Nikon Imaging | Ísland | Europe

05-01-2016

Nikon D500: Krafturinn úr stafrænni SLR-myndavél á FX-sniði tvinnaður saman við snerpu DX-sniðsins og sítengingu

D500 er búin einkaleyfisvarinni tækni frá Nikon sem tryggir snurðulausa sítengingu við annan samskiptabúnað.

Amsterdam, Hollandi, 5. janúar 2016 – Nikon Corporation kynnir með stolti Nikon D500, framúrskarandi stafræna SLR-myndavél á DX-sniði sem sameinar frábær afköst stafrænna SLR-myndavéla á FX-sniði, lipurt myndavélarhús og aukið notagildi.

Hönnunin á Nikon D500 er svar við breyttum kröfum neytenda og ítarlegri óskum áhugaljósmyndara. Hún uppfyllir jafnframt aukna þörf á sítengingu á milli myndavéla og annarra tækja.

Til að gera þetta kleift státar Nikon D500 af einu þróaðasta AF-kerfi sem völ er á í myndavélum fyrir áhugaljósmyndara, hún er fyrsta Nikon-vélin á DX-sniði sem býður upp á myndupptöku í 4K UHD og er jafnframt fyrsta Nikon-myndavélin sem býður upp á deilingu samstundis með SnapBridge í gegnum sítengingu.

„Þetta er nýr sjónrænn heimur þar sem við tengjumst saman í gegnum myndir. Áhugaljósmyndarar eru einnig orðnir vandlátari og þeir gera meiri kröfur til myndavéla. Þess vegna fundum við leið til að koma krafti FX-sniðsins inn í D500-vélina og uppfylla þannig þarfir neytenda og atvinnuljósmyndara hvað varðar framúrskarandi myndvinnslutækni,“ segir Tadashi Nakayama, varaforseti samsteypunnar, deildarstjóri markaðssviðs myndvinnsludeildarinnar hjá Nikon.

Samþjappaður kraftur

D500-myndavélin fylgir hreyfingum einstaklega vel eftir og notar sama 153 punkta AF-kerfið af næstu kynslóð og D5-vélin. Nákvæm greining myndefnis, jafnvel við hraða raðmyndatöku með u.þ.b. 10 römmum á sekúndu, tryggir að hægt er að taka fullkomnar myndir af akstursíþróttum og ævintýralegum ferðalögum. Áhugamenn sem vilja taka upp æsilegar eða hjartnæmar senur geta nú fangað augnablikið í 4K UHD-kvikmyndum með stuðningi nýju EXPEED 5-myndvinnsluvélarinnar sem gerir D500 kleift að skila miklum myndgæðum. D500 býður einnig upp á breitt ljósnæmissvið frá ISO 100 til 51200 sem hægt er að auka í Hi 5 (jafngildir ISO 1640000) og skilar frábærri útkomu við fjölbreytileg birtuskilyrði. D500 er öflug, fjölhæf og meðfærileg myndavél sem breytir sköpunarþörf og ástríðu yfir í glæsilegar myndir og gerir ljósmyndurum þannig kleift að nýta hæfileika sína til fulls.

Snurðulaus sítenging með SnapBridge

D500 er fyrsta vélin frá Nikon sem býður upp á sítengingu við snjalltæki með Bluetooth Low-Energy. Þessi nýjung frá Nikon flytur myndir úr vélinni yfir í snjalltæki um leið og þær eru teknar og gerir ljósmyndun þannig að félagslegri upplifun. Þetta gerist sjálfkrafa án þess að virkja þurfi myndaflutninginn í myndavélinni auk þess sem eiginleikinn heldur orkunotkun fyrir bæði tækin í lágmarki og hentar því vel fyrir fólk á ferðinni.

