. ágúst 2016 – Nikon býst til að taka sér stöðu á besta stað í salnum, á virtustu sýningu myndvinnslubúnaðar í heiminum, photokina, í Köln. Gestir mega vænta þess að fá fyrstir allra að heyra spennandi fréttir og fá færi á að prófa og skoða nýjustu vörurnar á básnum í sal 2.2. í Koelnmesse. Einstakt úrvalslið afburða ljósmyndara sem starfa með Nikon munu einnig halda kynningar þar sem gestum er sýnt hvernig ógleymanlegar ljósmyndir verða til.

Nýlega var kynnt til leiks myndavélin Nikon D3400, en hún verður sýnd almenningi í fyrsta sinn á Nikon-básnum. Það er full ástæða til að skoða þessa DSRL-myndavél betur, því þetta er sérlega skemmtileg áhugamannavél sem auðveldar þér að deila myndum á ferð og flugi og tekur hágæða ljósmyndir án minnstu fyrirhafnar.

Gestir á bás Nikon geta líka fengið að prófa nýjustu DSLR-vörurnar fyrir fagmenn, þar á meðal hina margrómuðu Nikon D5 á FX-sniði, sem og yngra systkini hennar, Nikon D500 myndavélina. Kannaðu heillandi heim 360 gráðu ljósmyndunar með Nikon KeyMission 360. Þessi frábæra vara, sem var frumsýnd á CES 2016 rafbúnaðarsýningunni, verður til sýnis á básnum. Þar verður einnig hægt að skoða og prófa fjölbreytt úrval af NIKKOR-linsum og handhægum COOLPIX-myndavélum.

Þá munu heimsþekktir ljósmyndarar verða með kynningar á Nikon-básnum og deila með gestum reynslu sinni af myndatöku með nýjasta búnaðinum frá Nikon. Einn ljósmyndara National Geographic, Ami Vitale, mun bjóða áhorfendum að koma með sér að skoða nashyrninga í Afríku og pöndur í Kína, en einn sendiherra Nikon í Evrópu, Joel Marklund, ætlar að leyfa gestum að skyggnast bak við tjöldin á mörgum stærstu íþróttaviðburða heimsins, þar á meðal í Ríó 2016 og úrslitunum í Meistaradeildinni. Finndu adrenalínið þjóta um æðarnar í mótorkrosskeppni eða komdu í víðavangshlaup með Marcel Lämmerhirt og fáðu að kynnast heillandi sýn fleiri ljósmyndara á heiminn sem þeir hrærast í.

Takami Tsuchida, forstjóri Nikon Europe, segir: „Við erum afar stolt af því að styðja ljósmyndara um heim allan sem skapa spennandi myndefni á degi hverjum og það er okkur mikill innblástur að sjá tæknibúnaðinn frá okkur nýttan í verki til að búa til frábærar myndir. Nú er verið að búa til meira myndefni en nokkru sinni fyrr og við leggjum metnað okkar í að tryggja að vörurnar sem við sýnum á photokina 2016 auðgi enn frekar sköpunargáfu, frumleika og vönduð vinnubrögð notendanna.“

Photokina verður opin almenningi frá 10:00 til 18:00 frá 20. til 25. september 2016. Ítarlega dagskrá með tímasetningum fyrirlestra og viðburða verður að finna á vefsvæði okkar. Ef þú vilt fá allar nýjustu fréttir og tilkynningar skaltu fylgja okkur á Twitter @NikonEurope. Vertu með í samtalinu á Twitter #photokina.