Nikon Imaging | Ísland | Europe

23-02-2016

NÝJUSTU COOLPIX-MYNDAVÉLARNAR MEÐ NÝJA SNAPBRIDGE-FORRITINU TIL AÐ SAMSTILLA OG DEILA MYNDUM KYNNTAR

Amsterdam, Hollandi, 23. febrúar 2016: Uppgötvaðu magnaðar nýjungar í COOLPIX-línunni frá Nikon, þar sem saman kemur allt það nýjasta í ljósmyndunartækni Nikon og áreiðanlegur NIKKOR-linsubúnaður, með linsum með ofuraðdrætti til að ná framúrskarandi afköstum.

Bæði COOLPIX B700 með 60x optískum aðdrætti og COOLPIX A900 með 35x optískum aðdrætti bjóða upp á afburðagóðan aðdrátt og nýjustu 4K UHD-upptöku kvikmynda, en COOLPIX B500 státar af 16 megapixla CMOS-myndflögu og 40x optískum aðdrætti. COOLPIX A300-vélin er sérlega rennileg og með 8x optískum aðdrætti.

Allar eru myndavélarnar samhæfar við SnapBridge, nýja forritið frá Nikon sem viðheldur stöðugri sjálfvirkri tengingu á milli myndavélarinnar og snjalltækis til að auðvelda umsjón ljósmynda.

COOLPIX B700 er búin hinum margrómaða NIKKOR-linsubúnaði með 60x linsu með Super ED-gleri og optískum aðdrætti sem auka má í 120x Dynamic Fine Zoom¹ svo auðvelt er að taka myndir af hlutum sem eru langt í burtu með ótrúlegum smáatriðum, svo sem tunglinu, villtum dýrum eða íþróttaviðburðum. 4K UHD/30p-kvikmyndir varðveita kvikmyndaupptökur til framtíðar og með því að taka RAW-myndir (NRW) má ná fram myndum í framúrskarandi gæðum. Þetta er 20,3 megapixla myndavél með ofuraðdrætti sem er búin öflugu sjálfvirku fókuskerfi (AF) fyrir nákvæma myndatöku, með fimm stoppa Dual Detect optískri titringsjöfnun² og aðdráttarrofa á hlið til að draga úr hristingi myndavélar. Ramma má inn myndefnið með annaðhvort innbyggða rafræna leitaranum eða á 7,5 cm / 3 tommu hreyfanlega LCD-skjánum, en báðir eru með 921.000 punkta upplausn til að ná fram skapandi myndbyggingu frá öllum sjónarhornum. Svo er hægt að deila myndunum tafarlaust með SnapBridge-forritinu.

20,3 megapixla COOLPIX A900-myndavélin lumar á NIKKOR-gæðalinsubúnaði í nettu húsi sem fer vel í vasa og hentar hverjum sem er. Hægt er að taka stórfenglegar ferðamyndir í miklum smáatriðum með öflugri linsu með 35x optískum aðdrætti sem má auka í 70x Dynamic Fine Zoom¹, eða fanga eftirminnileg augnablik heima með skarpri 4K UHD/30p upptöku. Ljósmyndarar geta notið þess að taka spennandi myndir með 7,5 cm / 3 tommu, 921.000 punkta hallanlegum LCD-háskerpuskjánum og handvirkum lýsingarstillingum (P/S/A/M), og deila þeim svo tafarlaust með SnapBridge-forritinu. Myndavélin er alltaf klár í myndatöku með hröðum sjálfvirkum fókus og auðvelt er að finna myndefni aftur með bakfærsluhnappi aðdráttar, auk þess sem taka má áhrifamiklar Superlapse- og Time-lapse kvikmyndir á einfaldan hátt. Öflug titringsjöfnun tryggir skýrar myndir og hnökralausar kvikmyndir, jafnvel í mesta aðdrætti.

Ótrúleg myndgæði á auðveldan hátt með 16 megapixla COOLPIX B500-myndavélinni. NIKKOR-linsan með 40x optískum aðdrætti, sem hægt er að auka í 80x Dynamic Fine Zoom¹, fer með ljósmyndarann beint í miðju atburðarásinnar, og aðdráttarrofi á hlið veitir einstakan stöðugleika. Hægt er að kanna einstök sjónarhorn með 7,5 cm / 3 tommu 921.000 punkta hallanlegum LCD-skjá, finna myndefni aftur á auðveldan hátt með bakfærsluhnappi aðdráttar og taka kvikmyndir í fullri háskerpu.

Lipur og stílhrein 20,1 megapixils COOLPIX A300-myndavélin tryggir að auðvelt er að taka góðar myndir á ferðinni. Nærmyndirnar verða frábærar með optískum 8x NIKKOR-aðdrætti, sem má auka í 16x Dynamic Fine Zoom¹, og nota má stillingu fyrir snjallandlitsmyndir til að taka fullkomnar andlitsmyndir. Sjálfvirk umhverfisstilling velur svo sjálfkrafa hentugustu stillingarnar miðað við aðstæður.

SNAPBRIDGE

Það er einfalt að para snjalltæki við Nikon-myndavél, og það þarf bara að gera einu sinni. Það þarf aðeins að setja SnapBridge-forritið upp í snjallsímanum eða spjaldtölvunni, kveikja á myndavélinni og velja hana af listanum í forritinu yfir tiltæk tæki. SnapBridge heldur tengingu við myndavélina í bakgrunni: Nú er hægt að flytja myndir um leið og þær eru teknar, án þess að tengjast þurfi í hvert sinn. Myndir eru meira að segja samstilltar við myndavélina þegar hún er í hvíldarstöðu og hægt er að nota snjalltækið án truflana. Með SnapBridge getur snjalltækið birt skjámynd af öllu því sem Nikon-myndavélin sér. Ramma má inn myndir á skjá snjallsímans eða spjaldtölvunnar og fjarstýra lokaranum þannig að hann taki mynd.

Þegar Ines Bernardes, framleiðslustjóri fyrir COOLPIX hjá Nikon Europe, kynnti þessar nýju COOLPIX-vélar og SnapBridge-forritið sagði hún: „Þessar nýju viðbætur við COOLPIX-línuna tryggja betri frammistöðu en nokkru sinni fyrr, þar sem sérhvert smáatriði verður ljóslifandi. Ofuraðdrátturinn tryggir betri myndir en ljósmyndarar hafa leyft sér að dreyma um, og með nýja SnapBridge-forritinu er afar auðvelt að deila myndum og flytja þær sjálfkrafa milli tækja. Allir geta fundið nýja COOLPIX-myndavél fyrir sitt áhugasvið, hvort sem þeir hafa gaman af íþróttum, ferðaljósmyndun eða vilja bara myndir af hversdagslífinu og af fjölskyldu og vinum.“

¹ Stækkun á Dynamic Fine Zoom er reiknuð út frá minnsta aðdrætti optíska aðdráttarins.
² Mælt í samræmi við CIPA-staðla við u.þ.b. 350 mm (samsvarar brennivídd á 35 mm [135] sniði).