Nikon Imaging | Ísland | Europe

11-07-2017

Hraðari. Skarpari. Betri. Nýja AF-P NIKKOR 70–300 mm ED VR aðdráttarlinsan.

Amsterdam, Hollandi, 11. júlí 2017: Nikon gerir íþrótta-, dýralífs- og ferðaljósmyndurum kleift að ná betri aðdráttarmyndum án stuðningsbúnaðar með nýju AF-P NIKKOR 70–300mm f/4.5-5.6E ED VR. Hraðari AF- og SPORT VR-stilling eykur aðdrátt að myndefninu án þess að draga úr skerpu. Þessa léttu og veðurþolnu linsu má taka með sér hvert sem er.

Með þessari nýjustu „full-frame“ aðdráttarlinsu er hægt að fanga allt frá svipbrigðum sigurvegara til fugla á flugi með einstökum ljósmyndum og kvikmyndum. AF-P NIKKOR-linsan er búin skrefmótor Nikon sem stillir fókus á myndefnið hratt og nánast hljóðlaust. Titringsjöfnunin (VR) er nú mun hraðvirkari, hljóðlátari og öflugri. Linsan býður einnig upp á SPORT VR-stillingu, sem er fengin úr linsum Nikon fyrir atvinnuljósmyndara. SPORT VR-stillingin er í miklu uppáhaldi hjá ljósmyndurum sem mynda myndefni á hreyfingu og með henni getur ljósmyndarinn fylgt eftir myndefni á miklum hraða af öryggi – jafnvel þegar hreyfingin er ófyrirsjáanleg. Viðbótareiginleikar úr linsum Nikon fyrir atvinnuljósmyndara eru meðal annars rafsegulstýrð ljósopsþynna sem tryggir hárnákvæma lýsingarstýringu við hraða raðmyndatöku. Og skiptingin á milli A/M- og M/A-fókusstillinga gerir ljósmyndaranum kleift að stjórna handvirkri skiptingu fókusstillingar með því einu að snúa fókushringnum. Auðvelt er að skipta, nánast tafarlaust, sem gerir M/A-stillinguna afar vinsæla meðal íþróttaljósmyndara. A/M-fókusstillingin er ekki eins næm og kemur því í veg fyrir að óvart sé skipt yfir í handvirka stillingu.

Dirk Jasper, markaðsstjóri hjá Nikon Europe, segir: „Nýja AF-P 70-300 mm linsan opnar fyrir fjölmarga möguleika í töku aðdráttarmynda án stuðningsbúnaðar. Nikon er þekkt fyrir að innleiða tækni sem hefur sannað sig hjá atvinnuljósmyndurum yfir í ódýrari linsur og þessi nýja aðdráttarlinsa er nýjasta dæmið um það. Eiginleikar fyrir fagfólk, svo sem SPORT VR og M/A handvirk skipting fókusstillingar, munu breyta miklu fyrir ljósmyndara sem taka myndir við krefjandi aðstæður.“

Mikilvæg uppfærsla – Nýir eiginleikar AF-P NIKKOR 70–300mm f/4.5-5.6E ED VR

Meiri sveigjanleiki: Þessi 70–300 mm aðdráttarlinsa (105–450 mm þegar hún er notuð með Nikon SLR-myndavél á DX-sniði) nær fókus niður í allt að 1,2 m yfir allt aðdráttarsviðið og 0,25x endurmyndunarhlutfalli að hámarki.
AF-P skrefmótor: Fyrir sérlega hraðvirkan og hljóðlátan sjálfvirkan fókus. Hægt er að taka upp myndskeið þar sem nánast ekkert heyrist í drifinu.
Háþróuð titringsjöfnun (VR): Gerir ljósmyndaranum kleift að taka myndir með lokarahraða sem er allt að 4,5 stoppum hægari en áður var mögulegt.¹
SPORT VR-stilling: Skilar stöðugri mynd í leitaranum, sem er gagnlegt þegar teknar eru myndir af leifturhraðri atburðarás eða við hliðrun.
Veðurþolin hönnun: Allir hreyfanlegir hlutar í linsuhylkinu eru þéttir til að verja þá gegn ryki og vatnsdropum.
Segulmögnuð níu blaða ljósopsþynna: Gefur samfellda sjálfvirka lýsingarstýringu, jafnvel í hraðri raðmyndatöku. Rúnnuð blöð ljósopsþynnunnar gefa náttúrulegt „bokeh“.
Framúrskarandi stjórnun: Skipting á milli A/M- og M/A-fókusstillinga. Fókushringurinn og aðdráttarhringurinn eru með rifflaða hlíf sem gerir gripið traustara.

¹ Samkvæmt CIPA-stöðlum.