Nikon Imaging | Ísland | Europe

Bestu ráðin til að fanga falleg sólsetur

Sólsetur eru eitt af vinsælustu myndefnum ljósmynda og það sem er svo æðislegt við þau er að þau halda stöðugt áfram að gefa af sér. Jafnvel þegar sólin hefur sigið fyrir neðan sjóndeildarhringinn gefur kvöldroðinn sem lýsir upp himininn í ljósaskiptunum um 20 mínútum síðar mikið af sér. Prófaðu ráðin okkar til að nýta þessi töfrandi augnablik til fulls.

©Neil Freeman | Nikon School

• Hentug leið til að sjá hvort að sólsetur lofi góðu er að horfa á skýin: há, stök ský þar sem mikið bil er á milli þeirra henta mjög vel þar sem hvert ský mun grípa smá birtu og lit og mynda fallegt umhverfi. Skýjabreiður lofa ekki góðu! Annað sem bendir oft til þess að sólsetrið verði fallegt er rigningardagur – ef regnskýin byrja að hverfa um sólsetur gætir þú náð góðum myndum.

• Þegar myndir eru teknar af sólsetrum er nauðsynlegt að bregðast hratt við – þú hefur í kringum 20 mínútur til að ná myndunum og frá einni mínútu fram á þá næstu getur myndin breyst töluvert vegna þess hvernig birtan endurspeglast af mismunandi hlutum og hvernig styrkleiki hennar breytist. Lykillinn er að vera búinn að stilla öllu upp fyrirfram því ef þú ert að brasa við að stilla þrífótinn þinn eru allar líkur á því að þú missir af öllu því besta.

• Til að búa til áhrifaríkar myndir af sólsetri þarftu yfirleitt eitthvað meira en bara sólsetrið – þú þarft myndefni í forgrunni innan rammans, hvort sem það eru form, skuggar, smáatriði eða áferð, en ský og fuglar á himninum geta einnig aðstoðað við að bæta dýpt við myndirnar, gera þær áhugaverðari og lífga upp á umhverfið.

• Þú munt yfirleitt nota lýsingu sem nær yfir meira en sekúndu (ef sólin er þegar horfin niður fyrir sjóndeildarhringinn), svo þú vilt forðast hristing myndavélar eins mikið og hægt er. Þá er gott að nota þrífót og afsmellarasnúru eða sjálftakara myndavélarinnar.°Þegar birtan dvínar muntu sjá að þú þarft smám saman að lengja lokarahraðann. Haltu áfram að skoða myndirnar á skjánum og í stuðlaritinu (sjá hér að neðan) og lengdu lýsingartímann fyrir næstu mynd ef þörf er á. Ef þú hins vegar vilt fá skuggamyndir af smáatriðum í forgrunni skaltu stytta lokarahraðann en passaðu þig að hafa ekki of mikið af skuggamyndum á myndinni þar sem hún getur orðið of dökk.

• Á meðan sólin er enn uppi á himninum skaltu stilla á forgang lokara (A-stillingu á myndavélinni) með sjálfvirku ISO, ef þú heldur á myndavélinni, og þá ætti myndavélin að tryggja þér jafnvægi í lýsingunni, á meðan birtan dvínar smám saman á himninum. Við sólsetur breytist birtan í einni svipan og ef þú notar handvirka stillingu (M-stillingu) þarftu sífellt að breyta stillingum myndavélarinnar til að halda lýsingunni réttri. Það skerðir tímann sem þú hefur til að íhuga lýsingaraðstæður og myndbyggingu. Ef þú þarft að nota minni lokarahraða getur þú annað hvort notað ND-síu (Neutral Density) eða valið minna ljósop, t.d. f/11 eða f/16. Með því að nota lítið ISO-ljósnæmi, til dæmis 64 eða 100, samhliða minni lokarahraða, getur þú líka náð myndum í meiri gæðum.

Ef þú ert að mynda í ljósaskiptunum, eða á „töfrastundinni“, og eftir að sólin er sest og enn með myndavélina stillta á forgang á lokara gæti verið gott að nota eiginleikann „Leiðrétting á lýsingu“ til að fínstilla lýsinguna og vera alveg viss um að hún sé sem réttust. Annar möguleiki sem tryggir þér fullkomna stjórn á lýsingunni er að nota handvirka stillingu (M-stillingu) og fá þannig enn meiri stjórn á lokarahraðanum og ljósopsstillingunum.