Helstu eiginleikar D500

1. Öflugt 153 punkta AF-kerfið greinir myndefni einstaklega vel við margs konar aðstæður
D500 er búin Multi-CAM 20K myndflögu fyrir sjálfvirkan fókus sem býður upp á stillingu með 153 fókuspunktum (99 krossnemum) sem ná yfir mjög stóran hluta myndsvæðisins og er því hægt að taka skarpar myndir af myndefni á miklum hraða. Sjálfvirki fókusinn nær niður í -4 EV¹ með miðpunktinum og -3 EV¹ með öðrum punktum og því er hægt að nota sjálfvirkan fókus í mjög lítilli birtu eða þegar teknar eru myndir af myndefni með litlum birtuskilum. Ný AF-vél og 180.000 pixla RGB-flaga eiga einnig þátt í að ná fram einstökum AF-afköstum við mismunandi aðstæður.
¹ ISO 100, 20˚C.

2. Hröð raðmyndataka með u.þ.b. 10 ramma hraða á sekúndu í allt að 200 myndir (14 bita óþjappað RAW)
D500 skilar hraðri raðmyndatöku með u.þ.b. 10 ramma hraða á sekúndu¹ í allt að 200 myndir í JPEG og 200 myndir í 14 bita óþjöppuðu RAW án þess að hægja á tökuhraða. Stöðug mynd í leitara og u.þ.b. 30,8° sjónarhorn frá horni í horn² (sem er það víðasta hingað til) gera ljósmyndurum kleift að taka skarpar myndir af myndefni á hreyfingu yfir breitt sjónsvið á þessum hraða.
¹ Áætluð rammatíðni á sekúndu fyrir fullhlaðna EN-EL15 Li-ion hleðslurafhlöðu ef notaður er samfellt stilltur AF, lokarahraði sem er 1/250 eða hraðari og aðrar stillingar sjálfgefnar.
² Frá og með 6. janúar 2016, í hópi D-SLR-myndavéla sem nota APS-C stærð af myndflögu. Byggt á rannsóknum Nikon.

3. Einstakur ávinningur af fyrirferðarlitlu DX-kerfinu – meiri lipurð í töku með miklum aðdrætti
D500-myndavélin með DX-sniði frá Nikon er með sýnilegt horn sem er sambærilegt við linsu með u.þ.b. 1,5× lengri brennivídd¹. Þetta býður upp á myndatöku með miklum aðdrætti með minni og léttari linsum sem hafa styttri brennivídd á meðan afköstin eru jafngóð og hjá hinni rómuðu D5 á FX-sniði. Myndavélin verður auk þess ennþá liprari með AF-S DX NIKKOR 16-80mm f/2.8-4E ED VR linsunni, léttustu 5× aðdráttarlinsu í heiminum², sem vegur aðeins um 1340 g³ þegar hún er áföst D500.
¹ Jafngildi 35 mm sniðs.
² Í hópi 5× aðdráttarlinsa með stærsta ljósop f/2,8 í minnsta aðdrætti sem eru samhæfar við stafrænar SLR-myndavélar með lausum linsum og myndflögum á APS-C-sniði, fáanlegar frá og með 2. júlí 2015. Byggt á rannsóknum Nikon.
³ Með rafhlöðu, XQD/SD-minniskorti og linsu.

4. Kvikmyndir í 4K UHD sem henta fyrir atvinnumenn
D500 getur tekið upp 4K UHD (3840 × 2160)/30p/25p/24p sem og 1080/60p kvikmyndir í allt að 29 mín. og 59 sek.¹ með möguleika á samhliða úttaki myndefnis um HDMI. Einnig er hægt að búa til „time-lapse“-kvikmyndir í 4K UHD í myndavélinni. Í fullri háskerpu eða háskerpu minnkar titringsjöfnunareiginleiki² D500 áhrif frá hristingi myndavélarinnar lóðrétt, lárétt og í snúningi þegar kvikmyndir eru teknar upp fríhendis, á meðan virk D-Lighting varðveitir smáatriði í upplýstum flötum og skuggum með náttúrulegum birtuskilyrðum.
¹ Upptaka í aðskildum skrám.
² Myndsvæðið verður aðeins minna í DX-kvikmyndasniði.

