Nikon Imaging | Ísland | Europe

Ábendingar frá fagmanni um hvernig best er að taka andlitsmyndir af börnum

Áður en að þú metur staðsetninguna og lýsinguna, tekur fram myndavélina og velur linsu er gott að sýna smá herkænsku og sálfræðikunnáttu. Þetta er ómissandi þáttur í að ná bestu ljósmyndunum af börnunum þínum, barnabörnum, frænkum eða frændum.

Þetta er eitt af því sem Tamara Lackey kenndi okkur. Færni hennar í að taka andlits- og lífsstílsmyndir sýnir fram á mikla innsýn hennar og einnig hversu örugg hún er um það hvernig nauðsynlegt er að nálgast hlutina. Tamöru tekst stöðugt að fanga stemninguna, augnablikin og svipbrigðin sem skapa minnisstæðar myndir af börnum.

Hér er fleira sem við lærðum:

Aldur og væntingar

Aldur barnanna ræður því hversu miklu er hægt að búast við af þeim. „Þegar ég tek myndir af yngri börnum, ungabörnum og smábörnum, felst hluti af vinnunni í að halda þeim í skefjum“, segir Tamara. „Ég veit að þau hafa engan áhuga á að vera ljósmynduð [og] ég þarf að halda þeim á sínum stað. Ég verð því að nýta þessa millisekúndu sem ég fæ til þess að ná góðum svipbrigðum.“ Þetta getur falið í sér að gera myndatökuna, eða hluta hennar, að leik til að halda barninu kyrru á þeim punkti sem Tamara hefur valið. Þetta getur einnig falið í sér að setja upp tökustað og færa barnið varlega þangað „á vingjarnlegan hátt.“ „Ég hugsa stöðugt um það hvernig ég get myndað þau án þess að ná alltaf myndum af hnakkanum á þeim. Ég er ekki með miklar væntingar um hvaða viðbrögð ég get fengið frá börnum á þessum aldri og nýti því öll tækifæri sem gefast.“   

Tamara segir að börn á aldrinum fjögurra til níu ára gefi mikið af sér. „Þau gefa mér svo mikið, horfa á mig gera hitt og þetta, og því þarf ég að gæta þess að taka myndir af þeim að leik ásamt myndum af þeirra náttúrulegu svipbrigðum.“

Þegar börnin eru á aldrinum 9 til 12 eða 13 ára tekur Tamara myndir af ungmennum sem eru meðvituð um útlit sitt og hvernig aðrir sjá þau. „Þau hugsa um hvort þau séu töff eða falleg eða hvort þau séu í flottum fötum eða hvort myndirnar muni líta vel út á Instagram. Hluti af starfi mínu er að gefa þeim sjálftraust og láta þeim líða vel. Og ég reyni allt sem ég get til að mynda þau þannig að þau líti vel út því að það skiptir þau meira máli núna. Þegar ég sýni þeim að ég sé að taka góðar myndir af þeim, með því að stilla þeim rétt upp og nota góða lýsingu, fæ ég jákvæðari viðtökur.“   

Þegar Tamara myndar unglinga segir hún þeim satt: „Hvort sem ég segi það beint eða ekki þá geri ég þeim ljóst að ég viti að þau vilji ekki vera hér í myndatöku.“ Hún lætur þau vita að hún standi með þeim, setur fram tímamörk – „þetta tekur kannski tvær klukkustundir“ – og hefst handa við að leita að og fanga ósjálfráð svipbrigði sem staldra aðeins stutt við. „Það tekur aðeins sekúndu að fá þau til að hlæja eða setja upp sterkan svip áður en þau muna að þau eiga ekki að bregðast við mér.“ Hún ræðir við ungmennin en forðast klisjuna „Hvað ert þú að læra?“ því hún virkar ekki. „Þau eru með tilbúin svör og svipbrigði fyrir þessa spurningu,“ segir hún. Hún spyr þau í staðinn um afstöðu þeirra til lagafrumvarpa sem rætt er um á þingi. Hún mælir velgengni sína í myndatöku á unglingum á því hversu oft hún fær að heyra „Mér datt ekki í hug að þú næðir svona góðum myndum!“ þegar unglingarnir sjá myndirnar á myndavélarskjánum.

„Þegar þú horfir á myndband af mér að taka myndir af börnum virðist ég ekki ná neinum góðum myndum, en sá tími sem ég þarf til að fanga svipbrigði er aðeins 1/200 eða 1/1000 [úr] sekúndu. Ég er ekki að stressa mig of mikið í myndatökum því ég veit að ég þarf aðeins sekúndubrot hér og þar. Ef ég næ átta eða tíu slíkum er það allt sem ég þarf.“

Rétti búnaðurinn

Hér kemur búnaðurinn við sögu. Ef þú hefur aðeins nokkrar millisekúndur til að fanga svipbrigði, og kannski örlítið lengri tíma fyrir uppstilltar myndir, þarftu hraðvirkar linsur og mikinn lokarahraða til að auðvelda þér verkið. Þú þarft einnig að vinna hratt og því er mikilvægt að þekkja vel búnaðinn sem þú vinnur með. „Verst er þegar frábært augnablik á sér stað og þú ert í rangri stillingu eða ekki tilbúin,“ segir Tamara, en henni finnst að hraðinn við notkun búnaðarins ætti að vera sem annað eðli manns.