Til að vera viss um að myndirnar verði alltaf hnífskarpar þótt myndað sé við litla birtu getur þú valið að nota annað hvort sjálfvirkan fókus eða handvirkan fókus. Með því að nota sjálfvirkan fókus í lítilli birtu getur þú notað miðlæga fókuspunktinn til að hjálpa þér að stilla fókusinn hraðar. Ef þér reynist samt sem áður erfitt að finna fókusinn skaltu skipta yfir í handvirkan fókus á linsunni og myndavélarhúsinu, kveikja á Live View (myndatöku með skjá) og nota svo annað hvort snertiskjáinn eða plúshnappinn til að stækka myndina á LCD-skjánum. Þá getur þú snúið fókushringnum á linsunni þar til myndefnið verður hnífskarpt. Þriðji valkosturinn er svo að forstilla fókusinn á myndefninu gegnum linsuna, á meðan birtan er enn næg, og læsa svo fókusnum.

• Ef þú vilt hafa ljós með á mynd af ljósaskiptunum, t.d. frá upplýstum byggingum eða götuljósum, skaltu passa ljósmælinguna. Lítil lýsing getur blekkt mælinn í að stilla lengri lýsingartíma til að lýsa upp stóran hluta dökku svæðanna, en þetta veldur því að upplýstu svæðin verða yfirlýst og hverfa. Notaðu leiðréttingu á lýsingu til að stjórna þessu – þú þarft örugglega að stilla nokkur stopp af undirlýsingu ef stór hluti umhverfisins er dökkur. Ef örlítil undirlýsing er notuð fyrir myndir af sólsetri verða litirnir einnig bjartari.

• Gakktu úr skugga um að stillingarnar þínar séu réttar með því að skoða myndina á LCD-skjánum og í stuðlaritinu. Stuðlaritið er grafísk framsetning á litatónasviði myndar – tafarlaus greining á myndinni sem þú tókst – og þegar teknar eru myndir af sólsetri segir það þér strax hvort þú sért með lýsinguna of hátt stillta og fáir því yfirlýst svæði. Leitaðu að bjögun vegna yfirlýsingar – mikið af hvössum, ójöfnum toppum hægra megin á stuðlaritinu. Ef sólin er á myndinni eru líkur á því að einhver svæði verði yfirlýst en oft skiptir það engu máli svo lengi sem að sveigjan á stuðlaritinu liggur við miðju þess.

• Mörg af ráðunum hér að ofan eiga einnig við ef þú ert að kvikmynda sólsetrið. Ef þú ert að mynda sólina að setjast skaltu gæta þín á ljósdraugum sem geta þurrkað út smáatriði. Þú getur unnið gegn þessu með því að velja minna ljósop til að hleypa minna ljósi inn, og með því dekkja umhverfið, eða með því að nota skautunarsíu til að útiloka viðbótarljós eða ljósdreifingarsíu til að dreifa úr því. Önnur aðferð er að sleppa sjálfri sólinni og einbeita sér í staðinn að landslaginu sem er upplýst af dvínandi sólargeislum hennar (þetta virkar einnig fyrir ljósmyndir). Reyndu að fanga eins mikið af báðum umhverfisgerðunum á meðan birtan er enn til staðar. Það gefur þér fleiri valkosti þegar myndbandið er klippt.

Sex góð ráð

1. Taktu alltaf í RAW (NEF)-skrám svo þú hafir eins miklar upplýsingar í myndinni og hægt er, sem þú getur svo unnið með í eftirvinnslu.

2. Veldu hvítjöfnunarstillinguna „dagsljós“ eða „skuggi“ til þess að þú getir fangað himininn við ljósaskipti í djúpbláum lit og volfram-ljós í hlýjum gulum og appelsínugulum tónum. Ef þú tekur upp í RAW geturðu leiðrétt vandamál með hvítjöfnun síðar í tölvunni þinni.

3. Almenn þumalfingursregla: Er sólin á himninum? Forgangur ljósops. Er sólin þegar sest? Handvirk lýsing.

4. Flassljósmyndun af sólsetri getur verið of augljós en þú getur náð fram náttúrulegra útliti með því að setja volfram-ljós eða hlýja síu yfir flassið.

5. Notaðu ND-síu (Neutral Density) með skiptinguna við sjóndeildarhringinn til að jafna út birtuskilin á milli bjarta himinsins við sólsetur og dekkri forgrunnsins.

6. Ef þú ert ekki nátthrafn skaltu taka myndir af sólsetrum á haustin eða veturna þar sem dagarnir eru styttri og sólsetur getur verið klukkan 15:30 í Evrópu, allt eftir því hversu norðarlega þú ferð (því norðar sem þú ert, þeim mun fyrr sest vetrarsólin).

Grein og myndir frá Neil Freeman.