Nikon Imaging | Ísland | Europe

Fimm einföld ráð varðandi myndbyggingu í ljósmyndun

Þú hefur ef til vill ekki áttað þig á því, en í hvert sinn sem þú berð myndavélina upp að auganu ertu að taka ákvörðun um myndbyggingu. Myndbygging er einfaldlega það hvernig þú rammar inn myndina sem þú ætlar að taka. Skrifaðar hafa verið margar bækur um myndbyggingu. Og þótt líklega rammi engir tveir ljósmyndarar sama myndefnið inn á sama hátt er hægt að greina ákveðnar leiðarlínur sem geta hjálpað þér að gera ljósmyndirnar þínar áhugaverðari fyrir augað.

Þriðjungareglan

Þriðjungareglan er til leiðbeiningar um hvernig sýna má myndefnið á sem áhrifamestan hátt.

Þegar þú lítur í gegnum leitarann eða á LCD-skjáinn á myndavélinni er gott að ímynda sér hnitanet eins og í myllu. Netið samanstendur af fjórum línum sem skipta myndinni í níu reiti.

Athugaðu að sumar Nikon-myndavélar eru meira að segja með valmyndaratriði þar sem hægt er að kveikja á slíkum hnitanetslínum á leitaranum (eða á skjánum). Hnitanetslínurnar leiðbeina þér við að ramma myndina inn en sjást ekki á endanlegu myndinni.

Taktu eftir hvar línurnar fjórar skarast. Þriðjungareglan segir til um að þessir skurðpunktar séu staðirnir þar sem best er að hafa mikilvægustu hlutina á myndinni. Sé það gert verður myndin almennt kraftmeiri og áhugaverðari.

Myndefnið þarf ekki að vera staðsett nákvæmlega á skurðpunktinum. Svo lengi sem það er nálægt honum verður myndin vel uppbyggð og áhrifamikil. Prófaðu mismunandi myndbyggingu til að sjá hvað þér finnst koma best út.

Þessar sömu hnitanetslínur geta hjálpað þér að halda sjóndeildarhringnum láréttum og lóðréttum hlutum beinum.

© Diane Berkenfeld

D4, AF-S NIKKOR 200-400mm f/4G ED VR II linsa, 1/1600 sek., f/4, ISO 200, miðjusækin ljósmæling, forgangur ljósops.

Hér má sjá hnitanet á mynd af tveimur inkaþernum: Höfuð fuglanna eru staðsett á skurðpunktum línanna í samræmi við þriðjungaregluna.

© Diane Berkenfeld

D4, AF-S NIKKOR 200-400mm f/4G ED VR II linsa, 1/1600 sek., f/4, ISO 200, miðjusækin ljósmæling, forgangur ljósops.

Þessi mynd af tveimur inkaþernum í dýragarði er dæmi um notkun þriðjungareglunnar.

© Diane Berkenfeld

D4, AF-S NIKKOR 200-400mm f/4G ED VR II linsa, 1/800 sek., f/4, ISO 200, miðjusækin ljósmæling, forgangur ljósops.

Hér sést hvernig hnitanetslínurnar segja til um staðsetningu myndefnisins samkvæmt þriðjungareglunni.

© Diane Berkenfeld

D4, AF-S NIKKOR 200-400mm f/4G ED VR II linsa, 1/800 sek., f/4, ISO 200, miðjusækin ljósmæling, forgangur ljósops.

Þessi mynd af gíraffa sem situr í grasinu í dýragarði er mjög gott dæmi um hvernig þriðjungareglan skapar myndbyggingu sem grípur athyglina.

Að staðsetja sjóndeildarhringinn á myndfletinum

Flestar myndir verða fallegri ef sjóndeildarhringurinn er hafður fyrir ofan eða neðan miðju rammans (ekki á myndinni miðri). Undantekning frá þessu er þegar taka á mynd af myndefni sem speglast. Þá getur átt vel við að hafa sjóndeildarhringinn í miðjunni því að þá er jafnvægi milli efri og neðri hluta myndarinnar – landslagið fyrir ofan og speglunin fyrir neðan.

© Diane Berkenfeld

D100, AF VR Zoom-NIKKOR 80-400mm f/4.5-5.6D ED linsa, 1/5 sek., f/22 ISO 200, punktmæling, handvirk.

Þegar tekin er mynd af landslagi skal hafa sjóndeildarhringinn nær efri eða neðri (eins og hér) brún rammans.

© Diane Berkenfeld

D4, AF-S NIKKOR 200-400mm f/4G ED VR II linsa, 1/800 sek., f/4, ISO 200, miðjusækin ljósmæling, forgangur ljósops.

Yfirleitt er betra að hafa sjóndeildarhringinn fyrir ofan eða neðan miðju, ekki alveg í miðjunni. Ef þú ert hins vegar að taka mynd af myndefni sem speglast er í lagi að brjóta þessa reglu.