Traustið skiptir máli

Að öðlast traust einstaklinganna í myndatökunni er mikilvægt, bæði fyrir atvinnuljósmyndara og fjölskylduljósmyndara. „Þegar þú tekur myndir af börnunum þínum, frænkum eða frændum,“ segir Tamara „er best að byrja á því að segja „Markmið mitt er að ná góðum myndum og hafa gaman“.“ Svo lætur þú þau vita að þau eigi stóran þátt í að myndirnar takist vel. Það byggir upp sjálfstraust þeirra.“

Haltu tengingunni

Tamara tekur oft myndir þar sem hún heldur myndavélinni frá líkamanum til að halda samskiptunum við einstaklinginn lifandi. „Stundum þegar þú færir stóra, svarta kassann fyrir framan andlitið á þér stöðvast öll samskipti,“ segir hún. „Það truflar mig ekki að taka myndir með myndavélina frá andlitinu og þannig get ég átt samskipti við myndefnið og náð fram skemmtilegum svipbrigðum. Stundum virðist barnið horfa framhjá myndavélinni en það er í raun að horfa á mig á meðan ég tek myndir með myndavélina frá líkamanum.“ Til að ná þessu fram notar hún oft gleiðhornslinsu, t.d. 35 mm, eða stillir brennivídd aðdráttarlinsunnar í hámark. „24–70 mm linsan hentar vel fyrir þessa tækni,“ segir hún.

Áhersla á svipbrigði

„Alltaf þegar ég tek mynd og horfi á rammann sem ég er að fara að mynda hugsa ég um hvað ég get fjarlægt,“ segir Tamara. „Því meira sem ég get fjarlægt því fallegri verða svipbrigði manneskjunnar því að þeir sem skoða myndirnar einblína strax á það sem skiptir máli. Allt sem gæti truflað hefur verið fjarlægt. Þetta snýst ekki aðeins um að „einfalda bakgrunninn“ – flestir vita að ef þú vilt ná fram sterkari mynd þarftu að hafa hana einfaldari – þetta snýst meira um að „einfalda allt í rammanum sem tekur athygli frá því sem þú vilt sjá.“ Þetta getur þýtt að þú þurfir að fjarlægja einhverja hluti eða skipta um sjónarhorn, jafnvel þótt lýsingin verði ekki eins sterk og að bæta þurfi við ljósum. Ef útlitið og tilfinningin er einfaldari styð ég það. Einfaldur rammi getur haft mikil áhrif á það hversu sterkar myndir geta verið og hversu mikil áhrif svipbrigðin á þeim hafa.“

Myndatakan er stöðugt í gangi

Þú færð engan upphitunartíma þegar þú tekur myndir af börnum. Ekki eyða einni sekúndu. „Ég sé ljósmyndara eða foreldra oft í myndatöku þar sem þeir tala við barnið og það bregst við því sem þau segja eða hlær en engar myndir eru teknar. Þeir gleyma að þetta snýst allt um myndina. Þú verður að vera tilbúin við upphaf hverrar myndatöku.“

Tamara segir að hjá sumum nái hún bestu myndunum í upphafi myndatökunnar en hjá öðrum við lok hennar. Hún veit aldrei hvernig myndatakan fer og þess vegna hugsar hún alltaf: „Myndatakan er stöðugt í gangi.“

Uppbygging og enduruppbygging

Ekki missa af myndinni þótt myndbyggingin sé ekki fullkomin. „Stundum þarf myndbyggingin af viðkomandi einstaklingi að vera önnur en ég myndi vilja,“ segir Tamara, „en ég veit að myndefnið er skýrt og ég get skorið myndina til síðar til að breyta mynduppbyggingunni og ná fram útlitinu og yfirbragðinu sem ég leitaði eftir.“ Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að hún kýs upplausn D800- og D4-vélanna. „Ég get skorið myndina til og samt fengið frábæra mynd. Ég nýt þess að hafa þetta svæði til að leika mér með.“

Linsur

„Það getur verið slæmt að þurfa að stíga til baka vegna þess að þú ert með langa linsu á myndavélinni og missa þannig stjórn á myndefninu. Með 35 mm linsunni get ég haldið nálægðinni, og jafnvel náð fram grunnri dýptarskerpu, ef ég aðskil myndefnið frá bakgrunninum.“

Liggur stjórnin í nálægðinni? „Þau þurfa að veita þér athygli vegna þess að þú ert svo nálægt þeim,“ segir hún, „og ég þarf yfirleitt að vera nálægt þeim til að halda stjórninni. Ég tapa tengingunni þegar ég nota langa linsu og færi mig fjær. Valið á linsunni leyfir mér að vera í seilingarfjarlægð frá börnunum þegar ég þarf að beina þeim aftur inn í rammann og ég geri það með yngstu börnin. Þegar þau fara af stað þarf ég að velta þeim aftur inn í rammann.“