Nikon Imaging | Ísland | Europe

Hvernig á að taka betri andlitsmyndir

Lærðu undirstöðuatriðin við töku vandaðra andlitsmynda

Þetta getur varla verið svo erfitt, er það? Vinur þinn, maki eða barn biður þig að taka af sér mynd. Þú átt fína, stafræna myndavél svo þú nærð í vélina og smellir af mynd. En þú ert ekki sátt(ur) við útkomuna og veist bara ekkert hvers vegna. Myndin er í fókus og lýsingin er rétt stillt, svo hvað er vandamálið? Þá skilur þú að það er meira á bak við góða andlitsmynd en að stilla myndavélina rétt.

Fyrsta skrefið er að velta svolítið fyrir sér bakgrunninum. Hann ætti aldrei að draga athyglina frá aðalmyndefninu. Látlaus veggur, dökkgrænn gróður – eitthvað sem er einfalt (án sterkra drátta eða mynstra) virkar alltaf vel. Fátt er verra en lína, staur eða trjágrein sem virðist vaxa upp úr höfðinu á myndefninu.

© Gary Small

D800, AF-S NIKKOR 24-120mm f/4G ED VR-linsa, 1/250 s, f/6,3, ISO 100, forgangur lokara, fylkisljósmæling, fylliflass.

Á þessari ljósmynd er engu líkara en götuskilti „spretti“ upp úr höfðinu á myndefninu.

© Gary Small

D800, AF-S NIKKOR 24-120mm f/4G ED VR-linsa, 1/250 s, f/4, ISO 100, forgangur lokara, fylkisljósmæling, fylliflass.

Á þessari mynd höfum við fært okkur til um rúmlega metra – og þá eru öll skilti á bak og burt – og þá verður myndin miklu skemmtilegri.

Hugað að bakgrunninum

Þegar þú ljósmyndar einhvern upp við bjartan bakgrunn er eins víst að myndin verði útlínumynd. Það er vegna þess að birtan á bakgrunninum getur valdið því að myndavélin undirlýsi myndefnið og láti það virðast dekkra. Til að vinna gegn þessu mætti prófa að skjóta upp innbyggða flassinu í Nikon DSLR-myndavélinni eða kveikja á flassaðgerðinni í stafrænu COOLPIX- eða Nikon 1-myndavélinni þinni. En þótt flassið geti bætt birtu við andlitið situr þú enn uppi með vandamálið vegna bjarta bakgrunnsins. 

Allar DSLR- og COOLPIX-myndavélar Nikon eru með leiðréttingu á lýsingu. Þannig er hægt að yfirlýsa myndina sem nemur einni eða tveimur f-tölum eða lokarahraðatölum til að mynda mótvægi við bjartan bakgrunninn. Ef útkoman er þér enn ekki að skapi skaltu prófa að nota annan bakgrunn, gjarnan dekkri að sjá en myndefnið.

Hafðu í huga að manneskjan á myndinni er aðalatriðið. Ekki hafa allt umhverfið í kringum manneskjuna með á myndinni. Auktu nándina með því að færa þig nær eða með því að nota aðdráttarlinsur. Afmarkaðu myndefnið upp við einfalda bakgrunninn sem þú valdir fyrir myndina. Höfuð á fólki eru lóðrétt svo það er best að mynda þau þannig. Láréttar andlitsmyndir geta virkað þvingaðar.

© Gary Small

D800, AF-S NIKKOR 70-200mm f/2.8G ED VR II-linsa, 1/250 s, f/2,8, ISO 100, forgangur ljósops, fylkisljósmæling, innbyggt sprettifylliflass.

Þessi andlitsmynd er með sérlega óáhugaverðri myndbyggingu. Myndefnið situr upp við múrvegg, í miðju rammans, og það er mikið af aukarými allt í kringum hana sem bætir engu við myndina.

© Gary Small

D800, AF-S NIKKOR 70-200mm f/2.8G ED VR II-linsa, 1/125 s, f/5, ISO 100, forgangur ljósops, fylkisljósmæling, innbyggt sprettifylliflass.

