Nikon Imaging | Ísland | Europe

Lærðu að nýta þér ljósaskiptin

MYNDATÖKUR Í LJÓSASKIPTUNUM

Þegar birtunni bregður rennur upp „töfrastundin“, sem Spánverjar kalla „La hora azúl“ og Frakkar „L´heure bleu.“ Þetta er andartakið rétt áður en sólin kemur upp eða eftir að hún hnígur til viðar. Þessi stutta stund er þekkt fyrir að hafa rómantískt yfirbragð og fyrir að ljá dramatískum atriðum í kvikmyndum eða áhrifamiklum ljósmyndum einstaka myndræna eiginleika.

Nikon D7000, f/29, 30 sek., ISO 100, AF-S DX NIKKOR 18-200mm f/3.5-5.6G ED VR II

LÆRÐU AÐ NÝTA ÞÉR LJÓSASKIPTIN

Töfrastundin rennur upp þegar ríkjandi liturinn á himninum er blár og djúpur og enn nýtur nægilegrar birtu til að hún dragi fram flest dekkri svæði myndarinnar, án þess að nota þurfi viðbótarljósgjafa. Þetta má þakka svonefndri Rayleigh-ljósdreifingu, en það er dreifing ljóss í ögnum sem eru smærri en bylgjulengd sýnilegs ljóss, sama ferli og gerir himininn bláan.

Þegar sólin er sigin sex gráður niður fyrir sjóndeildarhring er hún hætt að lýsa beint á jörðina, heldur lýsir upp háloftin. Þetta er kallað „ljósaskipti“. Á meðan á þessu stendur berst rautt ljós, sem hefur lengri bylgjulengd en blátt ljós, í gegnum andrúmsloftið og út í geim, en bláa ljósið sundrast og dreifist.

Að morgni er töfrastundin svokallaða rétt fyrir ljósaskiptin, þegar gyllt ljós ræður ríkjum, um 30 mínútum áður en sólin kemur upp. Að kvöldi er töfrastundin við lok ljósaskiptanna, rétt eftir að gyllta ljósið dvínar, og rennur þá upp um það bil 10 til 15 mínútum eftir að sólin sest.

VINSÆLT MYNDEFNI SEM HÆGT ER AÐ FESTA Á MYND

Að mynda á töfrastundinni er list sem er ekki flókið að læra, þar sem það þarf yfirleitt ekki að hafa neinar áhyggjur af of harkalegri lýsingu eða of miklum skuggum. Landslagsmyndir, borgarmyndir og andlitsmyndir eru allt myndgerðir sem er mjög spennandi að taka á „töfrastundinni“, enda baðar ofanbirtan myndina í dulúðugum bjarma.

LEIÐBEININGAR UM MYNDATÖKUR Á TÖFRASTUNDINNI

Ef þú ert byrjandi í myndatökur á töfrastundinni koma hér nokkur hollráð til að koma þér í gang:

• Tímasetning töfrastundarinnar fer eftir landfræðilegri staðsetningu, svo það er mikilvægt að kanna klukkan hvað sólin kemur upp eða sest þar sem þú ert hverju sinni.
• Skipuleggðu myndatökuna vel og komdu á staðinn með góðum fyrirvara. Þú þarft að hafa nægan tíma til að setja búnaðinn upp og stilla.
• Settu myndavélina á þrífót til að tryggja stöðugleika og ákvarðaðu myndbygginguna með sjóndeildarhringinn sem bakgrunn.
• Haltu ISO-gildinu eins lágu og unnt er, til að draga úr kornamyndun og suði á myndinni.
• Þegar töfrastundin rennur upp þarftu að nota minni lokarahraða til að myndirnar fái nægilega lýsingu. Myndaðu í handvirkri stillingu eða með stillt á forgang á lokara, því þær stillingar gera þér kleift að velja lokarahraðann handvirkt.
• Til að myndin verði skýr skaltu nota fjarstýringu eða kveikja á tímastillingu myndavélarinnar. Með því að ýta á afsmellarann er hugsanlegt að þú valdir óviljandi örlitlum hristingi og það getur dugað til að gera myndina óskýra.
• Taktu nokkrar prufumyndir og skoðaðu alltaf stuðlaritið til að ganga úr skugga um að það séu engin yfirlýst svæði eða ónauðsynlegir skuggar á myndinni.

Ef þú ert að nota DSLR-myndavél skaltu prófa þig svolítið áfram við HDR-myndatöku (High Dynamic Range). HDR-mynd er samsett úr fjölda mynda sem teknar eru við mismunandi lýsingu og síðan settar saman í eftirvinnslu. Sumar DSLR-myndavélarnar frá Nikon eru með innbyggðan HDR-eiginleika, sem þýðir að margar myndir eru teknar af sama myndefninu og þær síðan settar saman í vélinni svo úr verður HDR-mynd.