Hallað í átt að rammanum

Þegar taka á myndir af fólki og dýrum er best að það horfi í átt að rammanum. Ef hreyfing er á myndinni skaltu gefa meira pláss þeim megin sem hreyfingin stefnir. Það er eðlilegra og gefur áhorfandanum betri tilfinningu fyrir hreyfingu og þeirri sögu sem myndin segir. Stilltu myndefninu þannig upp að stærsta opna svæðið á myndinni sé í þá átt sem myndefnið snýr.

© Diane Berkenfeld

D4, AF-S NIKKOR 200-400mm f/4G ED VR II linsa, 1/640 sek., f/4, ISO 200, miðjusækin ljósmæling, forgangur ljósops.

© Diane Berkenfeld

Á þessari mynd af svörtum svani sem syndir á vatni er fuglinn í miðjunni og myndbyggingin ekki mjög spennandi.

© Diane Berkenfeld

Með því að skera myndina getum við fært myndefnið í efra hægra horn rammans og fengið út mun áhugaverðari myndbyggingu.

Á lokamyndinni beinir myndefnið auga áhorfandans út fyrir rammann með því að fylgja reglunni um að hafa meira autt svæði fyrir framan myndefnið. © Diane Berkenfeld

Ráðandi línur

Þegar þú tekur myndir af húsum eða öðru myndefni með skýrar línur skaltu byggja myndina þannig upp að línur byggingarinnar leiði auga áhorfandans í gegnum ljósmyndina. Þessar „ráðandi línur“ geta verið meginmyndefni ljósmyndarinnar eða þá línur sem beina auganu að tilteknum mikilvægum brennipunkti á myndinni.

Bogadregnar línur bjóða einnig upp á spennandi myndbyggingu. Þær geta beint auganu að mismunandi hlutum myndarinnar. Bogalínur geta verið aðalmyndefnið eða (eins og ráðandi línur) gegnt því hlutverki að beina athyglinni að mikilvægustu svæðum myndarinnar.

© Diane Berkenfeld

D100, AF-S VR Zoom-NIKKOR 24-120mm f/3.5-5.6G IF-ED linsa, 1/60 sek., f/4, ISO 200, miðjusækin ljósmæling, kerfi.

Þessi mynd er dæmi um hvernig sveigðar línur í myndefninu geta leitt auga áhorfandans um rammann.

© Diane Berkenfeld

D100, AF-S NIKKOR 24-120mm f/4G ED VR linsa, 1/90 sek., f/5, ISO 320, fylkisljósmæling, kerfi.

Þessi mynd er með sterkar ráðandi línur sem beina auganu frá hægri hluta myndarinnar og til vinstri, inn ganginn.

Mynstur og áferð

Endurtekin mynstur geta einnig skapað áhugaverðar ljósmyndir. Mynstur, hvort sem er úr náttúrunni eða manngerð, má nýta til að taka myndir með sterkri myndbyggingu. Leitaðu eftir mynstrum í mismunandi einingum myndefnisins. Þú sérð kannski kassa af eplum og gefur honum ekki mikinn gaum, en með því að taka nærmynd af ávöxtunum sjálfum geturðu fangað endurtekin mynstur lita og áferðar. Taktu einnig eftir frávikum í mynstrinu. Hvað ef öll eplin í kassanum væru rauð en einhver setti gult epli inn á milli þeirra? Þá værir þú með endurtekið mynstur sem væri brotið upp (með gula eplinu), sem gæfi þér sterkan brennipunkt.

Áferð getur líka verið spennandi viðfangsefni. Farðu nálægt myndefninu, annaðhvort með því að auka aðdráttinn eða nota makrólinsu. Þegar þú tekur myndir af mynstri eða áferð þarftu ekki að ná myndefninu í heild. Áferð getur verið mjúk, svo sem fuglsfjaðrir, eða hörð, eins og flagnandi málning eða viðaryfirborð.

Ryð og flagnandi málning á þessum fiskibáti er góð stúdía í áferð. Skært sólarljósið fellur á bátinn og dregur fram áferðina á mörgum lögum af málningu og ryði.

© Diane Berkenfeld

D3X, AF-S DX Micro NIKKOR 85mm f/3.5G ED VR linsa, 1/200 sek., f/7,1, ISO 160, fylkisljósmæling, kerfi.

Taktu eftir

Fæst fólk hugsar um myndbyggingu þegar það skoðar myndir, en veit hins vegar nákvæmlega hvenær því líkar myndin, jafnvel þótt það geti ef til vill ekki sagt til um hvers vegna. Til að auka færni þína í myndbyggingu skaltu skoða myndir ljósmyndara sem þú lítur upp til. Gefðu því gætur hvernig þeir staðsetja myndefnið innan rammans. Taktu eftir því hvernig bakgrunn þeir nota. Hvað er haft með á myndinni og hverju kann að hafa verið sleppt? Skoðaðu nú einhverjar af þínum eigin myndum og veltu fyrir þér hvernig þú hefðir getað gert myndina betri með því að breyta myndbyggingunni.

Þessar leiðbeiningar eru bara upphafspunktur. Mundu að til er undantekning frá hverri reglu. Ekki veigra þér við að stíga út fyrir kassann ef þú telur að það sé til bóta fyrir ljósmyndina.


Grein og myndir frá Diane Berkenfeld.