Nikon Imaging | Ísland | Europe

05-01-2016

Í réttu ljósi: Nikon kynnir SB-5000 flassið sem stjórnað er með útvarpsbylgjum

Amsterdam, Hollandi, 5. janúar 2016: Nikon hefur nú uppfært margrómaða vörulínu sína með flössum fyrir fagmenn og bætt glænýju SB-5000 flassi í hópinn. Þetta lipra Nikon-flass er fyrsta flassið sem er með innbyggðri fjarstýringu og fyrsti fyrirferðarlitli flassbúnaðurinn með innbyggðu kælikerfi.*

SB-5000 er hannað til að sigrast á öllum hindrunum í myndatöku og er fullkomið fyrir atvinnuljósmyndara sem vilja hafa sveigjanleika til að nýta sér flóknar samsetningar þar sem notaður er bæði flassbúnaður myndavélarinnar og annar flassbúnaður. Með þráðlausri stýringu þarf ekki lengur að hafa beina sjónlínu milli flassstýringar og flassins og það eykur verulega áreiðanleikann þegar myndað er í skæru sólarljósi. Nýtt innbyggt kælikerfi Nikon gefur kost á að taka meira en 100 hraðmyndaskot þar sem flassið starfar á fullum afköstum. Þetta nýja flass er létt, nett og með sérlega skýrum stjórntökkum og býður upp á óviðjafnanlega lýsingu, bæði á vettvangi og í stúdíóinu.

Full stjórn við flóknar aðstæður

SB-5000 flassið er hraðvirkt og áreiðanlegt og með það að vopni getur ljósmyndarinn tekist á við fleiri og flóknari lýsingaráskoranir. SB-5000 flassinu er hægt að fjarstýra þegar það er notað sem hluti af þráðlausum flassbúnaði, en einnig má stjórna því með hefðbundnum hætti með því að nota optísk sjónlínumerki, sem þýðir að áfram er hægt að nota eldri flassgerðir þegar flassbúnaður er settur upp. Með samræmdri flassstýringu er hægt að stjórna SB-5000 flassinu úr valmynd myndavélarinnar eða úr tölvu sem keyrir Camera Control Pro 2, þegar flassið er áfast myndavélarhúsinu. Auk þess gerir nýja kælikerfið þessum netta flassbúnaði kleift að skjóta 120 sinnum með fimm sekúndna hléi, eða 84 sinnum með þriggja sekúndna hléi án þess að ofhitna. Þetta er besta hitavarnarkerfið okkar til þessa.

Viðbótareiginleikar

• Mikilvægustu tæknilýsingar: SB-5000 flassið er með styrkleikatöluna 34,5, breitt aðdráttarsvið á FX-sniði sem nemur 24–200 mm (14 mm með innbyggðri dreifiskífu) og þrjú lýsingarmynstur.
• Lítið og nett, skýrir stjórnhnappar: flasshúsið vegur aðeins 420 g. Einfalt stjórnborðið býður upp á að upplýsingar séu birtar stórar og auðlesanlegar á skjánum. Flasshausinn hallast niður um 7° eða upp um 90° og snýst lárétt um 180° til vinstri og hægri.
• Aukabúnaður: Með því að nota innbyggða dreifiskífu og endurkastsspjald, auk ljósdreifarans sem með fylgir, og valfrjálsar litasíur frá Nikon, má stórauka möguleikana á skapandi ljósmyndun.

Zurab Kiknadze, vörustjóri í linsu-, aukabúnaðar- og hugbúnaðardeild Nikon Europe, segir:
„Nikon hefur ævinlega verið í fylkingarbrjósti á sviði skapandi lýsingar í ljósmyndun og hefur ítrekað sannað ágæti sitt hvað varðar áreiðanleika, fjölhæfni og heildarsamþættingu kerfa. Með fjarstýringu er hægt að tryggja að nýja SB-5000 flassið skili sínu, jafnvel þegar upp koma algeng vandamál á borð við truflanir á sjónlínu og bjart sólarljós. Og með nýja kælikerfinu okkar, sem fjölgar verulega skotum í raðmyndatöku og kemur í veg fyrir óþarfa truflanir, hefur ljósmyndarinn einstaklega góða stjórn á SB-5000 flassinu. Þetta er spennandi flass sem nýtist við allar aðstæður, fyrir atvinnumenn sem gera kröfur um frábæra frammistöðu hvar og hvenær sem er.“

* SB-5000 státar af fyrsta innbyggða kælikerfinu í heiminum fyrir ásmellanlegan, nettan flassbúnað, frá og með 1. desember 2015.