Nikon Imaging | Ísland | Europe

Sem dýralífsljósmyndari vildi Vincent deila fegurð tíbeskrar náttúru með öðrum. Nikon-sérverkefnið hans leiddi hann á nokkra af afskekktustu og ósnortnustu stöðum Tíbet þar sem hann vonaðist til að ná myndum af snæhlébarðanum – dýri sem er afskaplega einangrað og myndavélafælið.

Sp.: Hvers vegna valdirðu Tíbet fyrir sérverkefnið þitt?

Í Tíbet er að finna villtasta dýralíf í heimi, en þar á hins vegar mjög fátt fólk heima. Ég hef lesið margar bækur um Tíbet og dýralífið þar, einkum eftir bandaríska líffræðinginn George Schaller, sem starfaði á tíbesku hásléttunni á 8. og 9. áratug síðustu aldar.

Þrátt fyrir starfið sem Schaller vann er Tíbet tiltölulega óþekkt og það þýðir að dýralífið þar hefur lítið verið myndað og skrásett. Þarna eru dýr sem lifa eingöngu á þessu svæði og fyrirfinnast hvergi annars staðar í heiminum.

Mig langaði sérstaklega að fanga myndir af snæhlébarðanum sem er í útrýmingarhættu, auk lítt þekktra dýra á borð við pallasköttinn.

Sp.: Hvað var erfiðast við vinnuna í Tíbet?

Tíbet er ótrúlega óaðgengilegur staður – bæði frá landfræðipólitísku sjónarmiði og einnig af praktískum ástæðum – vegna þess hversu hátt yfir sjávarmáli landið liggur. Ef þú ert að hugsa um að ferðast til einhvers staðar á borð við Tíbet skaltu gæta þess að ráðfæra þig við fræðimenn sem geta aðstoðað við að velja réttu leiðina. Það var ekki hægt að finna áreiðanlegt kort í Tíbet svo ég varð að nota Google Earth til að fylgjast með því hvar ég var og hvert ég þurfti að fara.

Ég held að það sé líka mikilvægt að reyna að ferðast með öðrum. Einu sinni var ég með ferðafélaga sem ég kynntist á staðnum og sem hjálpaði mér á margan hátt, allt frá því að ná símasambandi yfir í að setja upp grunnbúðir. Ég fór nýlega aftur til Tíbet með aðstoðarmanni og öðrum vini mínum og það var ómetanlegt að hafa fleiri augu við leitina að snæhlébarðanum, þar sem hann er ótrúlega felulitaður og erfitt að koma auga á hann þegar maður horfir yfir fjöllin.

Sp.: Hvað lærðirðu af ferðinni til Tíbet?

Ég lærði mjög mikið um sjálfan mig. Samband mannsins við náttúruna er mjög undarlegt – það er gjá á milli. Þegar ég er að vinna að verkefnum vil ég gjarnan fara alla leið til þess að reyna að brúa þetta bil. Það er ekki auðvelt og oft er ég hræddur við landslagið, veðráttuna og jafnvel dýrin. En það skiptir miklu að mennirnir skilji að við erum ekki drottnarar heimsins.

Mér finnst mikils virði að geta snúið reglulega aftur til náttúrunnar og lifað án allra þæginda heimilisins, upplifað sömu skilyrði og þessi dýr. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll dýr.

Sp.: Hvert var eftirminnilegasta augnablik ferðarinnar?

Ég komst alveg ótrúlega nálægt fallegum snæhlébarða. Ég fann móður með unga – og ég fylgdist með þeim í tvo daga á bak við klett. Fyrst reyndi hún að veiða blásauð, sem er helsta bráð snæhlébarðans. Þegar það tókst ekki flutti hún sig yfir í gljúfur og mér tókst að elta hana þangað.