Á þessari mynd báðum við myndefnið að halla sér upp að veggnum og snúa sér svo við þannig að andlitið sneri að myndavélinni. Auk þess skárum við myndina talsvert – til að gera hana lóðrétta – og þannig varð yfirbragðið mun áhugaverðara. Nú er múrsteinsveggurinn fyrir aftan hana orðinn að lifandi áhrifsþætti í myndbyggingunni.

Hugað að útlitinu

Næst er gott að huga að fatnaði myndefnisins. Við andlitsmyndatökur virkar einlitur fatnaður oftast best, þar sem hann fangar síður augað. Skærlit mynstur garga á mann: „Sjáðu mig, ekki horfa á andlitið.“

© Gary Small

D300, AF-S NIKKOR 24-85mm f/2.8-4D IF-linsa, 1/30 s, f/3,5, ISO 200, forgangur ljósops, fylkisljósmæling, flasslýsing frá innbyggða sprettiflassinu á myndavélinni.

Á þessari mynd er myndefnið ekki bara í mynstraðri skyrtu heldur situr við hliðina á hillu sem er stútfull af alls konar dóti (vinstra megin) og upp við hina öxlina eru lóðrétt strimlagluggatjöld.

© Gary Small

D300, AF-S NIKKOR 24-85mm f/2.8-4D IF-linsa, 1/30 s, f/3,8, ISO 200, forgangur ljósops, fylkisljósmæling, SB-900 flass sem endurkastar birtu af lofti á myndefnið.

Á þessari mynd báðum við myndefnið okkar að færa sig til – þannig að lóðréttu strimlagluggatjöldin yrðu að bakgrunninum. Við báðum hann líka að fara í einlita skyrtu í stað þeirrar mynstruðu. Og með því að nota aðdrátt til að þrengja rammann fjarlægðum við annað sem dreifði athyglinni. Ljós sem endurkastast af loftinu gefur myndinni mjúka lýsingu.

Sjónarhorn sem fegra

Og að lokum: Ef þú ert ekki að taka handtökumynd fyrir lögregluna í hverfinu skaltu aldrei taka andlitsmynd þar sem myndefnið snýr beint að myndavélinni. Láttu fyrirsætuna snúa líkamanum svolítið (kannski svona 45 gráður frá þér) og snúa svo höfðinu í átt að þér. Þannig verður líkamsstaðan fallegri og gerir myndefnið meira aðlaðandi, og getur einnig virkað grennandi.

© Gary Small

D800, AF-S NIKKOR 24-120mm f/4G ED VR-linsa, 1/60 s, f/4, ISO 400, forgangur ljósops, fylkisljósmæling, SB-900 flass, beint flass. 

Á þessari mynd eru nokkur atriði sem valda vandræðum. Í fyrsta lagi er notað beint flass sem varpar ljósi á myndefnið og við það myndast sterkur skuggi á bakgrunninum.

Í öðru lagi er bakgrunnurinn svolítið hlaðinn, það sést í hluta af myndarömmum til hliðanna, hluti af loftinu er sýnilegur efst og það sést í horn á sófa neðst á rammanum. Og loks er myndefninu stillt upp beint fyrir framan linsuna og það er ekki falleg stelling.

© Gary Small

D800, AF-S NIKKOR 24-120mm f/4G ED VR-linsa, 1/60 s, f/4, ISO 400, forgangur ljósops, fylkisljósmæling, SB-900 flass, óbeint flass.

Við bjuggum til fallega mynd með því að auka aðdráttinn til að afmarka myndefnið. Nú er bakgrunnurinn ekki lengur truflandi fyrir augað. Birtan er mýkt með því að láta flassið endurkastast af loftinu (án skörpu skugganna sem beina athyglinni frá fyrirsætunni).

Að lokum báðum við fyrirsætuna að snúa sér svolítið til hliðar og beina höfðinu aftur að myndavélinni, með krosslagða handleggi, í stað þess að snúa líkamanum beint að myndavélinni.

Grein og myndir frá Gary Small.