Nikon Imaging | Ísland | Europe

STUDD VERKEFNI

Heimildaljósmyndarar NOOR vinna saman að hópverkefnum sem ætlað er að vekja athygli á alþjóðlega mikilvægum málefnum. Meðal rannsóknarverkefna má nefna „Afleiðingar“ (e. „Consequences“) sem fjallar um loftslagsbreytingar, „Matvæli í nærmynd“ sem fjallar um birgðakeðju matvæla og matarsóun, „Hin nýja Brasilía“ (e. „The New Brazil“) sem fjallar um góðærið í landinu, „Nútímaþrælahald“ (e. „Modern Day Slavery“) og „Afríka í brennidepli“ (e. „Light on Africa“).

Afleiðingar

„Afleiðingar“ beina kastljósinu að loftslagsbreytingum af völdum hækkandi hitastigs í heiminum. Verkið, sem er margra ára hópverkefni, var sýnt á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn 2009 þar sem ljósmyndarar NOOR tóku þátt í pallborðsumræðum með alþjóðlegum sérfræðingum og stefnumótendum.

Lausnir

Í framhaldi af „Afleiðingum“ eru í verkefninu „Lausnir“ skoðaðar leiðir til að vinna gegn loftslagsbreytingum og áhersla lögð á þær lausnir sem fela í sér sjálfbærari lífshætti. Hópverkefninu lauk árið 2010 og það felur í sér frásagnir um nýja orkugjafa, endurnýjanlega orku og leiðir til að takast á við hækkandi hitastig í umhverfinu.

Hin nýja Brasilía

„Hin nýja Brasilía“ er vitnisburður um land sem gengur í gegnum hraðar breytingar í flóknu nútímasamfélagi á tímum vaxandi góðæris. Hópverkefni NOOR veitir innsýn í fjölbreytni þessarar þjóðar sem ræður yfir miklum fjölda náttúruauðlinda og býr að litríkri fjölmenningu ásamt því að setja mark sitt á alþjóðavettvang í síauknum mæli.

Matvæli í nærmynd

„Matvæli í nærmynd“ beinir sjónum okkar að birgðakeðjunni og matarsóun í heiminum, þar á meðal furðulegum viðburðum eins og átkeppnum í Bandaríkjunum þar sem þátttakendur háma í sig mat til að vinna verðlaun. Verkefnið greinir frá hreyfingum sem vinna gegn matarsóun sem er ekki aðeins efnahagslegt vandamál heldur líka vandamál sem snertir sjálfbærni.

Nútímaþrælahald

Ljósmyndarar NOOR kafa ofan í dökkan heim mansals og þrælkunar í verkinu „Nútímaþrælahald“. Með þessu hópverkefni er fólk vakið til vitundar um neyðina sem fylgir þessu vandamáli sem talið er að hafi áhrif á um 20,9 milljónir manna, þar af 27% börn, í löndum víðsvegar um heiminn.

Afríka í brennidepli

„NOOR um Afríku“ merkir „Afríka í brennidepli“. Með því er sjónum beint að heimsálfunni á nýjan hátt og efast um hvernig sögur eru samsettar og sagðar. Portrett af Afríku voru mynduð úr sögum um pólitíska og félagslega tjáningu í Túnis, Suður-Súdan, Gana, Mósambík, Búrkína Fasó og Botsvana.