Nikon Imaging | Ísland | Europe

14-01-2016

NÝJAR COOLPIX A100 OG A10 KYNNTAR: EINFALDLEIKI OG STÍLL VIÐ TÖKU GÆÐAMYNDA

Amsterdam, Hollandi, 14. janúar 2016: Nú hafa tvær nýjar myndavélar bæst við fyrirferðarlitlu COOLPIX-línuna frá Nikon, hannaðar með einfaldleika í huga – rennileg og stílhrein 20,1 megapixils COOLPIX A100-myndavél sem hægt er að fara með hvert sem er og 16,1 megapixils COOLPIX A10-myndavél með þægilegu gripi og handhægri hnappaskipan sem gerir töku góðra mynda enn skemmtilegri.

COOLPIX A100 vegur um það bil 119 g með rafhlöðu og SD-korti; hún er svo létt að maður finnur varla fyrir henni í vasanum eða töskunni, en samt býr hún yfir fjölda eiginleika sem gera myndatökuna leikandi létta. NIKKOR-linsan nær ekki aðeins fallegum nærmyndum af vinum og vandamönnum með 5x optískum aðdrætti (sem hægt er að auka í 10x Dynamic Fine Zoom¹) heldur er líka hægt að bæta við brellum og fljótlegum áhrifum til að skapa einstakar myndir. Sjálfvirka umhverfisstillingin velur sjálfkrafa hentugustu stillinguna eftir að hafa greint myndefnið og aðstæður til myndatöku. Hægt er að taka upp HD-kvikmyndir með einum hnappi og til að myndirnar verði skýrar og skarpar er dregið úr óskýrleika vegna hreyfingar.

Með AF-greiningu á myndefni getur myndavélin spáð fyrir um aðalmyndefnið og stillt fókus á það, hvort sem um er að ræða manneskju eða smærra myndefni. Með tólf lagfæringaraðgerðum eftir myndatöku í fegrunarlagfæringu er hægt að farða með augnskugga, augnháralit eða púðri og fela jafnvel bauga undir augum. Með rafhlöðunni er hægt að taka u.þ.b. 250 myndir eða kvikmynd í eina klukkustund og 20,1 megapixils CCD-myndflagan skilar myndum í mikilli upplausn sem henta vel til stækkunar. Nikon COOLPIX A100 er fáanleg í mörgum glæsilegum litaútgáfum og með henni nást dýrmætu augnablikin auðveldlega á mynd.

COOLPIX A10 var þróuð með handhæga notkun í huga. Með NIKKOR-linsu með 5x optískum aðdrætti (jafngildir 26–130 mm á 35 mm sniði) býðst sveigjanleiki til að fanga bæði svipbrigði í nærmynd og stórar hópmyndir. Skýr 6,7 cm / 2,7 tommu LCD-skjárinn einfaldar myndatökuna og sjálfvirka umhverfisstillingin velur sjálfkrafa bestu umhverfisstillinguna fyrir myndatöku við hvers kyns aðstæður. Með sérstökum upptökuhnappi er auðvelt að skipta úr myndatöku yfir í upptöku HD-kvikmynda og með því að nota tækni sem dregur úr óskýrleika vegna hreyfingar er hristingur myndavélarinnar takmarkaður til að skila hnökralausum kvikmyndum og skörpum myndum.

Hægt er að laga myndir áður en smellt er af með ýmsum brellum og hægt er að bæta við fljótlegum áhrifum í myndavélinni um leið og myndatöku lýkur. Brosstillingin smellir af þegar hún greinir bros hjá manneskjunni á myndinni og blikkprófunin birtir viðvörunarboð ef hún verður vör við að manneskjan hafi lokað augunum. Með bættri andlitsgreiningu fylgir einnig mýking húðar og aukin lýsingarstýring fyrir húðblæ til að fólk á andlitsmyndum sé ávallt lýtalaust að sjá.

Þegar þessar nýju, einföldu og stílhreinu myndavélar voru kynntar til sögunnar sagði Ines Bernardes, framleiðslustjóri fyrir COOLPIX hjá Nikon Europe: „COOLPIX A100 hentar þér og þínu lífi fullkomlega ... ef þig langar í netta myndavél til almennra nota sem passar í vasann eða töskuna en getur samt fangað kristaltærar glefsur úr lífi þínu, bæði heima og að heiman. Sérstakt gripið á COOLPIX A10 undirstrikar hönnun myndavélarinnar en það dregur einnig úr óskýrleika myndanna með því að koma í veg fyrir að myndavélin hreyfist þegar takan á sér stað. Með því að nota AA-rafhlöður er auðvelt að halda myndatökunni áfram, hvar sem maður er staddur.“

¹ Stækkun á Dynamic Fine Zoom er reiknuð út frá minnsta aðdrætti optíska aðdráttarins.