Nikon Imaging | Ísland | Europe

Ráð frá sérfræðingunum: NIKKOR-linsan sem ég nota helst

NIKKOR-linsan sem ég nota helst
Hvers vegna ég held upp á AF-S NIKKOR 28-300mm f/3.5-5.6G ED VR

Grein og myndir frá Vincent Versace.

 

„Listin er til þess að sannleikurinn gangi ekki af okkur dauðum“

–  Friedrich Nietzsche

© Vincent Versace

D750, AF-S NIKKOR 28-300mm f/3.5-5.6G ED VR, 1 sekúnda, f/11, ISO 500, forgangur ljósops, fylkisljósmæling. Linsa við 48 mm

© Vincent Versace

D750, AF-S NIKKOR 28-300mm f/3.5-5.6G ED VR, 1/10 úr sekúndu, f/4,8, ISO 200, forgangur ljósops, fylkisljósmæling. Linsa við 62 mm

© Vincent Versace

D750, AF-S NIKKOR 28-300mm f/3.5-5.6G ED VR, ¼ úr sekúndu, f/32, ISO 100, forgangur ljósops, miðjusækin ljósmæling. Linsa við 78 mm

Ferðastu létt og leikandi

Hver listamaður notar sitt eigið verkfæri. Í gegnum þetta verkfæri leiðir listamaðurinn fram sína sköpunargáfu – hvort sem það er tónlistarmaðurinn með hljóðfæri sitt, málarinn með strigann og pensilinn eða dansarinn sem tjáir sig í gegnum líkamann.

Hjá ljósmyndaranum eru myndavélin og linsan þetta verkfæri. Linsan er pensillinn, myndflagan er striginn, skráin er nótnablaðið og lokaútgáfa ljósmyndarinnar er sjálft verkið.

Sá þáttur sem hefur haft mest einkennandi áhrif á ljósmyndirnar mínar eru linsurnar sem ég nota. Ég á sjálfur fleiri linsur en þú myndir finna í lítilli ljósmyndavöruverslun. Algengasta spurningin sem ég fæ snýst ekki um það hvers vegna ég kaus að taka myndina eins og ég gerði heldur hvaða myndavél, linsu og f/stop ég notaði. Svarið er svona: Myndavélin sem ég nota helst er Nikon D750 (sem tók við af Nikon D610, sem tók við af D600, sem tók við af D3X) og linsan sem ég nota helst er AF-S NIKKOR 28-300mm f/3.5-5.6G ED VR.

Svona svara ég þessari spurningu ... en þetta er samt ekki mjög gagnlegt svar. Nákvæmari spurning væri þessi: Hvers vegna leggurðu traust þitt á tiltekna linsu umfram aðrar? Hver linsa hefur eiginleika sem gera hana einstaka. Ég nota helst 28-300 mm linsuna vegna þess að hún sveigir ljósið á annan hátt en aðrar linsur. Þetta er ákvörðun sem ég tek á því augnabliki sem myndin er tekin. Allar ákvarðanir á bak við ljósmyndina – alla leið í lokaprentunina – verður að taka á því augnabliki sem ljósmyndin fangar þig og þú smellir af.

Þegar ég fer út úr stúdíóinu tek ég fjórar myndavélar og níu linsur með mér; yfirleitt verður 28-300 mm linsan fyrir valinu því að hún hentar við ótrúlega fjölbreyttar aðstæður. Með henni næ ég gleiðu horni – 28 mm er u.þ.b. það sjónsvið sem auga mannsins nemur – og allt að 300 mm, sem er mikil fjarlægð og yfirleitt nóg til að geta talið svitaholurnar á viðfanginu án þess að viðkomandi verði nokkurs var. Þetta er fjarlægðin þar sem þú getur „fundið“ fyrir því að einhver fylgist með þér.

