Nikon Imaging | Ísland | Europe

05-01-2016

Nikon kynnir tvær nýjar 18–55 mm DX-aðdráttarlinsur sem eru frábærar í almenna ljósmyndun

Amsterdam, Hollandi, 5. janúar 2016: Nikon uppfærir framboð sitt á NIKKOR-linsum með tveimur nýjum aðdráttarlinsum á DX-sniði sem fanga frábærar hversdagsljósmyndir og -kvikmyndir. Linsurnar AF-P DX NIKKOR 18–55mm f/3.5–5.6G VR og AF-P DX NIKKOR 18–55mm f/3.5–5.6G eru léttar og handhægar fyrir ljósmyndara sem nota D-SLR-myndavélar Nikon fyrir byrjendur, með aðdráttarsvið frá gleiðhorni yfir í venjulegan aðdrátt.

Þessar fjölnota linsur bjóða upp á snjalla leið til að fanga ljóslifandi augnablik í dagsins önn, hvort sem það eru borgarmyndir eða landslagsmyndir, andlitsmyndir eða fjölskyldumyndir. Báðar linsurnar ná yfir 18–55 mm brennivíddarsvið, sem er afar vinsælt, og stærsta ljósop þeirra er f/3,5–5,6. Þetta eru líka fyrstu NIKKOR-linsurnar sem notast við nýja STM-mótorinn frá Nikon, sem stillir fókusinn hratt og er tilvalinn til að taka upp kvikmyndir. AF-P DX NIKKOR 18–55mm VR-linsan er með titringsjöfnunarkerfi Nikon sem skilar skýrum og skörpum myndum, sér í lagi í lítilli birtu, og báðar linsurnar eru með véldrifnum inndrætti sem gerir þær afar meðfærilegar. Þessar 18–55 mm linsur henta fullkomlega fyrir byrjendur í D-SLR-ljósmyndun og bjóða upp á myndgæði, fjölbreytileika og hagstætt verð í réttum hlutföllum (sér í lagi þegar þær eru keyptar í setti).

Zurab Kiknadze, vörustjóri í linsu-, aukabúnaðar- og hugbúnaðardeild Nikon Europe, segir: „Það gleður okkur að kynna þessar tvær nýju viðbætur við framboð Nikon á 18–55 mm linsum. Báðar linsurnar eru liður í þeirri stefnu okkar að tryggja að byrjendur í notkun Nikon D-SLR-kerfisins fái bestu mögulegu kynnin af heillandi heimi NIKKOR-linsanna. Við höfum hagað hönnun linsanna þannig að þær séu léttar og handhægar, en stærsta breytingin er notkunin á STM-mótornum frá Nikon: Hann gerir að verkum að sjálfvirki fókusinn er mun hraðari og hljóðlátari en áður. Hvort sem þessar 18–55 mm linsur eru notaðar til að taka upp kvikmyndir eða taka ljósmyndir fást frábær myndgæði, auk einstakra þæginda og áreiðanleika beint úr kassanum.“

Nýr STM-mótor – hraðvirkur og snurðulaus sjálfvirkur fókus

Með STM-mótornum frá Nikon stilla þessar nýju linsur fókusinn hljóðlega og hraðar en nokkru sinni fyrr. Þegar aðdráttur er aukinn til að taka mynd birtist myndefnið í fókus á augabragði og af gríðarmikilli nákvæmni. Við kvikmyndatöku auðveldar mótorinn snurðulausa færslu fókussins frá einu myndefni til annars, nánast án þess að nokkuð heyrist í drifinu. Upptakan skemmist ekki vegna lágra en þó greinanlegra hljóða í linsunni þegar hún stillir fókus.

Einfalt að stjórna, auðvelt að flytja

Báðar þessar 18–55 mm NIKKOR-linsur eru hannaðar til að bjóða upp á þægilegri leið til að taka myndir fyrir þá sem eru að nota þær í fyrsta skipti og eru því fullkomnar fyrir byrjendur í D-SLR-ljósmyndun. Fyrirferðarlítil og létt hönnun gerir báðar linsurnar sérlega auðveldar í meðförum. Þetta eru líka fyrstu Nikon-linsurnar sem gera notendum kleift að skipta á milli sjálfvirks og handvirks fókuss eða kveikja og slökkva á VR gegnum valmynd myndavélarinnar*. Engir rofar eru á linsuhylkinu og því er engin hætta á að stillingum verði breytt fyrir slysni þegar komið er að því að taka myndina. Linsuhús AF-P DX NIKKOR 18–55mm f/3.5–5.6G VR vegur eingöngu 205 g og AF-P DX NIKKOR 18–55mm f/3.5–5.6G vegur 195 g. Báðar linsurnar dragast inn þegar þær eru ekki í notkun og því er einstaklega auðvelt að stinga þeim ofan í tösku eða hafa þær áfastar myndavélinni í helgarferðinni.

Myndir í Nikon-gæðum

Þessar linsur eru sérhannaðar til að fullnýta háa pixlatölu og háþróaða myndflögu D-SLR-myndavéla með DX-sniði frá Nikon. Tvær hálfkúptar einingar í hvorri linsu draga úr hvolfskekkju og annarri bjögun og skila myndum og kvikmyndum í mikilli upplausn með líflegum litum og einstakri skerpu þar sem smæstu smáatriði eru sýnileg.


* Virkar aðeins með samhæfum myndavélum: D5500/D5300/D3300. Samhæfar myndavélar gætu þarfnast uppfærslu á fastbúnaði.