Nikon Imaging | Ísland | Europe

23-02-2016

Fullkomnar myndir öllum stundum með glænýjum fyrirferðarlitlum DL-úrvalsmyndavélum frá Nikon

Tilkynnt var um að hætt væri við að selja DL-línuna þann 13. febrúar 2017

Amsterdam, Hollandi, 23. febrúar 2016: Nikon hristir upp í markaðnum með glænýrri línu af fyrirferðarlitlum úrvalsmyndavélum sem gera ljósmyndurum kleift að ná fullkomnun öllum stundum. Fyrirferðarlitlu DL-úrvalsmyndavélarnar frá Nikon eru búnar rómuðum NIKKOR-linsubúnaði og öflugri Nikon-tækni sem skila ótrúlegum myndgæðum og gera notendum kleift að fanga augnablikið við öll tækifæri.

Nýja línan samanstendur af þremur gerðum: Nikon DL24-85 f/1.8-2.8, Nikon DL18-50 f/1.8-2.8 og Nikon DL24-500 f/2.8-5.6. Allar myndavélarnar eru með áfastri NIKKOR-aðdráttarlinsu sem skilar frábærri frammistöðu, rétt eins og Nikon D-SLR-linsur, og hraðvirkri einnar tommu myndflögu á CX-sniði. Það er sama hvaða Nikon DL-myndavél ljósmyndarar velja því að þær geta allar tekið 20,8 MP ljósmyndir á JPEG- eða NEF (RAW)-sniði, og 4K/UHD-kvikmyndir með 30p/25p.

Allar fyrirferðarlitlu DL-úrvalsmyndavélarnar frá Nikon innihalda háþróaða, blandaða AF-kerfið frá Nikon sem fangar myndefnið hratt og örugglega. EXPEED 6A-myndvinnslubúnaður, sem er búinn hvorki meira né minna en fjórum örgjörvum, knýr ótrúlegan tökuhraða myndavélanna: allt upp í 60 ramma á sekúndu með fókusinn stilltan á fyrsta ramma, eða allt að 20 ramma á sekúndu með samfellt stilltum AF. Optísk titringsjöfnun (VR) með tvöfaldri greiningu frá Nikon skilar bættri greiningu á hristingi og titringsjöfnun, og hver myndavél hefur hraðan ræsi- og viðbragðstíma. Að auki eru allar myndavélarnar með ISO 518-festingu sem nota má með fjölbreyttum aukabúnaði, þar á meðal D-SLR-flassi frá Nikon. Meðal aukabúnaðar sem er sérhannaður fyrir DL-myndavélar frá Nikon er valfrjáls hallanlegur rafrænn DF-E1 leitari (EVF) með augnskynjara, sem tryggir mikinn skýrleika, og upplýsingar á skjá með miklum birtuskilum. Notendur D-SLR-myndavéla frá Nikon munu einnig kunna að meta kunnuglega hnappa, skífur og valmyndir. Linsuhylkið á myndavélunum er líka skreytt með gullhringnum sem einkennir NIKKOR-linsurnar.

Ines Bernardes, vörustjóri hjá Nikon Europe, segir: „Þrjár nýjar og sterkar fyrirferðarlitlar úrvalsmyndavélar frá Nikon á markaðinn eru frábærar fréttir fyrir ljósmyndara sem eru að leita að öflugum en handhægum myndavélum. Hver þessara myndavéla gerbreytir öllum hugmyndum fólks um myndgæði fyrirferðarlítilla myndavéla. Upplausn og litvinnsla áföstu NIKKOR-linsanna er alveg mögnuð. Þar sem þær eru líka allar léttar og hraðvirkar er hægt að velja myndavél rétt eins og linsu – með því að velja brennivíddarsviðið sem hentar ljósmyndunarstíl hvers og eins eða þeim aðstæðum í ljósmyndun sem búast má við. Þeir sem vilja ferðast létt eða jafnvel taka myndir án þess að nokkuð beri á geta snúið ánægðir heim með myndirnar sem þeir tóku.“

Fyrirferðarlítil en krefst engra málamiðlana: Nú getur sérhver mynd orðið sú besta

Nikon DL24-85 f/1.8-2.8 – Engin eftirsjá fyrir sívökula ljósmyndara
Hraða 24-85mm f/1.8-2.8 NIKKOR-aðdráttarlinsan býður upp á mikinn sveigjanleika og ofurmakrómyndastilling (e. Super Macro) skilar einstaklega skörpum nærmyndum. Þessi myndavél er einnig með 1.037.000 punkta hreyfanlegan OLED-snertiskjá og flass sem sprettur sjálfkrafa upp. Linsuhylkið er með sérsníðanlegum stillihring og aðdráttarhring. Fáanleg í silfurlit og svörtu.

Nikon DL18-50 f/1.8-2.8 – Vítt sjónarhorn með handhægri myndavél
Með mögnuðu ljósopi, upp á f/1,8 við 18 mm, er þessi DL-myndavél frá Nikon búin björtustu linsunni með miklu gleiðhorni sem Nikon hefur búið til. Linsan er með frábærri nanókristalhúð frá Nikon sem eykur skýrleika myndanna. Myndavélin er með 1.037.000 punkta hreyfanlegan OLED-snertiskjá og innbyggða sjónarhornsstýringu. Fáanleg í svörtu.

Nikon DL24-500 f/2.8-5.6 – Mikið aðdráttarsvið og myndgæði sem borga sig
Með öflugri 21x NIKKOR-aðdráttarlinsu og SPORT-stillingu (VR) er þessi DL-myndavél frá Nikon fullkomin fyrir ljósmyndara sem hafa auga fyrir hreyfingu. Þessi myndavél er einnig með innbyggðan 2.359.000 punkta rafrænan OLED-leitara og hreyfanlegan OLED-snertiskjá með hárri upplausn. Fáanleg í svörtu.

SnapBridge: til að halda DL-myndavélinni frá Nikon tengdri við snjalltækið
Allar myndavélarnar í nýju DL-línunni frá Nikon eru einnig fullkomlega samhæfar við SnapBridge. SnapBridge notar Bluetooth®* Low Energy-leit til að viðhalda stöðugri lágorkutengingu á milli myndavélarinnar og snjallsíma eða spjaldtölvu. Ljósmyndarar geta samstillt ljósmyndir við snjalltæki á meðan á töku stendur og deilt Nikon-gæðamyndum á einu augnabliki. Þeir geta einnig notað SnapBridge til að stjórna helstu aðgerðum myndavélarinnar með snjalltækinu, hafa hana á réttum tíma og uppfærða auk margs fleira.


Textinn Bluetooth® er skráð vörumerki í eigu Bluetooth SIG, Inc. og notkun Nikon Corporation á slíkum merkjum er samkvæmt leyfi.