Nikon Imaging | Ísland | Europe

Hvernig nota á Nikon-myndavél með innbyggðu Wi-Fi

Ítarlegar uppsetningarleiðbeiningar

Valdar Nikon DSLR- og COOLPIX-myndavélar eru með innbyggt Wi-Fi® sem gera notandanum kleift að flytja myndir án vandkvæða úr Wi-Fi-myndavélinni í samhæfan snjallsíma eða spjaldtölvu og deila þeim á auðveldan hátt. Nikon-myndavélar sem geta tengst Wi-Fi hafa einnig þann kost að ekki er nauðsynlegt að vera staðsettur á heitum Wi-Fi-reit. Myndavélin og snjalltækið sjá um tenginguna.

Þótt snjallsíminn þinn geti líklega tekið myndir getur stafræna Nikon-myndavélin örugglega tekið betri myndir. Þetta stafar af því að stafrænar myndavélar nýta stærri myndflögur og öflugar myndvinnsluvélar. Skynjari myndavélarinnar er hannaður til að skila hærri upplausn, breiðara virku sviði og getunni til að taka myndir í dræmri birtu og nýta mikið ISO-ljósnæmi. Allt þetta vinnur saman að því að skapa nýja kynslóð hágæðamynda. Stafrænu myndavélarnar frá Nikon nýta einnig góðar NIKKOR-linsur ásamt hinum ýmsu eiginleikum og aukabúnaði til að auðvelda ljósmyndaranum að virkja sköpunargáfuna.

Hægt er að hlaða upp myndum á samhæf snjalltæki sem eru með forritið Wireless Mobile Utility (WMU) frá Nikon uppsett. Forritið er ókeypis og það má finna í iTunes Online Store® og Google Play™ Store fyrir Android™-tæki.

Myndavélin býr til stórar skrár í hárri upplausn og ekki er víst að þú viljir taka myndir með hámarksupplausn ef þú hyggst senda þær í snjalltæki með Wi-Fi. Ef það er gert tekur sendingin á milli myndavélarinnar og tækisins mun lengri tíma þar sem sendingartíminn eykst með stærri skrám. Því mælum við með því að nota JPG-snið frekar en NEF. Með því að velja JPG-fínstillingu/stóra stærð færðu einnig stærri skrár en ef JPG-grunnstilling/miðstærð eða lítil stærð er valin. Ef taka á myndir sem verða aðeins birtar á stafrænu formi er hægt að stilla myndavélina á minni skráarstærð.

Þeir sem kjósa að taka myndir í hærri upplausn sem myndavélin býður upp á geta sett forritið upp þannig að það hlaði eingöngu niður ráðlagðri myndastærð eða jafnvel minni VGA-stærð, á meðan það skráir myndina í hárri upplausn á margmiðlunarkortið. Þetta er hægt að stilla í stillingarvalmyndinni í forritinu.

Fjarstýring

Auðvelt er að nota snjalltækið sem fjarstýringu við myndatöku — þannig getur þú verið með á myndinni eða komið myndavélinni fyrir á stað þar sem þú getur opnað lokarann úr öruggri fjarlægð, til dæmis þegar þú reynir að ná mynd af villtu dýri. Það besta er að þú sérð í raun sömu mynd á snjalltækinu og myndavélin nemur, sem gerir þér kleift að smella af á nákvæmlega réttu augnabliki. (Skoðaðu notendahandbók myndavélarinnar til að sjá hvort myndavélin þín býður upp á þennan möguleika.)

Það er lítið mál að deila ljósmyndum með fjölskyldu og vinum með stafrænni Nikon-myndavél með innbyggðu Wi-Fi. Þú getur einnig deilt myndböndum í gegnum DSLR-myndavélar frá Nikon.

Hvernig nota á innbyggða Wi-Fi-eiginleikann í samhæfri myndavél

Nauðsynlegt er að hlaða niður ókeypis forritinu „Wireless Mobile Utility“ til að geta nýtt Wi-Fi-eiginleikann í Nikon-myndavélum með innbyggt Wi-Fi.

Einnig þarf að setja margmiðlunarkort í myndavélina til að fá fullan aðgang að Wi-Fi-valmyndunum.

Með Android™-tæki

Notendur Android™-tækja geta sótt forritið í Google Play™ Store og sett það upp í Android™-tækinu sínu.

Með Apple™-tæki

Notendur iOS-tækja geta sótt forritið í iTunes Online Store®.

Notendur Android-tækja geta tengst við samhæfu myndavélina á þrennan hátt en iOS-notendur hafa aðeins einn möguleika til að tengja myndavélina við snjalltækið.  Bæði Android™- og iOS-notendur geta fylgt eftirfarandi leiðbeiningum og tengst með því að velja „WI-FI NETWORK“ (Wi-Fi-net) á myndavélinni eða SSID á snjalltækinu. Þetta er fljótlegasta og einfaldasta leiðin til að tengjast vegna þess að tengingin er ekki dulkóðuð.

Android™-notendum býðst einnig að tengjast með WPS-hnappi (varin Wi-Fi-uppsetning) ef snjalltækið þeirra styður WPS-hnapp eða „PIN-entry WPS“ (innslátt PIN-númers fyrir WPS) sem er varin Wi-Fi-uppsetning. Ítarlegar leiðbeiningar um uppsetningu þessara tenginga eru í notendahandbók myndavélarinnar.

Nú er hægt að komast í myndavélina í gegnum forritið. Þegar valmöguleikinn „Take Pictures Remotely“ (taka myndir með fjarstýringu) er valinn í forritinu fer „Live View“ (myndataka með skjá) sjálfkrafa í gang. Þá er hægt að sjá sömu mynd í snjalltækinu og á skjá myndavélarinnar.

Samhæf myndavél tengd við snjalltækið

1. Kveiktu á innbyggðu Wi-Fi í myndavélinni. Á nýrri gerðum myndavéla er sérstakur Wi-Fi hnappur (á sumum eldri myndavélum þarf að velja Wi-Fi í uppsetningarvalmyndinni).

2. Opnaðu Wi-Fi-stillingarnar í snjalltækinu og veldu myndavélina á lista yfir net sem snjalltækið sýnir. Heitið byrjar á Nikon og svo kemur röð af bókstöfum og tölustöfum. Þegar þessi nettenging hefur verið framkvæmd einu sinni á Android-tækjum tengjast þau sjálfkrafa næst þegar kveikt er á Wi-Fi-tengingunni í myndavélinni. iOS-notendur þurfa að endurtaka þetta skref í hvert sinn sem nota á þráðlausa eiginleika Nikon-myndavélarinnar með snjallsímanum.

3. Opnaðu forritið Wireless Mobile Utility á snjalltækinu.

Samhæft Android™-tæki tengt við NFC-samhæfa Nikon-myndavél

Þeir sem nota Android-snjallsíma í útgáfu 4.0 eða nýrri og Nikon-myndavél sem styður NFC geta einnig notað NFC (nándarsamskiptaeiginleikann) til að tengja Nikon-myndavélina við snjallsímann og opna forritið.

Það er gert með því að setja N-merkið á myndavélinni við hliðina á Android-símanum og þá tengjast tækin og Wireless Mobile Utility-forritið opnast. Þá er hægt að skoða eða taka myndir.