Ég hef fjórum sinnum uppfært myndavélakerfið mitt en ávallt haldið einni linsu sem aðallinsunni minni. Ástæðan fyrir þessari staðfestu er sú þróun sem hefur átt sér stað. Fyrst kom 24 MP myndflaga í 35 mm húsi, Nikon D3X. 24 MP er lykilatriðið – með þessu fæst næg upplausn til að prenta myndir í hágæðum í stærðinni 112 x 92 cm. Næsta skref í þróuninni var 24 MP myndflaga sem skilar myndum með bókstaflega engu suði á háu ISO-ljósnæmi. Frá og með Nikon D600, svo með Nikon D610 og að lokum með D750 hef ég farið að treysta myndatöku með sjálfvirkri ISO-stillingu. Ég hef náð framúrskarandi ljósmyndum með engu suði á mjög hárri ISO-stillingu. Þessi miklu myndgæði koma til af því að fyrirtækið gerir sífellt endurbætur á myndflögunni og EXPEED 4 myndvinnslubúnaðinum, auk þess sem NIKKOR notar ekkert nema besta glerið í linsurnar sínar.

© Vincent Versace

D750, AF-S NIKKOR 28-300mm f/3.5-5.6G ED VR, 1/30 úr sekúndu, f/5,6, ISO 400, forgangur ljósops, fylkisljósmæling. Linsa við 300 mm

Eins og ég hef áður nefnt lít ég svo á að linsan sé pensillinn og myndflaga sé striginn. Þess vegna tek ég með mér svona margar linsur þegar ég fer á vettvang. Þótt ég taki allar þessar linsur með mér verður 28-300 mm linsan oftast ofan á. Ef ég get bara tekið með mér eina linsu verður 28-300 mm linsan fyrir valinu. Hún hentar fyrir daga þar sem ég veit ekki hvort ég þarf að nota gleiðhorn eða aðdráttarlinsu – sem er eiginlega alltaf þegar ég er á vettvangi.

Ástæðan fyrir þessu vali er hin mikilvægu „bokeh“-áhrif, en þau hafa að gera með það hvernig linsa vinnur úr myndfletinum og því sem er í fókus og úr fókus. Að mínu mati er þetta mikilvægasti þátturinn þegar velja á linsu. Allar linsur fókusera – til þess eru þær gerðar – en það sem skiptir mestu máli er hvernig linsan vinnur úr skilunum á milli fókussins og móðunnar. Ljósmynd hefur meira að gera með hlutina sem eru ekki í fókus heldur en þá sem eru í fókus; það er einfaldlega þannig sem linsur virka. Auk þess að vera með sérlega skarpan fókus skilar 28-300 mm linsan framúrskarandi „bokeh“-áhrifum. Þegar þessir „bokeh“-eiginleikar linsunnar koma saman með endurbótum á ljósnæmi í takmarkaðri birtu sem gerðar hafa verið á myndflögunum í D4S, D750 og D610 verður útkoman alveg einstök. Myndflögurnar í þessum myndavélum gera mér kleift að fanga sérlega fallega birtu þar sem lýsingin er mjög takmörkuð með háu ljósopi og lokarahraða sem nær að fanga andartakið. Þetta hefur í för með sér að ég þarf ekki lengur að treysta á „hraðvirka linsu“ (f/1,4, f/2,0 eða f/2,8) þegar birtan er takmörkuð. Ég nota stundum slíkar linsur vegna „bokeh“-áhrifanna sem þær skila, en ég er ekki lengur bundinn við þær í mjög takmarkaðri birtu.

Ég hef notað 28-300 mm linsuna sem aðallinsu í síðustu þremur myndatökum mínum í Búrma, síðustu þremur á Kúbu, síðustu tveimur á Indlandi og hér um bil öllum myndatökum þar á milli. Síðustu fimm ár hef ég tekið fleiri myndir með 28-300 mm linsunni en með nokkurri annarri linsu í mínum fórum.

Ég verð aldrei betri en þau augnablik sem fanga mig ... og allt gerist þetta fyrir framan linsuna mína. Lokaútkoma myndanna minna verður aðeins jafngóð og linsurnar og myndavélakerfin sem ég nota til að fanga þessi augnablik. Ljósmyndirnar sem ég skapa drífa starfsferil minn áfram. Undanfarin ár hefur það verið mitt val að sveigja ljósið til hins ítrasta með 28-300 mm linsunni. Myndavélarhús koma og fara ... en linsan fylgir þér lífið á enda.

Grein og myndir frá Vincent Versace.