Nikon Imaging | Ísland | Europe

26-04-2016

Nikon tilkynnir sigurvegara árlegu kvikmyndahátíðinnar Nikon European Film Festival

Í stuttmyndakeppni í samstarfi við Raindance undir formennsku Óskarsverðlaunahafans og leikstjórans Asif Kapadia er „Not a Pizza Order“ aðalsigurvegari

Amsterdam, Hollandi, 26. apríl 2016 – Nikon tilkynnir í dag sigurvegara kvikmyndahátíðar sinnar í samstarfi við óháðu kvikmyndasamtökin Raindance og Óskarsverðlaunahafann og leikstjórann Asif Kapadia. „Not A Pizza Order“ eftir Cécile Ragot frá Frakklandi er aðalsigurvegari. Cécile fær að launum Nikon D810-kvikmyndabúnað og einnar viku ferð til tengslamyndunar á kvikmyndahátíðina í Cannes í maí 2016, þar sem allur kostnaður er greiddur.

Fleiri en 550 upprennandi stuttmyndagerðarmenn víða að úr Evrópu sendu inn myndir á kvikmyndahátíðina Nikon European Film Festival sem nú er haldin í annað sinn. Áhugamenn jafnt sem atvinnukvikmyndagerðarmenn köfuðu ofan í þemað „Hversdagsleg augnablik“ þar sem áskorunin fólst í að búa til stuttmynd sem ekki væri lengri en 140 sekúndur og breytti venjulegu augnabliki í frumlega frásögn.

Dómnefndin, undir formennsku Óskarsverðlaunahafans og leikstjóra heimildarmyndarinnar „Amy“, Asif Kapadia, valdi sigurvegarana. Með honum í dómnefndinni voru ljósmyndarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Pieter ten Hoopen, sem hlotið hefur tilnefningu til Emmy-verðlaunanna, stofnandi óháðu kvikmyndahátíðarinnar Raindance, Elliot Grove, og Dirk Jasper frá Nikon Europe.

Dómnefndin valdi „Not A Pizza Order“ eftir Cécile Ragot sem aðalsigurvegara í lokaumferðinni hjá British Film Institute í London. Allir í dómnefndinni voru mjög hrifnir af þessari mögnuðu kvikmynd sem beinir sjónum sínum að heimilisofbeldi. Hún hlaut lof fyrir eftirminnilega frásagnaraðferð sína, að viðbættri einstakri tæknilegri færni, í kvikmynd þar sem úr ósköp venjulegu símtali verður áhrifarík saga.

Sigurvegarar í öðrum flokkum samkvæmt vali dómnefndar voru:
  - Best Narrative„Bad Luck“ eftir Martin Taube frá Svíþjóð 
  - Technical Excellence„Evasion“ eftir Pierre le Gall frá Frakklandi 
  - Best Student Entry„Diamondjaw“ eftir Tormi Torop frá Eistlandi 

Verðlaunin People’s Choice , sem veitt voru þeirri mynd sem flestum líkaði við og mest var deilt á vefsvæði Nikon Film Festival, hlaut „At Night They Work“ eftir Ad van Brunschot frá Hollandi.

Asif Kapadia, formaður dómnefndar Nikon European Film Festival, sagði: „Kvikmyndirnar sem skáru sig úr einkenndust af mjög sterkri hugmynd og sögu, kveiktu hugmynd um lítið ferðalag. Persónulega fannst mér „Not a Pizza Order“ vera ótrúlega mögnuð stuttmynd. Maður heldur að þetta sé grínmynd en í rauninni er hún með mjög alvarlegum undirtóni um afar mikilvægt mál. Ég er alltaf að leita að kvikmyndum sem fylgja mér áfram, hvort sem um er að ræða mynd eða augnablik, eitthvað sem verður til þess að ég man áfram eftir kvikmyndinni eftir að ég er búinn að horfa á hana. Að mínu mati eru allir verðlaunahafarnir með stórkostlegar kvikmyndir.“

Elliot Grove, stofnandi Raindance og meðlimur í dómnefnd Nikon European Film Festival, hafði þessu við að bæta: „Okkur þóttu gæði myndanna sem sendar voru inn ótrúleg og sér í lagi þótti okkur mikið til þess koma á hversu fjölbreyttan hátt þemað „Hversdagsleg augnablik“ var túlkað. Sem leikstjóri og almennur stuðningsmaður óháðrar kvikmyndagerðar gleður það mig að Nikon skuli hvetja upprennandi kvikmyndagerðarmenn í Evrópu og um allan heim til að þróa hæfileika sína áfram og verðlauna þá með tækni sem gerir þeim kleift að bæta færni sína.“

Cécile Ragot, aðalsigurvegarinn í ár, sagði: „Þessi verðlaun eru frábær hvatning til að halda áfram að reyna og halda áfram að búa til kvikmyndir. Ég er svo þakklát dómnefndinni. Ég bý til kvikmyndir í þeirri von að hugsanlega hafi þær áhrif á líf og viðhorf fólks, og þessi verðlaun hafa þau áhrif að ég get hugsanlega gert þá von að veruleika.“

Flokkar og verðlaun

Handhafi aðalverðlaunanna mun að launum fá Nikon D810-kvikmyndabúnað og einnar viku ferð til tengslamyndunar á kvikmyndahátíðina í Cannes í maí 2016 sem heiðursgestur Raindance, þar sem allur kostnaður er greiddur.

Sigurvegararnir tveir í undirflokkunum „Best Narrative“ og „Technical Excellence“ hljóta að launum Nikon D750-myndavél og 3.000 evrur, auk þess sem sigurvegarinn í flokknum „Best Student Entry“ hlýtur Nikon D750-kvikmyndabúnað og 2.000 evrur. Kvikmyndagerðarmaðurinn sem hlýtur verðlaunin „People’s Choice“ fær Nikon D750-kvikmyndabúnað.