Nikon Imaging | Ísland | Europe

27-07-2016

Andlitsmyndir í nýju ljósi með AF-S NIKKOR 105mm f/1.4E ED

Amsterdam, Hollandi, 27. júlí 2016: Nikon kynnir nýju linsuna AF-S NIKKOR 105mm f/1.4E ED og bætir þar með öðrum gimsteini við úrval sitt af f/1,4 hröðum linsum á FX-sniði með fastri brennivídd. Linsan er eina 105 mm linsan með sjálfvirkum fókus á markaðnum sem er með f/1,4 stærsta ljósop og er því spennandi viðbót við NIKKOR-línuna. Atvinnuljósmyndarar sem vilja ná nýjum hæðum í listrænum andlitsmyndatökum og tískuljósmyndun geta notið óviðjafnanlegs frelsis og fullkominnar stjórnar.

AF-S NIKKOR 105mm f/1.4E ED er verðugur arftaki hinnar rómuðu NIKKOR 105mm f/2.5 linsu frá Nikon. Hvort sem ljósmyndarar eru að vinna með náttúrulegt ljós eða á ljósmyndastofu skilar nýja optíska hönnunin óviðjafnanlegri heildarskerpu og gullfallegum „bokeh“-áhrifum. 105 mm brennivíddin ásamt stystu fókusfjarlægð upp á 1 m gerir kleift að ná andlitsmyndum á öllum rammanum án þess að þurfi að skera þær til. Afköstin við gleiðhornamyndatöku eru engu lík og myndefnið verður einstaklega skýrt, jafnvel þegar teknar eru myndir með stærsta ljósopi.

Til að tryggja hámarksárangur við töku andlitsmynda hafa verkfræðingarnir hjá Nikon veitt upplausninni við jaðarinn sérstaka athygli. Þannig er verulega dregið úr hættunni á tígullaga ljósdraugum og því verður endurmyndun punktaljósgjafa skýrari og skarpari í fínlegum rúnnuðum punktum, jafnvel úti við jaðra myndarinnar. Birturýrnun við jaðra er stýrt til að halda birtunni yfir allan rammann, jafnvel þegar teknar eru myndir með stærsta ljósopi og fókus stilltur á óendanleika. Þökk sé einstakri optískri hönnun breytist skerpan í myndunum mjúklega og þannig fást „bokeh“-áhrif sem eru alveg laus við grófar útlínur. Dýpt og vídd myndanna verður ótrúleg.

Dirk Jasper, markaðsstjóri hjá Nikon Europe, segir: „AF-S NIKKOR 105mm f/1.4E ED er mögnuð viðbót við hið margrómaða f/1,4 vöruúrval hjá Nikon. Linsan er byggð á gæðum sem ná aftur til fyrstu linsanna með F-festingu frá Nikon og optísk afköst hennar og upplausn eru framúrskarandi. Hún skarar meira að segja fram úr 85 mm andlitsmyndalinsunum frá Nikon. Þessi einstaka linsa gerir ljósmyndurum kleift að setja svip sinn á andlitsmyndir með því að fanga skörp smáatriði í fíngerðu efni og fjölbreytt litbrigði í hári fyrirsætunnar.“

Frekari eiginleikar

Hringlaga 9 blaða ljósopsþynna
Níu hringlaga ljósopsblöð draga úr ljósdreifingu og skila nákvæmri endurmyndun umhverfisins.

Hraðvirk, stöðug, mjúk
Rafsegulstýrð ljósopsvirkni býður upp á einstaklega stöðuga sjálfvirka lýsingarstýringu, jafnvel við háhraðamyndatöku. Sjálfvirki fókusinn er snurðulaus, hljóðlátur og hraðvirkur, þökk sé SWM-mótornum (Silent Wave Motor) frá Nikon.

Rómaðir optískir eiginleikar NIKKOR
Nanókristalhúð dregur úr ljósdraugum og endurkasti. Þrjár glereiningar með mjög lítilli dreifingu (ED) lágmarka áslæga litskekkju. Flúorhúðin frá Nikon ver fremri og aftari linsueiningarnar og auðveldar þrif.