Nikon Imaging | Ísland | Europe

Ljósmyndun skordýra og annarra smárra dýra

Í dag er vitað um yfir eina milljón skordýrategunda í heiminum og hluta þeirra er að finna úti í garði hjá þér. Skordýr eru liðdýr. Til að flokkast sem skordýr þarf viðkomandi dýr að hafa liðskiptan búk, sex fótleggi, tvo fálmara, samsett augu og, í einhverjum tilvikum, vængi. Önnur dýr, t.d. köngulær og sporðdrekar, eru einnig liðdýr en eru ekki flokkuð sem skordýr. Ljósmyndun skordýra og annarra smárra dýra getur verið ótrúlega skemmtileg. Þú þarft ekki að fara lengra en út í garð til að uppgötva nýjan heim í gegnum ljósmyndun í nærmynd eða makróljósmyndun.

Nokkrar stuttar ábendingar um makróljósmyndun:

Fyrsta grunnregla ljósmyndunar í nærmynd er að vera nálægt myndefninu. Skordýraljósmyndun krefst notkunar makrólinsu sem gerir þér kleift að stilla fókus mjög nálægt myndefninu. Makrólinsa (Nikon kallar þessar linsur Micro-NIKKOR-linsur) gerir þér kleift að ljósmynda myndefni í nánast raunverulegri stærð.

Einnig er ráðlegt að nota þrífót til að halda myndavélinni stöðugri, sérstaklega þegar notuð er aðdráttarlinsa eða hægur lokari. Einstaklega hentugt er að nota afsmellara með snúru til að smella af þegar myndavélin er notuð með þrífæti. Sumir ljósmyndarar læsa líka spegli DSLR-myndavéla áður en smellt er af. Slíkt dregur enn frekar úr hættunni á að myndavélin hreyfist. Ef þú átt ekki afsmellara með snúru geturðu notað sjálftakarann í staðinn.

Þú getur mögulega fyllt út í rammann með líkama skordýrsins eða jafnvel hluta líkamans, svo sem höfðinu og fálmurum, allt eftir því hversu nálægt þú kemst. Sýndu samt aðgát. Sum skordýr stinga.

Líkamar skordýra eru heillandi fyrirbrigði og eitt meginmarkmið nærmynda í náttúruljósmyndun er að endurskapa liti og smáatriði í heimi skordýranna. Góð makróljósmyndun leggur áherslu á augu, fótleggi og búk skordýranna og þeirra örsmáa heim. Til dæmis verður mynd af könguló alltaf áhugaverðari ef hún er í vefnum sínum.

Bakgrunnslitur spilar einnig mikilvægt hlutverk í uppbyggingu myndar. Ef myndefnið er dökkt, eins og raunin er með mörg skordýr, aðgreinir ljós og óskýr bakgrunnur dýrið frá umhverfi sínu og dregur athygli áhorfandans að því.

Tæknin við að aðgreina skordýr frá bakgrunni sínum er að nota litla dýptarskerpu. Dýptarskerpa er skilgreind sem svæðið fyrir framan og aftan myndefnið sem er í fókus. Dýptarskerpu er stýrt með stillingu ljósops. Lág f-tala, á borð við f/2.8, framkallar litla dýptarskerpu sem leggur áherslu á myndefnið um leið og bakgrunnur er gerður óskýr.

Önnur tækni sem náttúruljósmyndarar nýta er að staðsetja myndavélina þannig að vel upplýst myndefni er ljósmyndað á dökkum bakgrunni. Sterk lýsing myndefnis, t.d. í björtu dagsljósi eða með fylliflassi, veldur því að dökkur bakgrunnur er undirlýstur og virðist næstum svartur. Þetta skapar dökkan og jafnan bakgrunn sem leggur áherslu á myndefnið.

Ef bæði myndefni og bakgrunnur eru mikið upplýst kann að vera erfitt að aðgreina skordýrið frá umhverfi sínu. Hægt er að nota hversdagslega hluti á borð við efnisbút eða pappír sem hreyfanlegan stúdíóbakgrunn með því að setja hann á bak við myndefnið. Þannig er skordýrið einangrað á látlausum bakgrunni og aðgreint frá umhverfi sínu.

Skordýr hreyfa sig meira þegar hlýtt er í veðri. Þess vegna er ráðlegt að ljósmynda þau snemma á morgnana eða á kvöldin þegar hitastigið er lægra og þau hreyfa sig hægar. Náttúruleg lýsing á þessum tímum er líka skemmtilegri.

© Kristina Kurtzke

D3S, AF-S VR Micro-Nikkor 105mm f/2.8G IF-ED, 1/1000s, f/5,6, ISO 200, Manual (handvirk stilling), Matrix metering (fylkisljósmæling).

© Kristina Kurtzke

D3S, AF-S VR Micro-Nikkor 105mm f/2.8G IF-ED, 1/1000s, f/5,6, ISO 200, Manual (handvirk stilling), Matrix metering (fylkisljósmæling). Þetta er sama mynd af býflugunni á blóminu hér til vinstri eftir að hún var skorin. Auðvitað er frábært að ná endanlegri mynd með myndavélinni en alltaf er gott að hafa í huga að hægt er að skera myndina og vinna hana á annan hátt í tölvu.

Eins og við annars konar ljósmyndun nást áhrifaríkustu og fallegustu nærmyndirnar oft með því að hafa þær einfaldar. Þolinmæði og þrautseigja borgar sig. Góð dýptarskerpa og aðgreining myndefnisins skiptir máli þegar ná skal góðri makróljósmynd.