Nikon Imaging | Ísland | Europe

Hafist handa við myndatökur af sjávarumhverfi

Hafið hefur heillað ljósmyndara allt frá upphafi. Hvort sem þú ætlar að mynda tilkomumiklar öldur eða mjúkar hreyfingar vatnsins er hafið frábært myndefni sem getur ljáð myndunum þínum áhrifamátt og sérstætt yfirbragð. Við myndatökur af náttúru og landslagi er yfirleitt ekki hægt að hafa mikla stjórn á náttúruöflunum. En þegar þú myndar hafið getur þú reyndar haft talsverða stjórn á því hvernig öldurnar birtast á myndunum þínum. Einnig er mikilvægt að vera eftirtektarsamur og þolinmóður því ef maður bíður eftir rétta andartakinu getur árangurinn orðið einstakur.

Nikon D810, f/6,3, 6 sek., ISO 64, AF-S NIKKOR 14-24mm f/2.8G ED

SÝNDU FYLLSTU AÐGÁT

Þegar verið er að mynda sjávarumhverfi skal alltaf hafa í huga að það getur orðið æði rysjótt veður við ströndina og því þarf að huga vel að umhverfisaðstæðum. Gakktu úr skugga um að búnaðurinn þinn sé vel varinn gegn saltvatni, sandi, veðri og vindum. Notaðu síu til að hlífa linsunni. Þannig er auðveldara að koma í veg fyrir að sandurinn rispi linsuna. Áður en lagt er í hann niður að strönd skaltu afla þér upplýsinga um flóð og fjöru og um hafstrauma, þar sem sveiflurnar sem á þessu verða geta haft áhrif á hreyfingar vatnsins og kraft. Gættu þess að skoða veðurspár og forðast að lenda í miklu hvassviðri eða miðjum stormi. Ef þú ætlar að mynda eftir að myrkur skellur á skaltu taka með höfuðljós eða vasaljós til að geta ratað aftur upp á veginn.

HOLLRÁÐ FYRIR MYNDATÖKUR AF SJÁVARUMHVERFI

Góð myndbygging getur skipt sköpum um það hvort myndin heppnast. Rétt eins og við landslagsmyndatökur getur verið gagnlegt að hafa áhugaverða myndþætti sem mynda andstæður í forgrunni, svo sem kletta, bryggju eða jafnvel spegilmyndir af einhverju.

Ekki hika við að bleyta fæturna eða vaða út í blautan sand. Stundum getur verið gott að mynda frá mörgum mismunandi sjónarhornum, það gerir frásögnina í myndunum áhugaverðari. Til að myndin verði sem áhrifaríkust er ráðlagt að nota gleiðhornslinsu á borð við AF-S NIKKOR 24mm f/1.8G ED-linsuna eða AF-S NIKKOR 14-24mm f/2.8G ED-linsuna. Mikil brennivídd getur hjálpað þér að tjá mikilfengleika og tilkomumikla breidd.

Það er hægt að nota fjölmargar aðferðir við að mynda hafið. Með því að nota mismunandi lokarahraða getur þú breytt áferð og yfirbragði vatnsins á myndunum þínum. Ef þú notar til dæmis mikinn lokarahraða, svo sem 1/500 sek., frystir þú hreyfingu vatnsins og fangar þannig kraft þess og áhrifamátt. Ef þú vilt að myndin tjái hreyfingu skaltu nota lítinn lokarahraða, t.d. 1/2 sek., til að mynda hreyfingar vatnsins. Ef lokarahraðinn er 1 sek. eða lengri geturðu náð mynd með mjólkurkenndu eða þokukenndu yfirbragði. Þannig fær myndin friðsælli og kyrrlátari blæ.

Þegar þú myndar við ströndina er mikilvægt að hafa allt í fókus. Með því að nota ljósop sem er f/8 eða minna eykur þú líkurnar á að halda bæði forgrunni og bakgrunni myndarinnar í fókus.

Hvort sem þú ert að mynda hafið með því að nota mikinn lokarahraða eða mynda eftir sólsetur er ráðlagt að setja myndavélina alltaf á þrífót. Skerpa er lykilatriði og þrífótur stuðlar að stöðugleika og dregur úr hættunni á að myndin verði óskýr. Ef þú setur þrífótinn upp í fjöruborðinu skaltu gæta þess að hann sé tryggilega festur, annars geta öldurnar sem brotna á honum fært hann til eða fellt hann um koll. Þegar myndin er komin skaltu alltaf ganga úr skugga um að hún hafi ekki orðið óskýr af vangá.

SÍUR NOTAÐAR

Síur geta hjálpað þér að verja fremsta hluta linsunnar gegn skemmdum, en þær geta líka bætt myndgæði myndanna.

Við myndatökur af landslagi og sjávarumhverfi eru tvær síur langvinsælastar, GND-sía (Graduated Neutral Density) og ND-sía (Neutral Density). GND-síur eru yfirleitt notaðar við mikil birtuskil, svo sem þegar himinninn er miklu bjartari en forgrunnurinn. Slík sía hjálpar til við leiðréttingu lýsingarinnar og gerir hana jafnari. ND-síur geta dregið úr magni þess ljóss sem berst inn í myndavélina og þannig gert þér kleift að nota lengri lýsingartíma. Sían auðveldar þér einnig að nota stærra ljósop til að minnka dýptarskerpuna.

Við myndatökur á sjávarumhverfi er engin ein leið sú rétta. Prófaðu þig áfram með myndbyggingu og uppröðun og leyfðu andartakinu að lifna þegar það gerist.