5. Nýja EXPEED 5-myndvinnsluvélin er með ljósnæmissvið upp að ISO 51200 sem hægt er að auka í Hi 5 (jafngildir ISO 1640000)
Nýja EXPEED 5-myndvinnsluvélin í D500, sem einnig er notuð í D5, skilar venjulegu ISO-ljósnæmi frá 100 til 51200 sem nær niður í Lo 1 (jafngildir ISO 50) og upp í Hi 5 (jafngildir ISO 1640000). Hún getur tekið myndir í mikilli háskerpu og dregur úr suði, jafnvel á hárri ISO-stillingu. Nýja 180.000 pixla RGB-flagan (u.þ.b. 180.000 pixlar) bætir afköst ítarlegs umhverfisgreiningarkerfis myndavélarinnar og dregur úr flökti á ljósmyndum við ólík birtuskilyrði, jafnvel við flöktandi ljósgjafa.

6. 8 cm/3,2 tommu háskerpusnertiskjár sem hægt er að halla tryggir þægilegri tökur fyrir atvinnumenn og reynda áhugaljósmyndara
Snertiskjár D500 býður upp á fjölbreytta möguleika, til dæmis að skipta samstundis milli mynda með rammafærslustikunni og textainnslátt — sem einnig er boðið upp á í D5 — sem og AF-snertiaðgerð og snertimyndatöku (í ljósmyndum). Hallanlegur skjárinn er með þriggja ása lamir og býður upp á sveigjanlega myndatöku með skjá sem gerir notandanum kleift að taka myndir í þeirri stöðu sem hentar best hverju sinni. Að lokum má nefna að stór 8 cm/3,2 tommu skjár D500 með verulega aukinni 2.359.000 punkta upplausn gerir notandanum kleift að velja og staðfesta fókus myndavélarinnar af mikilli nákvæmni.

7. SnapBridge tengir D500 við snjalltæki með Bluetooth Low-Energy
D500 er fyrsta myndavélin frá Nikon sem býður upp á sítengingu við snjalltæki¹ með skammdrægri Bluetooth Low-Energy-tækni. Eiginleikinn styður ýmiss konar þjónustu og notandinn getur sjálfkrafa flutt myndir sem teknar eru með D500 yfir í snjalltæki ásamt því að geta hlaðið þeim sjálfkrafa upp á NIKON IMAGE SPACE. Ljósmyndarar geta einnig notað snjalltæki til að skoða myndir sem geymdar eru á myndavélinni á fljótlegan hátt þegar þeir eru á ferðinni. SnapBridge merkir myndir sjálfkrafa með upplýsingum um staðsetningu og dagsetningu/tíma sem gerir það auðveldara að finna þær og eykur gildi mynda sem teknar eru með D500 til muna.
¹ Snjallsímar og spjaldtölvur með iOS eða Android™.

8. WT-7/A/B/C þráðlaus sendir (valfrjáls) býður upp á samskipti í gegnum háhraðatengingu/þráðlaust staðarnet
WT-7/A/B/C þráðlausi sendirinn frá Nikon er ætlaður atvinnumönnum sem þurfa að flytja myndir á fljótlegri hátt en innbyggður eiginleiki fyrir þráðlaust staðarnet leyfir. Þegar hann er tengdur við D500 er hægt að flytja myndir og kvikmyndir yfir í tölvu¹ eða FTP-þjón um snúrutengt eða þráðlaust staðarnet. Hægt er að nota D500 með WT-7/A/B/C sem aðgangsstað fyrir þráðlaust staðarnet sem gefur kost á auðveldri tengingu við tölvur og snjalltæki.
¹ Krefst Wireless Transmitter Utility (sem hægt er að sækja á vefsvæði Nikon).

Tæknilýsing, hönnun, vöruheiti og aukabúnaður geta verið breytileg eftir löndum eða svæðum. Tæknilýsingar og búnaður geta breyst án fyrirvara eða skuldbindingar af hálfu framleiðanda.