Nikon Imaging | Ísland | Europe

4.8.2015

Skapandi sýn víkkuð út með nýrri og leifturhraðri AF-S NIKKOR 24mm f/1.8G ED-linsu með fastri brennivídd

Amsterdam, Hollandi, 4. ágúst 2015: Nikon bætir við fjölbreytt úrval sitt af f/1,8 linsum með fastri brennivídd með glænýrri AF-S NIKKOR 24mm f/1.8G ED-linsu. Þessi hraða linsa á FX-sniði er bæði léttari og handhægari en samsvarandi linsa fyrir atvinnuljósmyndara og fangar auðveldlega kraftmiklar og grípandi myndir.

Zurab Kiknadze, vörustjóri í linsu-, aukabúnaðar- og hugbúnaðardeild Nikon Europe, segir: „Gleiðhornslinsur nýtast best þegar ýkja á sjónarhornin og 24 mm hefur alltaf verið vinsæl brennivídd hjá ljósmyndurum sem sækjast eftir skapandi stíl. Nýja 24 mm linsan í f/1,8 línunni fyllir fullkomlega í skarðið á milli 20 mm og 28 mm linsanna frá Nikon sem nýlega komu á markað. Þessi frábæra linsa hentar sérstaklega vel til að taka kröftugar og grípandi myndir sem fanga áhorfandann. Hún býður upp á frábær afköst í lítilli birtu við umhverfismyndatökur og fallega túlkun úr fókus við stemmningsmyndatökur. Og ef óskað er eftir kvikmyndatöku þar sem upptakan hefur kvikmyndayfirbragð skilar þessi fjölhæfa linsa svo sannarlega sínu.“

Áhrifamikill arkitektúr. Heillandi landslag. Eftirtektarverðar götuljósmyndir. Víðáttumikil innanrými. Til að ná myndum sem þessum þarf linsan að vera breið og hröð. Nýja 24 mm f/1,8G-linsan frá Nikon hentar sérstaklega vel fyrir D-SLR myndavélar með hárri upplausn og skilar frábærum ljósmyndum og kvikmyndum. Hraðvirka f/1,8 ljósopið býður upp á grunna dýptarskerpu, mjúkt „bokeh“, skýrar myndir í lítilli birtu og bjarta mynd í leitaranum. Fókusfjarlægðin er aðeins 0,23 m, sem býður upp á enn meiri fjölbreytni og sköpunarfrelsi. Fyrirferðarlítil og létt hönnunin gerir þessa öflugu gleiðhornslinsu að góðum ferðafélaga.

Yves Paternoster: AF-S NIKKOR 24mm f/1.8G Nikon D750

Nýja 24 mm NIKKOR-linsan gefur ótrúlega skýrar myndir og eykur birtuskil þeirra á öllum rammanum. Linsubyggingin felur í sér 12 einingar í níu hópum. Tvær glereiningar með mjög lítilli dreifingu (ED), tvær hálfkúptar linsueiningar og nanókristalhúðin frá Nikon tryggja skarpar og skýrar myndir. Bjögun er takmörkuð sem og hugsanlegir hnökrar sem koma jafnan fyrir á jöðrum gleiðhornslinsa, svo sem birturýrnun eða skerputap.

Alex Soh: AF-S NIKKOR 24mm f/1.8G Nikon D750

Nýja linsan er einnig áhugaverð fyrir DX-ljósmyndara þar sem hún býður upp á brennivídd á DX-sniði sem jafngildir 36 mm. Nú geta notendur DX-myndavéla nýtt sér hágæða glerið úr FX sem kemst nálægt hefðbundinni 35 mm brennivídd þegar það er notað á DX-myndavél. Hefðbundna 35 mm brennivíddin skapar tímalausar og áhrifaríkar myndir. Hún er í miklu eftirlæti hjá ljósmyndurum sem vilja fanga myndir með klassískt yfirbragð. Til viðbótar við brennivíddina tryggir sterk en létt hönnunin á þessari nýju FX-linsu að hún fer líka vel á DX-myndavélarhúsi.

AF-S NIKKOR 24mm f/1.8G ED fylgir Bayonet-linsuhúdd og mjúkur linsupoki.