Nikon Imaging | Ísland | Europe

Nina Berman

Nina Berman er bandarískur heimildaljósmyndari sem leggur megináherslu á hið pólitíska og félagslega landslag í Bandaríkjunum. Hún er höfundur tveggja vinsælla bóka: „Purple Hearts - Back From Iraq“, sem hefur að geyma ljósmyndir og viðtöl við særða hermenn, og „Homeland“, þar sem farið er í saumana á hervæðingu í lífi Bandaríkjamanna eftir 11. september.

Pep Bonet

Pep Bonet er verðlaunakvikmyndagerðarmaður og -ljósmyndari búsettur á Spáni, sem myndar áhrifarík augnablik um allan heim sem endurspegla ójafnvægi heimsins. Í langtímaverkefnum sínum leggur hann áherslu á málefni Afríku og yfirstandandi verkefni hans um HIV/alnæmi hefur leitt af sér nokkrar bækur og margar sýningar víða um heim. Pep er einnig þekktur fyrir langtímaverkefni sitt þar sem hann fjallar um rokkhljómsveitina Mötorhead.

Andrea Bruce

Bandaríski heimildaljósmyndarinn Andrea Bruce beinir kastljósinu að málefnum fólks sem þarf að kljást við afleiðingar stríðs. Í meira en áratug hefur hún skrásett mestu óróasvæði heimsins, með megináherslu á Írak og Afganistan. Hún var innanhússljósmyndari hjá Washington Post og meðal verðlauna sem hún hefur hlotið má nefna heiðursverðlaun fréttaljósmyndarasamtaka Hvíta hússins.

Alixandra Fazzina

Breski ljósmyndarinn Alixandra Fazzina beinir linsunni einkum að átökum sem hlotið hafa litla umfjöllun og mannúðartengdum afleiðingum stríðsátaka. Hún hefur starfað sjálfstætt sem fréttaljósmyndari um alla Austur-Afríku, Austurlönd nær og Asíu. Í bók hennar „A Million Shillings“ er fjallað um brottflutninga flóttamanna og annars fólks frá Sómalíu.

Stanley Greene

Stanley Greene var fæddur í Bandaríkjunum og fjallaði um allt frá pönktímabilinu í San Francisco á 8. og 9. áratugnum yfir í fall Berlínarmúrsins, hungursneyð í Súdan, afleiðingar gaseitrunarinnar í Bhopal og átök uppreisnarmanna í Tsjetsjeníu. Bók hans „Black Passport“ kom út árið 2010 og hann vann til fimm verðlauna í World Press Photo fyrir störf sín um allan heim.
Stanley Greene var stofnaðili NOOR. Stanley lést í París, Frakklandi, þann 19. maí 2017

Tanya Habjouqa

Tanya Habjouqa er margverðlaunaður ljósmyndari, blaðamaður og kennari, búsett í Austur-Jerúsalem. Meðal helstu viðfangsefna hennar eru kynhlutverk, birtingarmyndir framandleika, jaðarsetningar, valdsviptingar og mannréttinda, með sérstakri áherslu á síbreytileg félagsleg og pólitísk valdahlutföll í Austurlöndum nær. Verk hennar, „Ánægja í ánauð“ (e. „Occupied Pleasures“), hlaut verðlaun World Press Photo og endaði sem bók.

Yuri Kozyrev

Yuri Kozyrev frá Rússlandi hefur fjallað um ýmsa viðburði sem breytt hafa heimsmyndinni í meira en aldarfjórðung, allt frá hruni Sovétríkjanna yfir í Íraksstríðið, þar sem hann starfaði sem ljósmyndari fyrir TIME Magazine. Nýlega hefur hann fjallað um uppreisnir Araba og afleiðingar þeirra í Barein, Jemen, Túnis, Egyptalandi og Líbíu. Verk hans hafa verið sýnd víða og hann hefur unnið til fjölmargra alþjóðlegra verðlauna.

Bénédicte Kurzen

Franski heimildaljósmyndarinn Bénédicte Kurzen hóf feril sinn á að mynda átökin á Gasaströndinni, í Írak og Líbanon. Undanfarinn áratug hefur hún einkum beint sjónum sínum að Afríku og kannað samfélagið eftir lok aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku ásamt nýlegri umfjöllun um Nígeríu. Styrkur frá Pulitzer-miðstöðinni gerði henni kleift að vinna verk í Nígeríu sem kallast „Þjóð í greipum guðanna“ (e. „A Nation Lost To Gods“).

Sebastián Liste

Spænski heimildaljósmyndarinn og félagsfræðingurinn Sebastián Liste fjallar um djúpstæðar menningarlegar breytingar og málefni líðandi stundar í Rómönsku-Ameríku og í löndunum umhverfis Miðjarðarhafið. Hann sérhæfir sig í langtímaverkefnum þar sem hann kafar djúpt í viðfangsefnið í því skyni að hvetja samfélög til að velta fyrir sér félagslegum afleiðingum af stefnu þeirra. Verk hans á borð við „Fyrir innan“ (e. „On The Inside“), þar sem lífið innan fangelsismúra í Venesúela er tekið til skoðunar, hafa hlotið fjölmörg verðlaun.

Kadir van Lohuizen

Kadir von Lohuizen frá Hollandi hefur fjallað um stríðshrjáð svæði en er þó líklega best þekktur fyrir langtímaverkefni sín um sjö ár heimsins, hækkandi yfirborð sjávar, demantaiðnaðinn og búferlaflutninga í Norður- og Suður-Ameríku. Demantaverkefnið hans endaði sem ljósmyndabókin „Diamond Matters“ og hlaut verðlaun í World Press Photo, auk þess sem verk hans „Vía PanAm“ varð bæði að farandsýningu og bók.

Jon Lowenstein

Bandaríski fréttaljósmyndarinn Jon Lowenstein sérhæfir sig í langtímarannsóknum þar sem hann kafar djúpt í málefni sem snerta vald, fátækt, kynþáttamismunun og ofbeldi. Í verki sínu „Skuggalíf í Bandaríkjunum“ (e. „Shadow Lives USA“) fylgist hann með fólki á faraldsfæti frá Mið-Ameríku og meðal annarra verkefna hans má nefna afleiðingar jarðskjálftans á Haítí og félagslegt ofbeldi í Gvatemala. Hann hefur unnið til ýmissa verðlauna og er félagi í TED Global.

Francesco Zizola

Ítalski heimildaljósmyndarinn Francesco Zizola hefur fjallað um helstu átök heimsins, með áherslu á félagsmál og mannúðarmálefni, og brugðið upp mynd af slæmum aðstæðum sem almenningur hefur gleymt og fjölmiðlar hafa sýnt lítinn áhuga. Hann hefur fengið 10 verðlaun í World Press Photo og gefið út sjö bækur, þar á meðal „Born Somewhere“, þar sem brugðið er ljósi á lífsskilyrði barna í 27 löndum.