Nikon Imaging | Ísland | Europe

„Bokeh“ fyrir byrjendur

„Bokeh“ er dregið af japanska orðinu boke (ボケ), sem merkir „óskýrt“ eða „þokukennt“ – eða boke-aji, „óskýrleiki“. „Bokeh“ er borið fram „BOH-Kə“ eða „BÓ-key“.

Þú getur kíkt á hvaða vefsvæði eða spjallsvæði sem er fyrir ljósmyndun og ljósmyndara og fundið spjallþræði um það hvernig ljósmyndarar nota uppáhalds hraðvirku linsurnar sínar til að töfra fram falleg „bokeh“-áhrif. Þar finnur þú gnægð lýsingarorða: mjúkt, ótrúlegt, frábært, gott, fallegt, ljúft, silkimjúkt, æðislegt … en hvað er „bokeh“ eiginlega í raun?

Segja má að „bokeh“ megi skilgreina sem „áhrif sem myndast þegar þú myndar fyrirsætu með hraðvirkri linsu við stærsta mögulega ljósop, með mjúkan, óskýran bakgrunn“. Í hnotskurn má segja að „bokeh“ sé orð yfir óskýrleika á ljósmynd sem kallar fram falleg áhrif sem gleðja augað.

Þótt „bokeh“ sé í raun útlitseinkenni á ljósmynd er það linsan sem notuð er hverju sinni sem ræður lögun og stærð sýnilega „bokeh“-svæðisins. „Bokeh“ verður yfirleitt sýnilegra á yfirlýstum svæðum og stjórnast af lögun ljósopsþynnanna (stærð ljósopsins) í linsunni. Linsa með ljósopsþynnum sem eru meira hringlaga senda frá sér kringlóttari og mýkri lýsingu fyrir óskýr svæði. Linsa með ljósopi sem er sexstrendara að lögun endurskapar þá lögun á þeim svæðum sem lýst eru.

Að kalla fram „bokeh“ á þínum myndum

Til að ná fram „bokeh“-áhrifum í myndum þarftu að nota hraðvirka linsu – því hraðvirkari, þeim mun betri. Þú ættir því að nota linsu með minnst f/2,8 ljósopi og best er að ljósopið sé enn hraðara, eða f/2, f/1,8 eða f/1,4. Margir ljósmyndarar kjósa að nota hraðvirkar linsur með fastri brennivídd þegar þeir taka myndir sem eiga að vera með sýnilegu „bokeh“.

Æskilegast er að taka myndina með linsuna alveg opna og því er best að nota tökustillingarnar „forgangur ljósops“ eða „handvirk stilling“. Handvirk stilling gerir þér kleift að velja bæði ljósopshraðann og lokarahraðann. Forgangur ljósops gerir þér kleift að velja f-töluna (ljósopið) en myndavélin velur besta lokarahraðann fyrir lýsingarstigið. Einnig er hægt að nota stillinguna „sveigjanleg stilling“, sem gerir þér kleift að velja stærsta mögulega ljósop og mesta lokarahraða samhliða.

Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur þótt þú eigir ekki mjög hraðvirka linsu. Með því að auka fjarlægðina á milli myndefnisins og bakgrunnsins getur þú kallað fram „bokeh“ á myndum sem eru teknar með minna ljósopi.

Til að auðvelda þér að ná fram sýnilegu „bokeh“ á myndunum þínum skaltu því auka fjarlægðina á milli fyrirsætunnar og bakgrunnsins. Þetta má gera með því að minnka fjarlægðina milli myndavélar og myndefnis. Þeim mun grynnri sem dýptarskerpan er, eða þeim mun lengra frá sem bakgrunnurinn er, þeim mun óskýrari verður hann. Yfirlýst svæði sem lenda á bakgrunninum verða þá einnig með sýnilegra „bokeh“. Ef þú notar baklýsingu, hliðarlýsingu eða sérstaka lýsingu á hárið verða „bokeh“-áhrifin fallegri.

Það er upplagt að nota „bokeh“ á andlitsmyndum. „Bokeh“-áhrif njóta sín sérstaklega vel á andlitsmyndum í návígi. Nærmyndir og makrómyndir af blómum og öðrum náttúrufyrirbærum eru líka vinsæl leið til að nýta sér „bokeh“. Og þegar verið er að mynda þyrpingar jólaljósa eða aðra hluti sem endurkasta mikilli birtu er hægt að mynda vísvitandi úr fókus og töfra fram fallega leiftrandi ljóshnetti.

„Bokeh“ getur ljáð mikið lýstri ljósmynd mýkt. Með því að nota þessa tækni til að aðgreina myndefnið frá bakgrunninum er líka hægt að komast upp með að nota bakgrunn sem er ekkert sérstaklega aðlaðandi. Með því að dreifa ljósinu og gera bakgrunninn óskýran dregur þú fram aðalmyndefnið, í stað þess að dreifa athyglinni frá því.

Grein og myndir frá Jody Dole, Kristina Kurtzke, Lindsay Silverman og Paul Van Allen