Ég var í um það bil 100 metra fjarlægð frá henni, sem var bæði magnað og ógnvænlegt. Svo tók ég eftir að hún sá skuggann af mér. Ég lét mig samstundis falla til jarðar, hún kom nær og nær og ég gerði mér grein fyrir að hún gæti ráðist til atlögu hvenær sem var. Eftir stutta stund stóð ég upp til að sýna henni að ég væri maður en ekki villijakuxi eða möguleg bráð. Hún hljóp í burtu, en augnablikið sem við horfðumst í augu áður en hún flúði var ótrúlegt. Ég hef lesið mikið um snæhlébarða, en ég hef aldrei heyrt neinn segja viðlíka sögu. Þeir þekkja fjöllin sín út og inn – oftast sjá þeir mann þótt maður sjái þá ekki. En í þetta sinn sáum við hvort annað.

Sp.: Hvað heillar þig við snæhlébarða?

Ég nýt þess alltaf að komast í návígi við stór rándýr eins og birni og úlfa – það er ákveðin spenna fólgin í því að hafa svona stór og falleg dýr fyrir augunum. Það verður jafnvel enn meira spennandi ef í því felst áskorun.

Ég hafði heimsótt Tíbet þrisvar sinnum áður en ég sá snæhlébarða í fyrsta sinn. Ég vona að ég sjái einhvern tímann síberíutígrisdýr – í þessu starfi veit maður aldrei hvað maður kemst í tæri við.

Sp.: Hvaða öðrum dýrum vonastu til að taka einhvern tímann myndir af?

Pallaskötturinn heillar mig því að mjög lítið er vitað um hann, hann er eins konar blanda af snæhlébarða og villiketti. En það er fullt af einstökum dýrum í Tíbet, eins og antilópa, villiasni og villijakuxi. Það eru aðeins 15.000 villijakuxar í Tíbet – þeir eru í útrýmingarhættu.

Sp.: Hvernig skipuleggurðu verkefni á borð við þetta?

Það er brýnt að leggjast í rannsóknavinnu áður en lagt er upp í ferðalag af þessu tagi. Ég les eins mikið af bókum og ég get, en það hefur ekki mikið verið gefið út um svæðið og dýralífið þarna – og þótt það sé líka kostur þýðir það að mig skorti þekkingu á köflum og ég þurfti að takast á við það. Pallaskötturinn er einkum og sér í lagi dýrategund sem heimurinn veit afar lítið um.

Sp.: Hvaða þættir hafa áhrif á val þitt á búnaði?

Það eru mikil forréttindi að komast í návígi við snæhlébarða og við slíkt tækifæri vill maður hafa bestu myndavélina og búnaðinn meðferðis. Allt þarf að vera eins og best verður á kosið til að tryggja að maður missi aldrei af neinu, og þess vegna kunni ég vel að meta gæði og áreiðanleika Nikon D5 og D500.

Maður gæti haldið að veðrið væri lykilatriði sem taka þyrfti tillit til við töku í 35 stiga frosti, en allur Nikon-búnaðurinn sem ég notaði virkaði fullkomlega í þessu loftslagi. Ég vissi að í Tíbet yrði ég alltaf á ferðinni við krefjandi aðstæður, og því skipti miklu máli að myndavélarnar væru litlar og léttar.

Sp.: Hvaða ráðleggingar geturðu gefið ljósmyndurum sem vilja fanga myndir af styggum dýrum eins og snæhlébarðanum?

Það er lykilatriði að virða dýrin og forðast að trufla þau – bæði þín og þeirra vegna. Þau geta verið hættuleg. Kynntu þér myndefnið, venjur dýranna og hegðun. Ég reyni að lesa eins mikið og ég get um dýrin, og tala við aðra ljósmyndara og könnuði til að læra af reynslu þeirra.

Þegar ég er að taka myndir gæti ég þess að nýta mér náttúrulega lýsingu eins og kostur er. Ég mæli einnig með því að taka fjölbreyttar myndaraðir. Ekki reiða ykkur á að taka sömu myndina aftur og aftur.

Sp.: Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að vera Evrópusendiherra Nikon og geta unnið að verkefni á borð við þetta?

Ég er tryggur Nikon-notandi og hef notað búnað frá Nikon síðan ég var 12 ára. Ég hef mikla tengingu við vörumerkið og er stoltur af að vera Evrópusendiherra Nikon. Það er gefandi og spennandi fyrir mig sem ljósmyndara að fá tækifæri og stuðning til að sinna jafnmetnaðarfullu verkefni og þetta er.