Nikon Imaging | Ísland | Europe

27-07-2016

Heildarframleiðsla á NIKKOR-linsum fyrir myndavélar með lausum linsum nær 100 milljónum

Amsterdam, Hollandi, 27. júlí 2016: Nikon Corporation er það heiður að tilkynna að heildarframleiðsla á NIKKOR-linsum¹ fyrir Nikon-myndavélar með lausum linsum náði 100 milljónum í júní 2016.

Saga NIKKOR, vörumerkis Nikon fyrir ljósmyndalinsur, hófst árið 1932 með skráningu Nikon (þá Nippon Kogaku K.K.) á vörumerkinu NIKKOR og í framhaldi kom út linsan Aero-Nikkor fyrir loftljósmyndun árið 1933. Árið 1959 sendi Nikon frá sér Nikon F SLR-myndavélina, sem og fyrstu NIKKOR-linsurnar fyrir Nikon SLR-myndavélar, þar á meðal Nikkor-S Auto 5cm f/2.

Heitið NIKKOR varð til með því að skeyta „r“-i – en á þeim tíma var það útbreiddur siður – aftan við „Nikko“, sem var skammstöfun á Nippon Kogaku K.K., en það var upprunalegt nafn fyrirtækisins við stofnun þess.

Lína Nikon af NIKKOR-linsum felur nú í sér yfir 90 linsugerðir, þar á meðal linsur með fastri brennivídd með miklu gleiðhorni og linsur með öflugum aðdrætti, fiskaugalinsur, aðdráttarlinsur, míkrólinsur og PC-E-linsur sem eru samhæfar við mikinn fjölda aukahluta, sem og 1 NIKKOR-linsur fyrir háþróaðar myndavélar með lausum linsum.

F-festing Nikon hefur verið notuð í SLR-myndavélum og lausum linsum Nikon allar götur síðan Nikon F-myndavélin kom á markað árið 1959. Í gegnum tíðina hefur F-festingin tileinkað sér nýjustu tækni hvers tíma, svo sem stýringu ljósops og sjálfvirkan fókus, og svo er enn í dag, til að tryggja samhæfi við nýjustu gerðir stafrænna myndavéla og linsa.

Nikon stendur einnig fyrir öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi til að meta optísk afköst linsa. Árið 2013 hóf Nikon vinnu við þróun og útgáfu OPTIA², sem er tæki til að mæla allar tegundir litskekkju³ sem fram koma hjá ljósmyndalinsum, sem og sérstaks myndahermis sem notaður er með OPTIA. Myndahermirinn (hugbúnaður) tryggir að strax á hönnunarstigi næst hermun sem jafngildir raunverulegri ljósmyndun með frumgerðum linsa. Á þann hátt er hægt þróa linsur sem hafa betri stjórn á upplausn og fjölda annarra linsueiginleika á borð við „bokeh“ og endurmyndun áferðar og dýptar.

Ein af linsunum sem notast við OPTIA í hönnun sinni er nýja linsan AF-S NIKKOR 105mm f/1.4E ED. Þessi linsa notast við hönnunarhugmyndina um raunsanna birtingu þrívíddar (framúrskarandi endurmyndunareiginleika), með náttúrulegri endurmyndun þrívíddar í tvívíðum ljósmyndum. Myndir teknar með linsunni fá náttúrulega dýpt og aðalmyndefninu er komið vel til skila með fallegum „bokeh“-áhrifum sem gera myndina óskýrari eftir því sem fjarlægðin frá fókuspunktinum eykst.

Nikon hefur sett í loftið alþjóðlegt vefsvæði, www.nikkor.com, til þess að koma á framfæri úrvali áhugaverðs efnis um NIKKOR-linsur, þar á meðal söfnum mynda og kvikmynda sem teknar eru með NIKKOR-linsum, viðtölum við linsuhönnuði og margt fleira.


¹ Lausar linsur fyrir Nikon SLR myndavélar og Nikon 1, háþróaðar myndavélar með lausum linsum
² Optical Performance and Total Image Analyzer (greiningartækni fyrir optísk afköst og heildarmyndgæði)
³ Litskekkja kemur fram þegar ljós frá einum punkti hlutar sameinast ekki í einum punkti eftir að það er sent í gegnum optískt kerfi, svo blæðing lita eða óskýrleiki kemur fram í myndinni. Litskekkja getur líka valdið því að mynd af hlut kann að sýna hlutinn sem bjagaðan.