Nikon Imaging | Ísland | Europe

06-05-2016

Stafrænu SLR-myndavélarnar D5 og D500 frá Nikon hljóta báðar verðlaunin Red Dot Award: Product Design 2016

Amsterdam, Hollandi, 6. maí 2016: Nikon Corporation er mikil ánægja að tilkynna að tvær stafrænar SLR-myndavélar frá Nikon, D5 og D500, hafa hlotið verðlaunin Red Dot Award: Product Design 2016, sem kostuð eru af Design Zentrum Nordrhein Westfalen í Þýskalandi.

Verðlaunin Red Dot Award: Product Design eru gæðaverðlaun sem veitt eru vörum sem komið hafa á markað á undanförnum tveimur árum og skara fram úr á alls níu sviðum, m.a. hvað varðar nýjungar, eiginleika, þarfir notenda, vistfræði og endingu.

2016 er 61. árið sem verðlaunahátíðin Red Dot Award: Product Design er haldin. Verðlaunavörurnar, sem valdar eru úr um það bil 5.200 skráningum frá 57 löndum um allan heim, verða til sýnis á sérstakri sýningu sem haldin verður dagana 5. júlí til 31. júlí 2016 á safninu Red Dot Design Museum í Essen í Þýskalandi.

Á vefsvæðinu Red Dot Online má finna nánari upplýsingar um verðlaunin Red Dot Design Awards.

Yfirlit yfir D5 (sett á markað í mars 2016)

D5 er nýjasta og glæsilegasta D-SLR-myndavélin frá Nikon. Hún býður upp á yfirburðaafköst þar sem fyrst ber að nefna umtalsvert meiri getu til að fylgja eftir myndefni á hreyfingu og mun meiri myndgæði við mikið ljósnæmi, auk getunnar til að laga sig að mjög fjölbreyttu umhverfi og myndefni. Myndavélin er búin 153 punkta AF-kerfi af næstu kynslóð og býður upp á hröð afköst í raðmyndatöku, u.þ.b. 12 ramma á sekúndu¹ (með AF/AE-eltifókus) og nær að fanga myndefnið af meira öryggi við margvíslegar kringumstæður. Auk þess styðja CMOS-myndflagan með FX-sniði frá Nikon og nýja EXPEED 5-myndvinnsluvélin mesta ljósnæmi í sögu Nikon, ISO 102.400, auk þess sem framúrskarandi afköst við mikið ljósnæmi ná ekki aðeins til ljósmyndatöku heldur einnig upptöku 4K UHD (3840 × 2160) kvikmynda, sem nú stendur til boða.

¹ Með lokarahraðanum 1/250 sek. eða meira í CH-afsmellistillingu.

Yfirlit yfir D500 (áætlað að setja hana á markað í lok apríl 2016)

D500 er ný og glæsileg D-SLR-myndavél á DX-sniði frá Nikon. Hún er búin sama 153 punkta AF-kerfinu af næstu kynslóð og er innbyggt í D5-myndavélina og fangar myndefnið af öryggi í hraðri raðmyndatöku á um það bil 10 ramma hraða á sekúndu¹. Notkun nýju EXPEED 5-myndvinnsluvélarinnar og nýrrar CMOS-myndflögu á DX-sniði frá Nikon tryggir framúrskarandi myndgæði við venjulegt ljósnæmi á breiðu sviði, frá ISO 100 til 51.200, bæði við töku ljósmynda og upptöku kvikmynda. Þessu til viðbótar er hér brugðist við þörfum atvinnuljósmyndara þar sem myndavélin styður 4K UHD (3840 × 2160) kvikmyndaupptöku, auk SnapBridge, forrits sem auðveldar hnökralausa tengingu myndavélarinnar við snjalltæki².

¹ Með lokarahraðanum 1/250 sek. eða meira í sjálfvirku fókusstillingunni AF-C, með EN-EL15 rafhlöðu í myndavélinni og allar aðrar stillingar á sjálfgildum.
² Snjallsímar og spjaldtölvur með iOS eða Android™.